Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hildur sigraði í söngkeppni Fjörheima
Laugardagur 1. nóvember 2003 kl. 10:01

Hildur sigraði í söngkeppni Fjörheima

Söngkeppni Fjörheima var haldin með pompi og prakt fimmtudagskvöldið 30.október, en keppnin haldin var á sal Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Alls sungu 12 keppendur frá þremur skólum í Reykjanesbæ. Frábær frammistaða einkenndi flutning unglinganna en þau höfðu æft sig undanfarna viku í félagsmiðstöðinni Fjörheimum. Mikil fjölbreytni var í flutningi á lögunum en leikið var á píanó, selló, gítar og svo var karaokeundirspil. Keppnin tókst ákaflega vel og eiga allir sem tóku þátt á einn eða annan hátt mikinn heiður skilinn. Kynnar voru þau Helga Dagný Sigurjónsdóttir og Aron Örn Grétarsson og stóðu þau sig mjög vel.

Sérstök heiðursverðlaun fékk Friðrik Guðmundsson fyrir frábæra ástundun í félagsmiðstöðinni og fyrir dugnað að taka þátt í söngkeppni Fjörheima, en eins og kunnugt er Friðrik bundinn við hjólastól. Í þriðja sæti var svo Guðmundur Arnar Guðmundsson en hann flutti lag eftir Sverri Stormsker við undirleik Elvars Þórs Guðbjartssonar. Í öðru sæti voru þær stöllur Halla Karen Guðjónsdóttir og Guðmunda Áróra Pálsdóttir með lag Gloriu Gaynor I will survive. Í fyrsta sæti var það svo Hildur Haraldsdóttir með lagið Foolish games eftir Jewel, en hún lék sjálf undir á píanó og Sigríður Ösp Sigurðardóttir spilaði á Selló. Hildur hlaut í verðlaun lampa og dekurdag í boði Fjörheima. En Hildur og Sigríður munu fara í Bláalónið, keilu út að borða og bíó í desember n.k.

 Hildur Haraldsdóttir mun syngja í tveimur keppnum í janúar 2004 fyrir hönd Fjörheima annarsvegar í söngkeppni Samsuð og einnig í söngkeppni Samfés sem haldin verður í Laugardalshöllinni. Guðmunda Áróra og Halla Karen taka þátt fyrir hönd Fjörheima í söngkeppni Samsuð.

 

Dómnefndin var skipuð Ingibjörgu Ósk Erlendsdóttur, Hafþóri Barða Birgissyni og Jóni Marinó Sigurðssyni og er þeim þakkað vel fyrir.

 

Sérstakar þakkir fá húsverðir við Fjölbrautarskólann, þjónustumiðstöð Reykjanesbæjar, Siggi hljóðmaður, Einar Símonar og allir þeir sem hjálpuðu til við að gera keppnina jafn glæsilega og raun bar vitni.

Hafþór Barði Birgisson

Myndasyrpa frá keppninni er á heimasíðu Fjörheima www.fjorheimar.is

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024