Helgin mín - Bryndís Guðmundsdóttir
Bryndís Guðmundsdóttir varð um síðustu helgi Bikarmeistari með Keflvíkingum eftir glæsilegan sigur á KR-ingum í Laugardalshöllinni 72- 62. Bryndís átti góðan dag og skilaði 12 stigum 10 fráköstum og 6 stoðsendingum í hús. Við fengum Bryndísi í stutt spjall og hún sagði okkur frá bikarleiknum og fagnaðarlátunum og einnig hvað hún væri á döfunni hjá henni þessa helgina.
„Síðasta helgi var bara skemmtileg, við fórum á æfingu í Laugardalshöllinni á föstudeginum og svo fórum við liðið saman í bíó til að fá smá stemningu í hópinn. Laugardagurinn var hreint æðislegur, morgunmatur með liðinu svo var lagt í hann í höllina í leikinn, sem var fullkominn því unnum.
„Eftir leikinn var haldið heim að græja sig og vorum við mættar um 19:00 til að fagna allar saman uppí íþróttahúsi og var þar stjanað við okkur. Grillað lambakjöt að hætti kvennaráðs með öllu tilheyrandi, ekki má síðan gleyma sósunni hans Togga. Síðan skemmtum við okkur langt fram eftir nóttueins og bikarmeisturum sæmir,“ sagði Bryndís um bikarleikinn og fögnuðinn síðustu helgi.
Þessi helgi byrjar með 8 ára afmæli hjá Iceland Express á föstudagskvöldinu hjá Bryndísi.
Svo á laugardeginum ætlar Bryndís að skella sér í sund með uppáhalds strákana sína sem bróðir hennar Haraldur Guðmundsson á.
„Ætli við kíkjum svo ekki uppí Reykjaneshöll að horfa á bróðir minn keppa en svo um kvöldið er kærastinn búinn að bjóða mér í leikhús og út að borða. Sunnudagurinn fer líklegast bara í að slappa af og taka því rólega, kannski kíki ég í skólabækurnar og svo um kvöldið er það sunnudagsmatur að hætti tengdamömmu,“ segir Bryndís Guðmundsdóttir bikarmeistari að lokum.