Helgin mín: Hjálpar dætrunum og kíkir í brunch með vinum
Elísabet Magnúsdóttir, alltaf kölluð Lísa. Ólst upp í Keflavík en hefur búið í Njarðvík s.l. tólf ár.
Lísa hefur starfað sem ritari bæjarstjóra undanfarin 10 ár og segist hlakka alltaf jafnmikið til hvers dags í vinnunni því þrátt fyrir mikla rútinu vinnu sjái bæjarstjórinn um að koma með ný og skemmtileg verkefni handa henni reglulega. Lísa deildi með okkur hvað væri á döfinni hjá henni um helgina.
„Þessar vikur helgast af því að koma lífinu í fastar skorður eftir sumarið. Allt félagslíf er að komast á fullt skrið og verður nóg að gera í vetur. Einnig lofaði ég sjálfri mér því að nota þetta ár þar til ég verð fimmtug til að koma mér í super form og var m.a. að byrja í Zumba sem er alveg ótrúlega skemmtilegt. Get hreinlega ekki beðið eftir næsta tíma,“ segir Lísa.
„Helgin mun að mestu taka mið af því að dóttir mín er að fara í samræmd próf í næstu viku.“
Fylgist spennt með Útsvari
Föstudagur – „Mun fylgjast spennt með Útsvari og vona að tapliðið verði ekki með hærri stig en lið Reykjanesbæjar því enn er von fyrir okkar lið að komast áfram í næstu umferð, sem eitt af stigahæstu tapliðunum.“
Laugardagur – „Hlakka mikið til fyrsta Detox hittings vetrarins en við hittumst reglulega í brunch nokkur sem kynntumst í Detox heilsumeðferð í fyrrasumar. Okkar mottó er að fara aldrei á sama staðinn tvisvar og ætlum við núna á Frú Berglaugu á Laugavegi. Matseðillinn lofar góðu en einhvernveginn hefur hollustan farið forgörðum hjá okkur. Ég mun svo nota bæjarferðina og hjálpa eldri dóttur minni sem býr á stúdentagörðum að falda gardínur en það hefur staðið til í nokkurn tíma hjá okkur mæðgunum.“
Sunnudagurinn hjá Lísu fer svo í að hlúa að yngri dóttur sinni sem er í 10. bekk og fer því í samræmdu prófin í næstu viku. Hún á því von á mikilli spennu á heimilinu næstu daga.
„Helgin mun væntanlega líða undir lok með ljúffengum kvöldverði að hætti húsbóndans sem finnst ekki leiðinlegt að stjana við stelpurnar sínar.“