Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hélt að Þjóðhátíð væri ofmetin
Föstudagur 2. ágúst 2013 kl. 10:30

Hélt að Þjóðhátíð væri ofmetin

Kíkir í mat til mömmu og pabba í Njarðvík

Víkurfréttir spurðu nokkra Suðurnesjamenn út í áform þeirra um verslunarmannahelgina en fólk er ýmist á leið á útihátíðir með vinunum, í sumarbústað með fjölskyldunni eða slaka á heima við og njóta kyrrðarinnar.

Njarðvíkingurinn með eitraða vinstri fótinn, Óskar Örn Hauksson ætlar að hafa það náðugt um verslunarmannahelgina. Hinn 28 ára gamli knattspyrnumaður, sem er menntaður íþróttafræðingur býr í vesturbænum en hann leikur eins og kunnugt er með KR-ingum í Pepsi deild karla.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvað á að gera um verslunarmannahelgina og hvert á að fara?

„Verslunarmannahelgin verður í rólegri kantinum eins og yfirleitt svona. Það er frí frá æfingum á laugardaginn og sunnudaginn þannig að maður kannski reynir að kíkja eins og eina nótt út úr bænum með kærustunni, jafnvel á hestbak, það væri gaman. Annars er maður eitthvað að vinna um helgina.“

Er einhver verslunarmannahelgi sem er eftirminnilegri en aðrar hjá þér?

„Eftirminnilegasta verslunarmannahelgin er sennilega fyrsta og eina skiptið sem ég hef farið til Eyja á Þjóðhátíð. Ætli það hafi ekki verið fyrir 3-4 árum síðan en ég var lengi á þeirri skoðun að þjóðhátíð í Eyjum væri einhver ofmetnasti viðburður sem til væri og ætlaði aldrei á þjóðhátíð, en lét til neyðast og skellti mér í sólarhring og varð ekki fyrir vonbrigðum. Stemningin í loftinu var eitthvað svo sérstök og skemmtileg og veðrið gott!

Hvað finnst þér einkenna góða verslunarmanahelgi og finnst þér eitthvað vera ómissandi um þessa helgi?

„Góð verslunarmannahelgi einkennist að mínu mati af samveru með fjölskyldu og vinum, góðum mat og almennum rólegheitum. Þar sem mamma og pabbi fara nánast undantekningalaust aldrei út úr bænum um verslunarmannahelgina er líka eiginlega ómissandi að kíkja í mat til þeirra í Njarðvík,“ sagði Óskar að lokum.