Helgin mín - kórdrengurinn í Ælu
Hallbjörn Valgeir Rúnarsson, sennilega betur þekktur sem Halli Valli er söngvari Suðurnesjahljómsveitarinnar Ælu. Hljómsveitin hefur lítið spilað opinberlega undanfarið og það eru ýmsar ástæður fyrir því. „Sveinn bassaleikari er nýkominn úr túr með Hjaltalín þar sem hann var hljóðmaður þeirra. Ýmis áföll hafa einnig ollið því að við höfum þurft að setja hljómsveitina aðeins á ís. Helsta ástæðan er þó sú að við erum tilbúnir með efni í nýja hljómplötu og erum að gera okkur klára í upptökur. Það má búast við plötu frá okkur á þessu ári með tilheyrandi hljómleikum. Einnig erum við búnir að staðfesta tónleikaferð til Englands um leið og plata kemur út í samstarfi við Brainlove Records,“ segir Halli Valli. Æla kemur fram um helgina á tónlistarhátíðinni Reykjavík Music Mess sem er þriggja daga tónlistarhátíð á vegum Kimi Records. Þeir koma fram seint á föstudagskvöldinu á Sódóma, eða kl. 01:45.
Hann er þessa dagana að klár bakkalárpróf í Þroskaþjálfafræðum og mun útskrifast í sumar frá Háskóla Íslands. Lokaverkefni hans er afar áhugavert og snýst um að sýna fram á áhrifamátt tónlistar í starfi með börnum með sérþarfir, hvernig hægt er að nota tónlist til gagns og útvega gagnlegt efni með hljómdisk sem nýtist í kennslu, þjálfun, uppeldi eða umönnun. „Ég er búinn að vera að taka upp tónlist í Útvarshúsinu í Efstaleiti með Inga Þór vini mínum fyrir verkefnið. Tónlistin á að efla einstaklinginn til að öðlast meiri þroska og færni.“
Að auki er Halli Valli virkur meðlimur Kallakórs Kaffibarsins. „Bartónar eiga rætur sínar að rekja til Puma auglýsingar. Þórhallur Arnórsson kom að máli við mig á Kaffibarnum við hefðbundnar síðdegis ölmenntir og vildi að við myndum búa til svona bar-kór. Viðstaddir gripu hugmyndina á lofti og eftir að hafa sannfært söngvarann Jón Svavar Jósefsson til að stýra kórstarfinu var fyrsta æfingin haldin mánuði seinna. Frægðarsól Bartóna hefur risið hátt á stuttum tíma og ber helst að nefna þátttöku okkar í auglýsingu fyrir N1-deildina og flutningur á þjóðsöng íslendinga í Laugardalshöll á EVE-Fanfest. Á dagskrá Bartóna eru stífar æfingar á hverju sunnudagskvöldi og undirbúningur fyrir sumardagskránna,“ segir Halli Valli um upphaf kórstarfsins.
Við spurðum Halla Valla hvað hann væri með á prjónunum um helgina:
Helgarnar mínar þessa dagana eru yfirleitt skipulagðar fyrir lærdóm en enda oftast öðruvísi. Á föstudaginn erum við í Ælu að spila á Sódóma á Reykjavík Music Mess hátíðinni ásamt Einari Erni Benediktsyni og Sudden Weather Change, Swords of Chaos og fleirum. Á laugardaginn mun ég að öllum líkindum fá mér brunch á Laundromat og skunda svo í Norræna húsið að sjá Hellvar og svo yfir á NASA til að sjá Miri og Sin Fang á Reykjavík Music Mess-hátíðinni og eyða svo nóttinni á Kaffibarnum. Solid.
Sunnudagskvöldið fer í hefðbundna kóræfingu, þó í styttra sniðinu því ég mun hlaupa á Nasa kl. 22:00 til að sjá Skakkamange og Deerhunter.