Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Helgin mín: „Lenti í því óláni að byrja að drekka kaffi“
    Hinrik við Gullfoss.
  • Helgin mín: „Lenti í því óláni að byrja að drekka kaffi“
    Á kaffihúsi í Köben.
Laugardagur 8. febrúar 2014 kl. 10:21

Helgin mín: „Lenti í því óláni að byrja að drekka kaffi“

Hinrik Hafsteinsson er 19 ára nýstúdent úr Njarðvík. Hann útskrifaðist úr FS af málabraut fyrir áramót. Þar sem skólagöngu er lokið í bili er Hinrik að vinna sér inn smá vetrarforða fyrir haustið eins og þykir sniðugt. Þessi helgi verður í rólegri kantinum hjá honum en þó er fyrirhuguð menningarferð í Reykjavík og hugsanlega tónleikar á sunnudag á Cafe Petite.

„Á föstudaginn hugsa ég mér að ég kíki eitthvað út um kvöldið, en ég verð að viðurkenna að það er algjörlega óráðið. Við sjáum bara hvað setur.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á það til að ílengjast í menningarferðum

„Á laugardaginn ætla ég til Reykjavíkur að snúast. Maður þarf stundum að fara svona sérstakar ferðir til að fara í búðir, hitta fólk og kannski fara með jóla- eða afmælisgjafir sem gleymdist að fara með. Ég þarf til dæmis núna um helgina að fara með gamaldags 35mm ljósmyndafilmu í framköllun og ætli það verði ekki upplifun í sjálfu sér. Ég hef komið upp þeim sið að stoppa í Kaffitár í Njarðvík á leiðinni út á braut ef það er opið. Ég lenti nefnilega í því óláni fyrir jól að byrja að drekka kaffi og síðan þá er ekki aftur snúið. Svo sjáum við til hvað gerist eftir það. Ég á það til að ílengjast í svona menningarferðum og ef ég þekki mig rétt þá fæ ég mér rándýran kvöldmat einhverstaðar innan marka höfuðborgarinnar.“

Sunnudagar eru alfriðaðir

„Eins og algengt er meðal kynslóðar minnar þá eru sunnudagarnir mínir alfriðaðir. Þetta er dagurinn sem ég nota til að sofa út og vinna upp tapaðan svefn vikunnar. Hér áður fyrr rembdist maður við að klára óunninn heimalærdóm út eftirmiðdegið en eftir að hvíta húfan kom í hús þá heyrir það sögunni til. Ég er núna frjáls til að gera hvað sem ég vil á sunnudögum, en ég enda oftast á því að lesa bók eða hanga yfir mynd og er ég hræddur um að somu sögu verði að segja núna um helgina.

Sunnudagskvöld geta verið svolítið skemmtileg. Hér í vetur myndaðist stemning fyrir lifandi tónlist í Keflavík, ekki síst á Cafe Petite, kaffihúsinu bakvið Hótel Keflavík. Í vetur komu ungir tónlistarmenn af svæðinu saman á hverju sunnudagskvöldi og spiluðu fram að lokun og þó svo að það sé ekki eins reglulegt núna að það sé gert, þá er þessi stemning sérstaklega mikilvæg fyrir okkur í yngri kantinum og bæjarlífið í heild sinni. Svona staðir veita auka kost fyrir þá sem vilja ekki endilega fara „niður í bæ“ en vilja þó fara eitthvert og hitta fólk. Í mínum huga eiga þau Katrín og Gústi á Cafe Petite hrós skilið fyrir að hjálpa við að stuðla að svona þróun.“