Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Held að ég hafi verið fínasta efni í alvöru fyllibyttu
Laugardagur 28. ágúst 2010 kl. 09:22

Held að ég hafi verið fínasta efni í alvöru fyllibyttu

- segir Guðbrandur Einarsson í einlægu viðtali við Víkurfréttir þar sem hann talar um árin í sukkinu, sorgina, sigrana og pólitíkina.



Guðbrandur Einarsson er rótgróinn Keflvíkingur með sterka réttlætiskennd og ákveðnar pólitískar skoðanir sem mótuðust snemma á lífsleiðinni. Hann fór ungur að fást við tónlist og spila í hljómsveitum. En dansleikjamenningin á sínar neikvæðu hliðar og ungur komst hann í tæri við áfengi og fíkniefni sem varð til þess að hann missti fótanna á lífsins braut um tíma en sú braut getur orðið býsna hál eins og flestir vita. Hann losnaði úr fjötrum Bakkusar og varð síðar formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja og bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ í tvö kjötímabil.
Guðbrandur talar hér á einlægan hátt um árin í sukkinu, sorgina, sigrana og pólitíkina en hann útilokar ekki að hann muni láta á ný að sér kveða í bæjarpólitíkinni í Reykjanesbæ. Eins og kunnugt er steig hann til hliðar eftir prófkjör Samfylkingarinnar fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor og er allt annað en sáttur við það sem hann kallar algjöran trúnaðarbrest í prófkjörinu.



Fæddist í hjónarúminu heima

Samtal okkar beinist fyrst að æskuárum  Guðbrands, eða Bubba, eins og hann er kallaður af vinum sínum. Hann fæddist þann 29. okóber árið 1958 í hjónarúminu á heimili fjölskyldunnar í Smáratúninu í Keflavík.
„Ég held að mér hafi nú ekki legið svona mikið á að komast í heiminn,“ svarar Bubbi aðspurður um ástæðuna fyrir því. „Ég veit ekki hvort það var endilega alltaf verið að fæða börn á spítölum á þessum tíma. Held að mamma hafi bara verið hraust og það hafi bara þótt sjálfsagt og eðlilegt að mæður fæddu heima,“ segir Bubbi sem ólst upp á Smáratúninu til 10 ára aldurs.
„Gatan og nágrenni hennar voru uppeldisstöðvar þess tíma, ómalbikuð með öllum sínum holum og  rafmagnsstaurum beggja megin. Í hverfinu voru margir krakkar og þarna lékum við okkur úti allan daginn eins og krakkar gerðu í þá daga í þeim leikjum sem þá þekktust og höfðu gengið kynslóð fram af kynslóð.  Þá var enginn á leikskóla og stóru krakkarnir pössuðu okkur sem vorum minni. Tveimur götum ofar kom maður upp í víðáttuna enda var þetta löngu áður en Garðahverfið reis. Það var mikið ferðalag að leggja á heiðina og ekki minna en dagsferð að fara upp að Rósaselsvötnum í nestisferð. Þetta umhverfi bauð upp á mikið frelsi sem við krakkarnir nutum til fulls.
Ég man að mamma reyndi einu sinni að setja mig og systur mína á gæsluvöll. Hún reyndi það ekki aftur því við klifruðum yfir girðinguna strax og vorum komin heim að leika okkur klukkutíma síðar,“ rifjar Guðbrandur upp.

-Varstu prakkari?
„Eigum við ekki að segja að ég hafi verið kraftmikill strákur og það kom fram í ýmsum birtingarmyndum.  Ég á í fórum mínum minningarbrot um ferðir til skólastjórans, þannig að það fór nú svolítið fyrir manni.“

Raddþjálfaði mömmu

Eins og margir vita hefur Guðbrandur lengi verið viðloðandi tónlist og við beinum talinu að þeim þætti í lífi hans.

