Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Helgin mín - Styrktartónleikar og Samfés
Föstudagur 4. mars 2011 kl. 11:29

Helgin mín - Styrktartónleikar og Samfés

Daniel Cramer er 23 ára Njarðvíkingur sem býr á Ásbrú. Hann er á öðru ári í Tómstunda – og Félagsmálafræði við Háskóla Íslands. Hann segir þetta einstaklega skemmtilegt nám því það gefi honum tækifæri til að vinna með fólki, óháð aldri eða erfiðleikum og sem mikilli félagsveru finnist honum það frábært. Einnig segir hann starfsvettvang námsins mjög fjölbreytilegan og er mikil eftirspurn í dag eftir fólki með þessa menntun og hvetur hann fólk endilega til að kynna sér námið. Hann hefur verið að vinna með námi síðastliðin ár hjá Fitjar Flutningar ehf, og einnig sem dyravörður um helgar. Um þessar mundir starfar hann hjá 88 húsinu/Fjörheimum sem partur af vettvangsnámi sínu sem honum finnst mjög spennandi. Hann er ásamt tveimur skólafélögum sínum, Ingveldi Eyjólfsdóttur og Sonný Láru Þráinsdóttur í áfanga sem nefnist Viðburðarstjórnun. Í þeim áfanga er þeim gefið tækifæri að standa fyrir viðburði að eigin vali.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Okkur fannst það æðislegt tækifæri að styðja gott málefni þar sem við vissum af tveimur ungum drengjum og fjölskyldum þeirra, sem eiga í miklum erfiðleikum og er það algjör heiður að fá að styrkja þessar hetjur. Við höfum fengið svo frábærar móttökur og vil ég nýta tækifærið til þess að þakka Paddy‘s, hljómsveitunum, Víkurfréttum og öllum þeim sem taka þátt í þessu með okkur fyrir að gefa sinn tíma og vinnu og hjálpa okkur að gera þetta að veruleika,“ sagði Daniel en þau munu standa fyrir styrktartónleikum á Paddy´s á föstudagkvöld til styrktar fjölskyldum tveggja ungra drengja, þeirra Helga Rúnars Jóhannessonar 17 ára og Birkis Alfons Rúnarssonar 15 en báðir glíma þeir við krabbamein.

Daniel segir þetta verkefni það eina sem er í gangi hjá sér þessa stundina en annars vonast hann til þess að geta haldið áfram að taka þátt í félagsstarfi hér og vinna gott starf fyrir Reykjanesbæ í framtíðinni. Í sumar mun hann einna helst reyna að njóta sumarblíðunnar en hann segist ekki viss hvað hann geri í atvinnumálum, það eigi eftir að koma í ljós þegar nær dregur sumri. Við fengum Daniel til að segja okkur aðeins frá styrktartónleikunum og deila með okkur hvernig hann hyggst verja helginni.


Styrktartónleikar á Paddy´s

„Föstudagurinn verður mjög spennandi, ég mun vera að snúast í kringum tónleikana ásamt fríðu föruneyti mínu, þeim Ingveldi og Sonný. Það þarf að setja ýmislegt upp og sjá til þess að allt verði á sínum stað, ekkert má fara úrskeiðis. Ég mun byrja daginn á því að fara í ræktina og fá mér gott að borða því oft getur það gleymst þegar mikið er framundan, það er jú mikilvægt að vera með næga orku fyrir daginn. Það sem eftir lifir dags verð ég með spennuhnút í maganum. Svo hefjast tónleikarnir kl 22:00 á Paddys og er ég að vonast til að sjá sem flesta því þessar hetjur þurfa á stuðningi okkar að halda.“

Söngkeppni Samfés

Á laugardeginum fer Daniel svo með Fjörheimum á Söngkeppni Samfés upp úr hádegi. „Þetta finnst mér mjög spennandi þar sem ég hef aldrei farið áður og hlakkar ég rosalega til. Spennandi verður að sjá hvernig haldið er utan um keppnina og alla hæfileikaríku krakkana sem við höfum hér á klakanum. Um kvöldið er mér svo boðið í heljarinnar afmælisveislu sem ég læt mig ekki vanta í og eyði restinni af kvöldinu í góðum félagsskap vina.“


Sunnudagurinn í slökun

„Sunnudagurinn verður nú bara eins og hver annar sunnudagur, hann verður til sælu. Elda mér eitthvað gott að borða, lít yfir smá lærdóm, hryllingsmynd sett í tækið og eytt restinni af deginum í eitthvað ónytsamlegt,“ segir Daníel að lokum.


Þeir tónlistarmenn sem koma fram þetta kvöld gefa vinnu sína og hvetjum við alla til að mæta enda um flott framtak að ræða. Tónleikarnir hefjast kl 22:00 og er aldurstakmark 18 ár. Miðaverð eru litlar 1.300 kr.

Fram koma:
*Elías Örn Friðfinnsson Uppistandari
*Heiður
*Reason To Believe
*Valdimar

Þeir sem hafa áhuga á að styrkja strákana og fjölskyldur þeirra aukalega geta lagt inná eftirfarandi reikninga:
1109-05-413193 Kt:100787-3349- Helgi Rúnar Jóhannesson
1109-05-414195 Kt:090986-3099- Birkir Alfons Rúnarsson



Mynd: Daníel hægra megin ásamt Skarphéðni Njálssyni úr hljómsveitinni Reason To Believe sem koma munu fram á styrktartónleikunum.

[email protected]