Hestamenn framtíðarinnar á námskeiði
Það voru spenntir krakkar sem voru í reiðskóla Mána á mánudagsmorgun, en þetta var fyrsti dagurinn á vikulöngu námskeiði hjá krökkunum. Námskeiðin eru ætluð fyrri börn fædd á árunum 1991-1997. Reiðnámskeiðin standa til 23. júlí og enn eru nokkur sæti laus á námskeiðin.
Elva Björk Margeirsdóttir er einn leiðbeinenda á reiðnámskeiðinu og segir hún að byrjað sé á því að láta krakkana fá hesta. „Þeim er síðan kennt að sitja rétt og stjórna hestinum. Við leggjum einnig mikla áherslu á að kenna krökkunum umgengni við hesta og að hirða þá, “ segir Elva en eftir að krakkarnir eru búnir að læra að fara fetið á hestinum fara þau rólega yfir á töltið. „Síðasta daginn á námskeiðinu förum við í reiðtúr með krökkunum og það er náttúrulega aðalstuðið,“ segir Elva.
Foreldrar sem hafa áhuga á því að fá reiðnámskeið fyrir börn sín er bent á að hringja í síma 867-9556 eða 867-7460.
Myndin: Leiðbeinendurnir Elva Björk, Camilla, Heiða og Sóley ásamt reiðskólanemendum. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.