„Ætli ég hafi ekki verið um átta ára gamall þegar pabbi skráði okkur þrjú systkinin í tónlistarskólann, elstu systur mína á píanó, þá næst elstu á fiðlu og ég var settur í trompetnám hjá Herberti H. Ágústssyni, sem hefur kennt  mörgum Keflvíkingnum á hljóðfæri. Ég lærði á trompet í mörg ár og tók þátt í alls konar lúðrasveitastarfi. Þetta var góður skóli fyrir mig og það má segja að hann hafi nýst mér alla ævi því ég er ennþá að fást við tónlist með einhverjum hætti.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


-En einhvers staðar slepptir þú trompetinum og fórst að spila á hljómborð?
„Jú, systur mínar entust ekki í tónlistarnáminu en ég fór fljótlega að glamra á píanóið, fikta við gítarinn sem einnig kom inn á heimilið og syngja einhver lög. Það kom í ljós að ég hafði ágætis tóneyra og meiri áhuga og sá áhugi hefur fylgt mér alla ævina. Ég á nú reyndar tvo trompeta inni í skáp ennþá og yrði nú  ábyggilega ekki lengi að ná tökum á þeim aftur en einhverra hluta vegna færðist ég yfir á píanóið. Þrátt fyrir að hafa ekki lært mikið á píanó þá hefur hljómborðið fylgt mér í gegnum tíðina.“

-Var mikil tónlist í fjölskyldunni, fyrst pabbi ykkar vildi að þið færuð í tónlistarnám?
„Ekkert endilega, móðir mín var í kvennakórnum á þessum árum. Hún og vinkonur hennar í kórnum æfðu stundum heima og það fór snemma á þann veg að ég var farinn að raddþjálfa og hjálpa til. Það var bara gaman, það kom í ljós að ég hafði eyra fyrir röddum og var því nýttur í þetta fljótlega. Svo fór Herbert að nota mig sem kennara kornungan uppi í tónlistarskóla þar sem ég kenndi yngri nemendum. Sumir þeirra fótuðu sig síðar vel á tónlistarsviðinu eins og t.d.  Jóhann Smári stórsöngvari okkar Suðurnesjamanna.“

Hnakkurinn vék fyrir píanóinu

Fórstu snemma í hljómsveitarstúss?
„Já,  þannig var að ég var mikið í sveit á sumrin sem pjakkur og hafði mikinn áhuga á dýrum. Foreldrar mínir gáfu mér hest í fermingargjöf og ég eyddi fermingarpeningunum mínum í að kaupa mér hnakk. Um fjórtán ára aldurinn fannst mér kominn tími til að söðla um, seldi hestinn og hnakkinn og keypti mér rafmagnspíanó. Þá varð ekki aftur snúið og síðan hef ég setið við píanóið. Frá 14 ára aldri má segja að ég hafi verið meira eða minna í einhvers konar hljómsveitarstússi.
Það hafa ýmsir góðir félagar verið mér samferða í þessu, eins og t.d. Svenni Björgvins. Við brölluðum ýmislegt við upptökur og annað skemmtilegt. Við Guðmundur Hermannsson, eða Mummi, fylgdumst líka að lengi vel en hann kom inn í þetta aðeins seinna. Hann var þremur árum eldri en við. Þegar okkur Svenna fannst vera kominn tími til að fá almennilegan söngvara í hljómsveitina hringdum við í Mumma en það þurfti að beita talsverðum fortölum til að fá hann til að spila með svona kettlingum eins og okkur. Það hafðist þó að lokum. Við Mummi urðum samferða í tónlistinni í mörg, mörg ár. Síðan hafa tímarnir breyst og rekstrgrundvöllur fyrir stórar hljómsveitir ekki verið eins góður og hann var. Þetta eru orðnar svona eins manns hljómsveitir út um allan bæ. Við Mummi sitjum því við sitthvort hljómborðið í dag en erum eftir sem áður góðir vinir.“

Áttu eitthvað uppáhaldstímabil frá þessum hljómsveitarárum?
„Nei, það get ég ekki sagt. Þetta var bara skemmtilegur tími og við vorum með metnaðarfullar hljómsveitir eins og Miðlana. Tímarnir með Miðlunum og Klassík í Glaumbergi voru mjög skemmtilegir. Ég var líka í hljómsveit í Reykjavík sem hét Cirkus. Við vorum kornungir strákar í þessari hljómsveit sem þótti mjög efnileg á þeim tíma. Meðal annars var tekinn upp sjónvarpsþáttur með okkur í Rokkveitu ríkisins sem var vinsæll hljómsveitarþáttur á þeim tíma og margir muna eftir. Við spiluðum ótrúlega mikið  og vorum nánast hverja einustu helgi í Klúbbnum þó við hefðum ekki aldur til að vera þar inni.
Ég upplifði líka skemmtilegt sumar á Neskaupstað þar sem ég spilaði í hljómsveit sem hét Amon Ra. Hún var vinsæl  á Austfjörðum á þessum tíma og lifir enn í minningu margra. Við spiluðum um alla Austfirðina. Þetta voru allt mjög metnaðarfullar hljómsveitir og mikið æft.“

