Herrakvöld GS í kvöld – Henson og fleiri góðir gestir
Herrakvöld Golfklúbbs Suðurnesja verður haldið í golfskálanum í Leiru í kvöld en þetta er árlegt fjáröflunarkvöld hjá klúbbnum. Að venju verður glæsilegt sjávarréttahlaðborð í boði en klúbburinn á marga vini sem tengjast sjávarútvegi og þeir gefa klúbbnum allan fisk sem framreiddur er á kvöldinu.
Auk hins ljúfa matar verður vegleg dagskrá sem Halldór (Henson) Einarsson, Valsari og viðskiptamaður mun stýra en Henson er þekktur fyrir skemmtilega veislustjórn. Sigurður Ingi Jóhannsson, oddviti framsóknarmanna í Suðurkjördæmi verður ræðumaður kvöldsins en hann er dýralæknir og þykir með skemmtilegri mönnum á suðurlandi. GS hefur alla tíð verið með happdrætti og uppboð en nú skal það fyrrnefnda gert með stæl og verða um fimmtíu vinningar í boði, m.a. tveir Evrópufarmiðar með Icelandair en einnig margir aðrir veglegir vinningar. Lífskúnsterinn, tónlistarmaðurinn og lisamaðurinn Guðmundur Rúnar Lúðvíksson mun mæta með hljómsveit í golfskálann og leika nokkur lög fyrir herrakvöldsgesti.
Undanfarin ár hefur verið góð mæting á þetta árlega sjávarréttakvöld GS og er ekki von á breytingum í þeim efnum. Nokkrir miðar eru lausir og þeir sem hafa áhuga á næla sér í þá geta hringt í Gunnar í s. 846-0666 eða Pál í síma 893-3717.