Hér hafa fallið tár
– segja eigendur Hunda- og kattahótelsins á Ásbrú sem tóku upp á því að bjóða ferfættum Grindvíkingum fría gistingu á þessum hamfaratímum.
Elmar Þór Magnússon, Sæunn Hilmarsdóttir og Harpa Lind Magnúsdóttir opnuðu Hunda- og kattahótelið á Ásbrú í apríl 2021 en áður hafði Elmar rekið hundahótel norður í landi frá árinu 2013 til 2020. Hunda- og kattahótelið er lítið fjölskyldufyrirtæki en öll eru þau úr Garðinum, Elmar og Harpa eru systkini og Sæunn er eiginkona Hörpu.
Gisting og hundaleikskóli
Elmar segir að vel hafi gengið frá því þau opnuðu og hótelið fengið góðar móttökur. „Við erum búin að stækka töluvert síðan við opnuðum. Þetta er upp og niður eins og gengur og gerist, það er mikið að gera en svo koma auðvitað rólegir tímar inn á milli – en þegar flestir eru í fríi er mest að gera hjá okkur.“
Aðstaðan hjá þeim hefur stækkað um helming síðan þau hófu rekstur á Ásbrú og þau geta því tekið á móti fleiri dýrum í gistingu. Í upphafi voru þau með rými fyrir 44 dýr en eru komin upp í 82 eftir viðbætur.
Hvað fær fólk til að fara út í svona rekstur?
„Þú þarft náttúrlega að hafa gríðarlegan áhuga á dýrum – vera dýravinur,“ segja þau samhljóða.
„Ég er búinn að vera í þessu í tíu ár,“ segir Elmar. „Maður myndi auðvitað ekki tolla í þessu nema af því að maður hefur svo gaman af þessu. Aðbúnaður dýranna skiptir öllu máli hjá okkur og hefur alltaf gert. „Ánægður hvutti, ánægður eigandi,“ segjum við.“
Elmar segir að gestirnir kvarti ekki og vilji ólmir koma aftur. Þeir séu farnir að ýlfra og dilla skottinu þegar þeir koma í götuna og það sýni að þeim líði vel á hótelinu.
Harpa Lind segir að þau séu líka með daggæslu, nokkurs konar leikskóla fyrir hunda og það sé orðið gríðarlega vinsælt.
„Fólk sem vinnur langan vinnudag eða þarf að útrétta kemur þá með hundana til okkar og hérna fá þeir félagsskap með öðrum hundum. Þetta er í gangi frá átta til sex alla daga vikunnar og við bjóðum upp á tíu skipta klippikort sem margir eru að nýta sér.“
Grindvískir ferfætlingar í góðu yfirlæti
Hóteleigendurnir segja að vel hafi verið tekið í það þegar þau buðu ferfættum Grindvíkingum fría gistingu á meðan ástandið er eins og það er í Grindavík.
„Síminn stoppaði varla þegar við auglýstum þetta og við höfum tekið á móti töluverðum fjölda af hundum og köttum,“ segja þau. „Fólk er svo þakklátt fyrir að geta komið dýrunum sínum í öruggt skjól – hér hafa fallið tár.“
„Við tókum við eitthvað um fjörutíu dýrum og tuttugu þeirra eru ennþá hjá okkur,“ bætir Harpa við.
„Þetta eru dýr sem höfðu ekki í önnur hús að venda. Fólk er kannski inn á fjölskyldu og vinum og getur ekki haft dýrin hjá sér. Það getur verið ofnæmi eða eitthvað annað sem kemur í veg fyrir það,“ segir Elmar.
Hrepparígurinn á Suðurnesjum hefur verið áberandi í gegnum tíðina en þegar á reynir er hann ekki til staðar. Þau segja að eins og aðrir þurfi þau að leggjast á árarnar með Grindvíkingum og aðstoða eftir fremsta megni. „Við höfum laust pláss hjá okkur og það er gott að geta nýtt það svona. Þegar eitthvað bjátar á skín náungakærleikurinn í gegn og allir hjálpast að,“ sögðu dýravinirnir að lokum.