Spilaði heilt kvöld án þess að vera í sambandi

-Talandi um skemmtilega tíma, þú hlýtur að eiga einhver eftir­minnileg augnablik frá þessum árum. Það hafa nú oft skemmtilegar sögur fylgt dansleikjamenningu Íslendinga?

„Jú, það er rétt. Á Neskaupsstaðartímanum mínum var ég t.d. orðinn nokkuð duglegur við að hella í mig áfengi. Hljómsveitin var búin að æfa mikið fyrir sitt fyrsta ball sem átti að vera á Reyðarfirði Ég hafði hins vegar sopið full hraustlega frá því kvöldinu áður og félögunum leist ekkert alltof vel á ástandið á kappanum. Þeir ákváðu því bara að taka mig úr sambandi og ég spilaði heilt kvöld alveg á fullu án þess að hljómborðið væri í sambandi og mér fannst ég bara  standa mig alveg ótrúlega vel og var í miklu stuði,“ segir Bubbi og hlær við þessa fáránlegu minningu.“

-Oft hefur brennivínið verið fylgifiskur í skemmtanabransanum og Bakkus orðið mönnum fjötur um fót. Hvernig var þetta hjá þér?

„Mín kynslóð, þessi fyrsta bylgja af diskókynslóðinni, var ekki mikið í rugli. Kannski vegna þátttöku minnar í tónlist tengdist ég mörgum sem voru mér eldri, þ.e. af hippa- og blómakynslóðinni á undan. Þar var ýmislegt að finna og ég prófaði því ýmislegt kornungur. Ég drakk t.d. áfengi í fyrsta sinn áður en ég var fermdur og var farinn að fikta við fíkniefni 15 ára gamall. Þetta var dökka hliðin á þessum heimi sem oft var fjarska skemmtilegur en ég var fljótlega kominn inn í þennan heim og var þátttakandi í honum í nokkur ár. Þetta hefur verið fylgifiskur þessa lífernis eins og þú segir, ballmenning, vökunætur og partýstand. Sumir hafa farið illa út úr þessu eins og allir vita.“

Varð fljótt alkóhólisti

-Misstirðu snemma stjórnina?
„Já, ég held að ég hafi verið fínasta efni í alvöru fyllibyttu. Enda kom það snemma í ljós að ég þurfti alltaf meira en hinir. Var þaulsetinn í partýum, drakk menn undir borðið og keypti á svörtu þegar allt var búið.  Það má segja að ég hafi snemma misst stjórnina á þessu þó ég hafi áfram lifað mínu lífi og verið að sinna því sem að mér sneri, svona einhvern veginn. Ég var fljótt orðinn alkóhólisti og gerði mér grein fyrir því eftirá.  Ég kom illa út úr fylleríum, var illa þunnur og átti kannski að fara að spila daginn eftir, þannig að maður var ekki alltaf vel fyrir kallaður. Þá var því bara reddað með sjúss eða einni pípu og hlutirnir héldu bara áfram. Ég var vissulega að ganga nærri mér en komst áfram með þessu. En svo fór sukkið auðvitað bitna á manni félagslega og öðru því  sem maður þurfti að sinna. Sautján ára er ég t.d. hættur stúdentsnámi. Flutti til Svíþjóðar og hafði ekki stjórn á neinu lengur. Varð bara að koma mér þangað til að komast út úr þessu umhverfi þar sem allir vita allt um alla. Ég fór bara í felur. Einhverra hluta vegna ákvað ég samt að koma heim aftur og klára þetta nám sem mér tókst en þarna var lífið orðið miklu erfiðara.“

Þáttaskil við bróðurmissi

-Hvenær áttarðu þig á að þetta var orðið vandamál?

