Helgin mín: Fullkomið að vera í faðmi fjölskyldunnar
Kritinn Pálsson í Rómarborg
Njarðvíkingurinn ungi Kristinn Pálsson fluttist til Ítalíu í haust þar sem hann stundar nám og spilar körfubolta af kappi með liði Stella Azzurra í Rómarborg. Njarðvíkingurinn sem er 15 ára, kann vel við sig í borginni sögufrægu og hefur aðlagast lífinu vel þrátt fyrir að vera fjarri vinum og fjölskyldu. Kristinn er væntanlegur heim til Íslands á næstu dögum en nýr fjölskyldumeðlimur kom í heiminn fyrir skömmu, þegar Kristinn eignaðist litla systur.
Víkurfréttir slógu á þráðinn til Kristins og spurðu hann um lífið í Rómarborg. Einnig fengum við hann til þess að segja okkur frá áformum sínum um helgina. Kristinn lýsti fyrir okkur dæmigerðri helgi hjá sér.
„Á föstudögum vakna ég um 7:30 og fæ mér góðan morgunmat. Gangan í skólann tekur 20-25 mínútur en ég er í skólanum frá 8:35 til 15:30. Þá fer ég á æfingasvæði Stella þar sem ég æfi frá 16:15 til sirka 21:00 á kvöldin. Eftir það þá borðum við kvöldmat sem kokkurinn okkar eldar. Eftir það spilum við strákarnir smá Playstation og er oftast farið að sofa snemma eða um 23:00 þar sem leikir eru um helgar.
Laugardagur: Ég vakna 9:30 og fer í morgunmat sem við fáum okkur saman strákarnir. Á laugardögum er aðalliðið oftast að spila. Við förum saman strákarnir og horfum á leikina þeirra. Vonandi kemst ég fljótlega í aðalliðið. Eftir leikinn er mikið um það sama og á föstudagskvöldinu, förum á internetið eða spilum Playstation og tökum því rólega. Það er yfirleitt leikur hjá okkur á sunnudögum.
Sunnudagur: Á sunnudögum vakna ég um 9:00 þar sem við liðið fáum okkur morgunmat saman og tölum um leikinn sem er framundan. Oftast er leikurinn snemma á sunnudögum. Þá spilum við um 11:45 og eftir þann leik þá förum við oftast út niður í bæ að versla eða á Mcdonalds, sem er í miklu uppáhaldi hjá strákunum. Róm er fallegur staður og þú færð aldrei nóg af því að skoða þig um í miðbænum,“ segir Kristinn.
Er eitthvað sérstakt sem þú leyfir þér um helgar? Já, ég leyfi mér svolítið mikið af tölvu og sjónvarpi um helgar. Kannski kemur fyrir að eitthvað óhollt laumist inn um helgar líka.
Hvernig væri fullkomin helgi fyrir þér? Þar sem ég er búinn að vera frá fjölskyldunni minni í langan tíma, þá væri fullkomin helgi fyrir mér að vera í faðmi fjölskyldunnar í rólegheitum.
Kristni líkar lífið vel í Róm og segir liðsfélagana vera skemmtilega stráka. Þeir séu þó ekkert of sleipir í enskunni en ítalskan er öll að koma til hjá Kristni. Kristinn telur að hann sé þegar búinn að bæta sig töluvert sem leikmaður. Liðið æfir eins og atvinnumannalið, allt frá fimm til sjö klukkustundum á dag er varið í æfingar. Einnig hefur Kristinn verið að bæta líkamlegan styrk sinn og er að eigin sögn búinn að bæta einum sex kílóum af „kjöti“ á sig. Kristinn er mikið að vinna í því að bæta skot sitt en hann leikur jafnan sem skotbakvörður eða framherji. Stundum leikur hann þó sem leikstjórnandi. Eins og fyrr segir er Kristinn væntanlegur til Íslands á næstunni að heimsækja litlu systur og síðan aftur um jólin.
Nýliðarnir fengu líka þessa fínu klippingu.