Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Föstudagur 22. október 1999 kl. 00:01

HILMAR JÓNSSON SKRIFAR: SPILLINGUNA VERÐUR AÐ STÖÐVA

Mótmæli Reyknesinga gegn nektardansstöðum hefur vakið mikla athygli og skilað verulegum árangri. Dæmi; Kvennaathvarfið í Reykjavík hóf kröftug mótmæli gegn klámi. Biskup Íslands tók málið til umræðu á prestastefni. Á alþjóðlegri kvennaráðstefnu í Reykjavík fordæmdu Hillary Clinton, Bandaríkjunum og Vaira Vike-Freiberga, forseti Lettlands vændi og í framhaldi af því birti Morgunblaðið 13 október leiðara um málið undir yfirskriftinni: „Nútímamynd þrælahalds.“ Guðrún Ögmundsdóttir þingmaður Samfylkingar flutti málið á Alþingi. Þar sagði félagsmálaráðherra, Páll Pétursson, að það væri í höndum sveitastjórnarmanna hvort nektardansstaðir fengju vínveitingarleyfi eða ekki. Þau ummæli ráðherrans ganga þvert gegn frægri niðurstöðu svokallaðrar „úrskurðarnefndar“ um vínveitingarleyfi til nektardansstaðarins í Grófinni. Stórathyglisverðar í þessum umræðum á Alþingi fundust mér upplýsingar Kristjáns Pálssonar alþingismanns um hörmulegt ástand einnar „dansmeyjar“ upp á Keflavíkurflugvelli. Hjálmar Jónsson alþingismaður tók svo djúpt í árinni, að segja að þessa spillingu yrði að stöðva þegar í stað.Það er augljóst að ofangreint fólk gerir sér grein fyrir að almenningur krefst aðgerða: beinskeyttari laga og lokunnar þessara staða. Sjálfur hefi ég fengið margar hringingar frá fólki mér ókunnugt, sem þakkar mótmæli okkar. Yfirlýsing J-listamanna í Reykjanesbæ við afgreiðslu málsins var góð og tímabær. Þá fannst mér bæjarstjóri Ellert Eiriksson halda lofsverða ræðu um nauðsyn siðgæðis í afstöðu sinni, valdamenn gætu eifaldlega ekki talað tungum tveim: stundum hampað forvörnum en á sama tíma skapað vanda með leyfisveitingum til vafasamrar starfsemi. Aumkunarvert fannst mér að sjá afstöðu íþróttamanna á fundunum: Fyrirliði knattspyrnuliðs Keflavíkur settist á bekk með botnfallinu og ekki bætti nýkjörinn formaður íþróttabandalagsins úr skák. Sumir spurðu hvort hér hefði verið um sameiginlega hagsmuni að ræða. Stendur ekki á ensku í Grófinni, að hér sé um íþróttakrá að ræða? Hver er skýring á þeim texta? Ég fullyrði að yfirgnæfandi meirihluti íbúa Reykjanesbæjar telja að nektardansstaðir séu hér óþarfir. Er það ekki grunnhugmynd lýðræðis, að meirihluti ráði í hverju máli? Hilmar Jónsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024