„Ég hugsa að ég hafi fljótt gert mér grein fyrir því. Ég þekkti alkóhólisma úr mínu umhverfi og var fljótt nokkuð meðvitaður um það  að ég var ekki á réttri leið.
Nítján ára gamall missti ég Gunnar, yngri bróður minn í hörmulegu bílslysi og það gekk mjög nærri mér. Þetta var eini bróðir minn en hann var tveimur árum yngri en ég. Þetta var gríðarlegt áfall og í framhaldi missti ég stjórnina á drykkjunni. Ég varð bitur og sinnulaus og keyrði hratt út í sukkið. Þarna held ég að hafi keyrt um þverbak. En þetta varð líka til þess að ég sneri við blaðinu. Þegar ég var búinn að keyra mig á botninn á örfáum árum bar mér gæfa til að fara í meðferð, snúa við blaðinu og breyta um lífsstíl,“ segir Guðbrandur. Aðspurður segir hann ákvörðunina um að fara í meðferð ekki hafa verið svo ýkja erfiða.

„Þarna er ég 22ja ára gamall, búinn að eignast konu og eitt barn sem ég hafði ekki áhuga á að ala upp í alkóhólisma. Þetta er ein sú besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu,“ segir Bubbi sem hefur ekki snert áfengi né aðra vímugjafa síðan eða í tæp 30 ár.

„Eftir meðferð langaði mig í framhaldsnám og velti því fyrir mér að fara í sálfræðinám, hafði áhuga á að verða sálfræðingur. En aðstæður eftir meðferð voru með þeim hætti að af því gat ekki orðið. Ég var búinn að drekka frá mér íbúð og þurfti að halda áfram að vinna, enda fyrir fjölskyldu að sjá. Ég hafði örlítið fengist við kennslu, sá að Sandgerðisskóli var að auglýsa eftir kennurum, sótti um og var kennari þar í sjö eða átta ár.  Það átti bara vel við mig og ég hefði örugglega getað haldið áfram í því ef launin hefðu boðið upp á það.“

Á meðferðarheimili í Svíþjóð

Eftir þetta lá leiðin í nám í kerfisfræði og forritun, þó hann kynni ekkert á tölvur en Bubbi hefur aldrei hræðst nýjar áskoranir. Eftir námið var ástandið hér á landi hins vegar þannig að enga vinnu var að hafa fyrir tölvufræðinga. Bubbi og Magga konan hans ákvaðu því að flytja til Svíþjóðar. Þar fór Bubbi í starf sem honum þótti ákaflega gefandi og hefði örugglega orðið framtíðarstarfið, að hans sögn,  ef þau hjónin hefðu ekki síðar tekið ákvörðun um að flytja heim.

„Ég sótti um vinnu sem ráðgjafi á meðferðarheimili, nýkominn til Svíþjóðar og kunni lítið í sænsku. Heimilið var rekið af Ameríkönum og Svíum en Ameríkanarnir tóku við mig viðtalið sem fór fram á ensku og vissu ekkert um mína litlu sænskukunnáttu. Þeim þótti mikill fengur í því að fá mann með 10 ára edrúmennsku og mátu það meira heldur en prófgráður menntaðra ráðgjafa. Það var því úr að ég fékk vinnuna og þurfti síðan að halda fyrirlestur á sænsku viku síðar. Það gekk bara ótrúlega vel. Samdi fyrirlesturinn með hjálp orðabókar og talaði skandinavísku sem skjólstæðingarnir umbáru alveg. Þarna fór fram langtímameðferð en skjólstæðingarnar voru m.a. heróínneytendur sem höfðu verið á torgunum í Stokkhólmi og stúlkur sem höfðu starfað sem vændiskonur og einstaklingar sem höfðu verið misnotaðir kynferðislega í æsku.  Þarna kynntist maður hinum dökku hliðum mannlegrar tilveru. Maður fékk líka að sjá hversu mikil hamingja er fólgin í því að rísa upp úr öskustónni, ná árangri í lífinu og verða þátttakandi í því. Þetta var ótrúlegur tími, gefandi og lærdómsríkur.“


