Helgin mín: Airwaves og flakk með blaðamönnum
Kiddi Hjálmur er með nóg á sinni könnu
Guðmundur Kristinn Jónsson, eða Kiddi Hjálmur eins og hann er jafnan kallaður, hefur nóg á sinni könnu þessa dagana. Kiddi var staddur í London þegar blaðamaður náði tali af honum en þar er hann að túra með Ásgeiri Trausta, tónlistarmanninum vinsæla. Kiddi sér um öll mál Ásgeirs en framundan er mikið tónleikaferðalag hjá Ásgeiri og hljómsveit þar sem Kiddi er einnig meðlimur.
Aðspurður um hvað væri á döfinni um helgina þá svaraði Kiddi því fljótlega að Airwaves myndi einoka helgina hjá honum. Hann ætlar að fljúga heim og spila með Ásgeiri, svo fer líklega mikill tími í viðtöl og annað stúss þar sem Kiddi er jú umboðsmaður Ásgeirs, ásamt eiginkonu sinni Maríu Rut Reynisdóttur. Í fyrra buðu þeir félagar í hljómsveit Ásgeirs upp á 12 gigg, en nú er ætlunin að spila bara einu sinni. Kiddi segir að von sé á því að spilað verði nýtt efni en líklega verða heil fimm ný lög á dagskránni. „Við förum líka í einhver ferðalög með blaðamönnum og m.a. heimsækjum við Hvammstanga. Þannig að það er nóg um að vera,“ segir Kiddi.
Ferðinni er heitið aftur út til Bretlands á sunndag þar sem Ásgeir spilar í sjónvarpsþættinum Made in Chelsea. Tugir eða hundruðir tölvupósta berast til Kidda og Maríu á hverjum degi vegna Ásgeirs, enda er hann heit vara um þessar mundir. „Ég veit ekki hvort hann sé á leið í heimsfrægð, en hann er á leiðinni eitthvert og það verður að sinna því á meðan það varir. Maður veit svo sem aldrei hvað verður í þessum bransa.“ Ásgeir og hljómsveit munu fram á mitt næsta ár vera á ferðalagi um víða veröld en ásamt því að ferðast um Evrópu er m.a. fyrirhugað að heimsækja Japan og Bandaríkin.
Framundan er svo jólavertíð með Baggalúti og mun Kiddi gefa sér tíma til þess að æfa fyrir jólatónleika þeirra félaga á næstunni. Kiddi býst við því að vera meira og minna á flakkinu þar til um miðjan desember. „Túralífið er skemmtilegt, ég kann vel við það þó það sé stundum skrítið að vera á þessu flakki.“
Sjónvarpsþátturinn Hljómskálinn hefur verið eitt af hliðarverkefnum Kidda en hann segist ekki vita hvort áframhald verði á því verkefni. „Hlutirnir mega alveg taka enda, það er alveg í góðu lagi.“ Hljómsveitin Hjálmar er svo að klára nýja plötu en það þarf að fínpússa þá plötu fyrir jólin. Kiddi sér um að hljóðblanda hana. Einnig eru Baggalútsmenn að gefa út plötu, en þar er um að ræða kántrýplötu sem tekin var upp í Nashville. „Maður þarf stundum að gefa fólki frí frá sér. Sérstaklega ef maður keyrir á sama markaði sem er ekki ýkja stór. Því er gott að taka smá pásu annað slagið,“segir Kiddi en báðar sveitir hafa ekki gefið út plötu í nokkurn tíma.
Kiddi segist ekki vera alveg vera með það á hreinu hve mörgum Airwaves hátíðum hann hefur spilað á en hann væri til í að taka það saman. Líklega allar götur síðan Hjálmar tóku til starfa árið 2004. Þeir sem vilja sjá Ásgeir og Kidda, og eiga miða á Airwaves, þá verða þeir í Hörpu í kvöld, (laugardag).