Heklan
Heklan

Mannlíf

Helgin mín: Nýtur lífsins í Berlín
Laugardagur 23. nóvember 2013 kl. 09:49

Helgin mín: Nýtur lífsins í Berlín

Hanna Rúna Kristínardóttir er 26 ára Keflvíkingur sem býr í Berlín um þessar mundir. Hún nemur sálfræði í fjarnámi við Háskólann á Akureyri. Hún starfaði hjá Kaffitár í Reykjanesbæ um árabil en ætlunin var alltaf að ganga menntaveginn að sögn Hönnu. Hún ákvað að skrá sig í fjarnám samhliða vinnu. Í sumar greindist Hanna með óreglulegan hjartslátt og ákvað þess vegna að minnka álagið í sínu lífi. Hana langaði að breyta til. Góður vinur hennar var að flytja til Berlínar þegar hún ákvað í skyndi að gera slíkt hið saman og hætta í vinnunni og einbeita sér þess í stað að náminu að fullu. Henni líður vel í Berlínarborg og getur vel hugsað sér að dvelja þar til lengri tíma. Blaðamaður Víkurfrétta hafði samband við Hönnu og spurði hana hvað væri á döfinni um helgina hjá henni. Nóg er í boði í höfuðborg Þýkalands og Hanna nýtir sér það til hins ítrasta.

Hanna ætlar að byrja helgina á því að heilsa upp á þau í sendiráði Íslands í Berlín á föstudaginn og taka þar próf í skólanum. „Ætli ég verðlauni mig svo ekki með góðri uppáhellingu af Hátíðakaffinu frá Kaffitári sem ég fékk sent til mín á dögunum, bretti upp ermarnar og haldi áfram í próflestrinum. Svo þarf ég eflaust að undirbúa flutningana aðeins, en ég er að skipta um íbúð um mánaðarmótin. Á laugardagskvöldið ætla ég að skella mér í matarboð hjá íslenskri skvísu sem er að bjóða heim til sín nokkrum íslenskum stelpum búsettum í borginni,“ segir Hanna.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Hvernig er frábær helgi í þínum augum?
„Að brjóta upp rútínuna, að fá mér góðan kaffibolla á uppáhalds kaffihúsinu mínu, Chapter One, myndi gleðja mitt kaffihjarta mikið, og ég hef það sem svona „spari.” Fullkomin helgi hjá mér fellst í því að standa upp frá lærdómnum, dressa mig upp, skoða mannlífið hér í borginni og taka myndir af öllu mögulegu skemmtilegu sem verður á vegi mínum. Að versla í matinn fyrir helgina er líka lúmskt spennandi því hér eru margir spennandi markaðir. Að fara á skype-deit með fjölskyldunni eða vinum gefur mér mikið. Svo er fátt notalegra en að enda helgina á persónulegum og rólegum sunnudegi og dunda sér með sjálfum sér og undirbúa skólavikuna, fara í gegnum myndirnar sem ég hef tekið síðustu vikuna, lesa heimspekibækur og liggja með tærnar upp í loftið.“

Er eitthvað sérstakt sem þú leyfir þér um helgar?
„Góð helgi byrjar oft á því að setjast niður eftir morgunmatinn og skoða uppskriftir á netinu, gönguferð á markaðina og matvöruverslunina hér í hverfinu og töfra eitthvað spennandi í eldhúsinu um kvöldið. Framandi matur er mér ofarlega í huga um helgar, ég er svolítill matgæðingur. Ég setti mér markmið um að hlaupa maraþon fyrir svolitlu síðan, svo að ég skokka á virkum dögum en mér finnst voða gott að taka mér frí um helgar og fara í sparigallann, vera menningarleg og sýna mig og sjá aðra. Bíóið hér í hverfinu er líka mjög spennandi og það er svona hluti af helgarsportinu. Það er svo skemmtilegt hvað þetta er allt saman skipulagt hjá Þjóðverjunum, maður þarf helst að panta miða í bíóið og er úthlutað ákveðið sæti. Svo bjóða þeir upp á „Love seat“ en það er svona sæti þar sem pör geta látið fara betur um sig í bíóinu því það er ekki armur á milli þeirra, mér finnst það mjög krúttlegt.“

Hanna við Berlínarmúrinn. Að ofan má sjá hvar Hanna hefur fengið góða sendingu að heiman, Hátíðarkaffi frá Kaffitár, það ilmar vel.


 

VF jól 25
VF jól 25