Tímarit Víkurfrétta tók hús á Guðbrandi og Margréti í september 1999 og fjölluðu um foreldrana með tvenna tvíbura. Tvíburarnir eru í dag 11 og 13 ára gamlir. Á meðfylgjandi mynd úr TVF eru þeir aðeins lægri í loftinu.
---

Barnalán í kjölfar áfalls


Eftir tvö ár var heimþrá hins vegar farin að gera vart við sig svo þau hjónin ákváðu að flytja aftur heim til Íslands. „Við áttum þennan eina strák okkar  og vorum svo sem ekkert mikið að hugsa út í þau mál en þegar hann fór að vaxa úr grasi og spyrja okkur um systkini ákváðum við að skoða þetta eitthvað betur. Það gerðist lítið hjá okkur um tíma en svo fór að Margrét varð ófrísk og við tóku mánuðir eftirvæntingar eftir litlum dreng. En undir lok meðgöngunnar veiktist hún af bráðameðgöngueitrun. Það fékk enginn rönd við reist og litli drengurinn dó. Þetta var gríðarlegt áfall og sérstakt að koma heim með andvana lítinn dreng í kistu í stað þróttmikils stráks í burðarrúmi. Við tókum þetta afar nærri okkur en unnum okkur saman í gegnum þetta, fórum saman í gegnum sorgina og hlúðum hvort að öðru. Við ákváðum að gefast ekki upp og reyndum aftur. Og þá bara fór eitthvað í gang og við eignuðumst tvíbura ári seinna, tvær stelpur sem nú eru orðnar 13 ára gamlar. Rúmum tveimur árum eftir það eignuðumst við aðra tvíbura þannig að þar var eins og einhverjar flóðgáttir hefðu opnast, sem ekki verður skýrt.  Þá eignuðumst við tvo stráka sem nú eru orðnir 11 ára gamlir. Við eigum því stóra fjölskyldu og það er ótrúlega mikið líf í kringum okkur í dag,“ segir Bubbi.

-Voru ekki mikil viðbrigði að vera allt í einu komin með fullt hús af börnum?

„Auðvitað voru þetta mikil viðbrigði frá því að vera með einn gutta yfir í það að vera með fjögur smábörn á bleyju í marga, marga mánuði. Við þurftum að skipta um hús, skipta um bíl og miða allt við tvíburavagna. Þetta var gjörbreyting og allt okkar líf hefur snúist um þetta síðan. En samhliða mikilli vinnu hefur fylgt þessu mikil hamingja. Þetta er sannkallað barnalán.“

Varð pólitískur mjög ungur

Samtal okkur berst að stjórnmálavafstri Guðbrands og ég spyr hann hvenær hann hafi fyrst farið að skipta sér af pólitík?

„Ég hef alltaf verið pólitískur og haft ákveðnar skoðanir. Sem ungur maður var ég mjög róttækur og reifst mikið í skóla við kennarana og fleiri. Einn þessara kennara var Pétur Gautur, lögfræðingur. Hann var mjög hægri sinnaður og aldeilis ófeiminn við að halda sínum pólitísku skoðunum á lofti. En við vorum hins vegar nokkrir strákar saman í bekk sem vorum duglegir við að standa upp í hárinu á kallinum. Til þess að undirbúa okkur og geta tekist á við hann fórum við í leshring um kommúnisma, stúderuðum þetta vel og tókumst síðan á um pólitík. Strax á unglingsárunum var ég orðinn mjög meðvitaður um pólitík og hef verið það alveg síðan. Ég hef lesið talsvert um stjórnmál, isma og stefnur alveg frá fyrstu tíð, stúderaði Karl Marx og las Lenin, svona til að skynja út á hvað þetta gengur. Áhugi á pólitík finnst mér vera hluti af lífinu. Hún snýst um leiðir til að lifa og það er bara eðlilegt að hafa skoðanir á því.“

-En varstu aldrei í vandræðum með að staðsetja þig í pólitík?

