Hentug hús og íburður lítill
Parhús seljast grimmt í Grindavík.
Mikið hefur verið byggt af parhúsum í Grindavík á undanförnum misserum og þau sett svip sinn á bæinn. Verktakinn sem byggir og selur húsin er Trésmiðja Heimis í Þorlákshöfn. Sigmar Árnason, byggingafulltrúi Grindavíkurbæjar, var fenginn til þess að spjalla um þetta.
Seljast jafn óðum
„Við vorum með fjórar parhúsalóðir og verktakinn sótti strax um lóðir og byggði þar tvö parhús. Hann seldi þau nánast um leið og hann byrjaði á þeim. Svo sótti hann um að breyta raðhúsalóðum í parhúsalóðir og er að fara að byrja á þeim og er í raun búinn að selja megnið af þeim líka.“ Sigmar segir byggingarmátann ódýran því tvær íbúðir séu byggðar í einu og húsin að auki auðveldari í sölu en raðhús. „Miðjuhús í raðhúsalengju eru aðeins með glugga í norður og suður og seljast síður en endahúsin. Við erum reyndar líka með raðhús í byggingu en þau eru ekki eins vinsæl.“
Byggð í Þorlákshöfn en flutt hingað
Sigmar segir verktakann vera að byggja sjö parhús og hann sé búinn að selja fimm og hálft þeirra. Um sé að ræða tvo botnlanga í sama hverfi. „Þetta eru hálfpartinn eins og einingahús. Hann byggir þau í Þorlákshöfn og flytur þau hingað. Hann byggir mestmegnis sumarhús en parhúsin líka.“ Aðspurður segir Sigmar að hann hafi heyrt að fólk fái húsin á góðu verði og geti einnig keypt þau á mismunandi byggingarstigum. Þetta séu hentug hús, þriggja herbergja og ekki of stór og íburður ekki mikill.
Nóg að gera hjá verktökum
Um stöðu nýbyggingamála í bænum segir Sigmar að verið sé í raun að klára eitt hverfi og þá séu allar lóðir byggðar á því svæði. „Svo erum við einnig með stórar einbýlishúsalóðir. Búið er að byggja á 20% af því svæði sem gert er ráð fyrir að byggja á. Það er sko nóg að gera hjá verktökum í bænum. Búið að byggja nokkur iðnaðarhúsnæði, sólstofur og alls kyns önnur verkefni.“ Eignir sem bankarnir áttu og Íbúðalánasjóður á sé einnig verið að breyta og taka í gegn; stækka og byggja við. „Þær eignir hafa einnig verið að seljast á frekar skömmum tíma,“ segir Sigmar að lokum.
VF/Olga Björt