„Jú, ég get alveg viðurkennt það. Ég hef alltaf verið félagslega þenkjandi maður og fundist eðlilegt að við reyndum að halda hvert utan um annað. Það hefur kannski mótað mína pólitísku afstöðu. En hvort ég væri krati, kommi eða eitthvað annað var ekki alveg sjálfgefið í mínum huga. Þess vegna var ég lengi utan flokka.
Þegar ég kom heim frá Svíþjóð varð ég kosningastjóri Ólafs Ragnars Grímssonar þegar hann var kosinn forseti í fyrsta sinn og stýrði kosningabaráttu hans hér á Suðurnesjum. Í framhaldi af því gekk ég í Alþýðuflokkinn og fór þá að mæta á fundi. En flokkurinn lifði ekkert lengi eftir það því við tók sameining flokka. Ef ég á að skilgreina mig eitthvað þá er ég mjög róttækur félagslega en ég er ekki forsjárhyggjumaður. Reynslan hefur kennt mér að maður getur ekkert haft vit fyrir öðru fólki. Fólk verður að finna sínar eigin leiðir. En ég hef  alltaf talað fyrir því að öryggisnetið sé þannig að það detti  enginn þar í gegn. Það hefur rekið mig áfram í pólitíkinni fyrst og fremst. Ég vil vinna að því að við öll, ekki bara sumir, geti notið þess lífs sem við erum fædd til að lifa. Við erum misvel undir það búin en við eigum að hafa skyldur gagnvart hvort öðru. Þess vegna lifum við í samfélagi.“

Algjör trúnaðarbrestur í prófkjörinu

Bubbi sat í bæjarstjórn í tvö kjörtímabil, það fyrra undir merkjum Samfylkingar og það síðara undir merkjum kosningabandalags A-listans. Eitt af því sem einkennt hefur störf Guðbrands er hversu vel hann vinnur heimavinnuna sína. Hann setur sig vel inn í mál og kemur vel undirbúinn til umræðu.
„Það verða aðrir að meta,“ svarar hann spurður út í þetta.  „Ég er bara þannig gerður að það sem ég fer í verður oft að ástríðu hjá mér. Það má halda því fram að ég sé kannski ástríðufullur að eðlisfari og vill fylgja því eftir sem ég tek að mér. Pólitíkin hefur að einhverju leyti verið ástríða hjá mér og ég einsetti mér að sinna henni vel. Ég vil mæta vel undirbúinn til leiks og hafa vald á því sem ég er að gera. Að því leyti finnst mér pólitíkin eins og tónlistin. Kannski er þarna einhver fullkomnunarárátta á ferðinni, sem getur verið neikvæð, segja sumir.“


Síðasti fundurinn: Guðbrandur á síðasta bæjarstjórnarfundi sínum í Reykjanesbæ sl. vor.
Hann útilokar ekki endurkomu í pólitík. VFmynd/elg.
----

-En svo hættir þú í vor eftir prófkjör hjá Samfylkingunni í Reykjanesbæ. Þú varst sannarlega ekkert á leiðinni að hætta, enda bauðstu þig fram í oddvitasætið áfram. Hvað gerðist?
„Nei, ég var ekkert tilbúinn að hætta í vor. Ég fór í prófkjör og vænti þess að mér yrði trúað fyrir því hlutverki sem ég hafði áður gegnt en niðurstaðan varð önnur. Ég taldi mig hafa sinnt hlutverki mínu alveg þokkalega en síðan kom annað upp úr kjörkössunum. Í ljósi þeirra atburða fannst mér mér ekki sætt lengur og ákvað að stíga til hliðar. Ég hefði svo sem getað haldið áfram að gera eitthvert gagn en hafði kannski ekki persónulegan þroska til að taka þeim úrslitum sem urðu í prófkjörinu.“

-Samt með eftirsjá, eða hvað? Var þetta vel ígrunduð ákvörðun?
„Ég er ekkert viss um að þetta hafi verið vel ígrunduð ákvörðun á þeim tímapunkti.  En ég er viss um að hún var rétt því ég hef síðan haft tíma til að íhuga þetta síðan og er enn sömu skoðunar; að það hafi verið rétt hjá mér að stíga til hliðar. Kannski ekki síður í ljósi þess að menn fóru mjög illa með þetta prófkjör. Í þessu prófkjöri varð ákveðinn trúnaðarbrestur og ég taldi mig ekki geta unnið innan flokksins í framhaldinu. Það kom strax  í ljós í umræðu bæði í fjölmiðlum og manna á meðal. Ég fékk símhringingar á prófkjörsdaginn þess efnis að í gangi væru atburðir sem myndu gera það að verkum að ég yrði felldur. Og ég fékk ekki þessar símhringingar frá samflokksmönnum mínum heldur frá pólitískum andstæðingum sem höfðu fengið þá vitneskju að smalað hefði verið inn í Sjálfstæðisflokkinn. Einstaklingar í röðum sjálfstæðismanna hafa staðfest það við mig að á bilinu þrjú til fjögur hundruð atkvæði hafi komið úr Sjálfstæðisflokknum inn í prófkjörið hjá Samfylkingunni til að styðja mótframbjóðanda minn.
Ég fékk símhringingar frá mörgum andstæðingum mínum í pólitík sem hreinlega báðu mig afsökunar á því að þetta hefði gerst. Þannig að það var ekkert öllum sama um hvað þarna var í gangi. Þetta var að undirlagi þess manns sem núna er oddviti Samfylkingarinnar og vina hans í Sjálfstæðisflokknum. Þegar mér var það ljóst að þetta hefði verið gert með þessum hætti þá leit ég bara þannig á að þarna hefði orðið algjör trúnaðarbrestur á milli manna og ég myndi ekki undir neinum kringumstæðum vinna við þær aðstæður.  Ég taldi tíma mínum betur varið t.d. með börnunum mínum eða með því að finna mér annan farveg fyrir þær hugsjónir sem ég vildi vinna að. Ég er þegar farinn að gera það.

Starf mitt sem formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja er auðvitað pólitískt í eðli sínu. Þó starfið tengist ekki stjórnmálum með beinum hætti,  þá er þetta félagspólitískur vettvangur. Við erum að takast á um réttindi og skyldur, við erum að takast á við ríkisstjórnir hvers tíma um réttindi almennings og við atvinnurekendur um launakjör. Þarna fæ ég að koma að ýmsu sem tengist pólitík með beinum hætti þó ég sé ekki þarna inni sem fulltrúi stjórnmálaflokks. Þannig að það má segja að ég fái pólitíska útrás eftir ýmsum leiðum. Og ég mun örugglega halda áfram að tjá mig um pólitík.“

Útilokar ekki endurkomu í bæjarpólitíkina

-Ertu ennþá Samfylkingarmaður?
„Ég er ennþá Samfylkingarmaður, já. Það var svo sem þrýst á mig að fara í sérframboð en mér fannst ekki rétt að gera það af því að ég er Samfylkingarmaður. Mínar pólitísku skoðanir hafa farið saman við hugmyndafræði Samfylkingarinnar og meðan svo er á ég samleið með henni þó ég sé ekki virkur í stjórnmálastarfi hér á heimaslóðum eins og er. En þær aðstæður geta breyst hvenær sem er.“

-Þú útilokar sem sagt ekki endurkomu í bæjarpólitíkina?
„Ég útiloka aldrei neitt í lífinu. Reynslan hefur kennt mér að það getur svo margt gerst. Maður heldur að maður sé á einhverri leið og hlutirnir í föstum skorðum en svo bara gerist eitthvað og lífið tekur U-beygju fyrirvaralaust. Maður getur aldrei verið öruggur um neitt.
Það getur vel verið að ég bjóði mig aftur fram í bæjarstjórn. Ef svo fer að almenningur geti kosið persónur í bæjarstjórn, óháð flokkadráttum, þá gæti það farið svo að ég byði mig bara fram sem einstaklingur. Fólk gæti þá metið mína pólitísku forsögu og fyrir hvað ég stend. Maður yrði þá dæmdur af verkum sínum án þess að eiga á hættu að pólitískir andstæðingar reyni að koma manni um koll. En framtíðin verður bara að leiða þetta í ljós.“

Stóru málin

-Ef þú lítur yfir sviðið í pólitíkinni, hvaða mál telurðu að hafi brunnið heitast á þér?
„Þau eru reyndar mýmörg. Ég lít á það sem forréttindi að fá að taka þátt í pólitík og reyna að hafa áhrif til að bæta samfélagið okkar.  Það hafa jú komið upp stór mál á þessu tímabili mínu í bæjarstjórn eins og öll þessi einkavæðing sem hefur átt sér stað með orkufyrirtækin. Ég held að það sé stærsta málið. Við sem skipuðum A-listann vorum ótrúlega dugleg, þó ég segi sjálfur frá, að halda á lofti umræðu um þetta, bæði í greinaskrifum og með bókunum í bæjarstjórn. Að halda á lofti því að okkur fyndist vanta umræðu í samfélaginu áður en farið yrði í einkavæðingu á orkufyrirtækjum. Því miður náðum við ekki í gegn á þessum tíma, enda var árið 2007 og Íslendingar uppteknari af öðru. En ég þarf ekki annað en líta yfir fréttir síðustu ára til að sjá hvað við vorum að gera. En nú eru aðrir að vakna upp við vondan draum árið 2010 og taka upp það sem við höfum verið að segja á um­liðnum árum. En okkur vantaði oft bandamenn á þessum tíma gegn þeim öflum sem lögðu af stað í þessa einkavæðingu. Þess vegna náðum við ekki þeim árangri sem við hefðum þurft að ná.  Og ég er ekkert viss um að það verði aftur snúið. Þeir sem nú gagnrýna þessa einkavæðingu hefðu betur gengið í lið með okkur þegar við þurftum sannarlega á bandamönnum að halda. Þá hefði hópurinn orðið stærri og við hefðum örugglega náð betri árangri.

Annað stórt mál eru úthýsing á eignum sem var farið var með í einkafélög út í bæ og geta jafnvel komið þessu sveitarfélagi um koll því nú á að setja á ný lög um fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Samkvæmt þessum nýju lögum mega sveitarfélögin ekki skuldsetja sig nema fyrir ákveðnum hluta af tekjum og þetta getur orðið mjög erfitt fyrir Reykjanesbæ vegna þess að það hefur mikið verið fjárfest í gegnum félag úti í bæ.

Um alla þessa hluti höfum við verið mjög dugleg að tjá okkur. En auðvitað skiptir það höfuðmáli að við séum frá degi til dags að reyna að bæta það samfélag sem við lifum í. Stærstu málin sem kollvarpa öllu eru ekki endilega aðalmálið heldur það hvernig við vinnum að því að bæta samfélagið okkar á hverjum tíma. Við þurfum ekki að byggja hundrað leikvelli í einu eða fullt af tónlistarhöllum. Sígandi lukka er best og þannig eigum við að þróa þetta samfélag.“

Bubbi og börnin tóku lagið fyrir blaðamanninn við píanóið í stofunni.
Þessir krakkar kunna að syngja, svo mikið er víst.
VFmynd/elg
---

Fjölskylduhljómsveit á stofugólfinu

-Væntanlega hefur mikið af þínum tíma farið í pólitíkina. Hefur þá ekki myndast eitthvað tómarúm eftir að þú steigst til hliðar?
„Að vera faðir fimm barna er svo sem ærið verkefni,“ segir Bubbi og skellir upp úr. „Ég var nú kannski stundum að stela af einhverjum öðrum tíma þegar ég var að vafstra í pólitík en ég á eiginkonu sem var tilbúin til að umbera það og taka á sig fleiri verkefni. Ég get þá farið að snúa mér meira að því núna. Tónlistin er ennþá til staðar í mínu lífi og yngri börnin mín eru öll í tónlistarnámi. Við erum að stússa saman í tónlist, bæði spilum og syngjum saman í stofunni heima og sum þeirra eru farin að  semja lög. Við höfum meira að segja komið fram og flutt frumsamin lög eftir strákana mína. Mig langar að snúa mér meira að þessu og fer kannski bara með þeim í stúdíó að taka upp lög. Er jafnvel að velta því fyrir mér að fara í nám og læra upptökutækni. Ég hef svo sem næg verkefni og vinnan framundan er ærin, erfiðir kjarasamningar framundan, þannig að það er af nógu að taka og ég kvíði ekki verkefnaskorti. Ég sest ekkert upp í sófa heldur fylli mitt líf af ýmsu eins og ég hef alltaf gert.“

Aðalmálið er að vera edrú

„Það sem kannski stendur upp úr þessu öllu saman og skiptir mig mestu máli er að hafa náð að snúa við blaðinu á sínum tíma og verða edrú. Það sem ég er að fást við í dag og það sem mér hefur verið gefið tækifæri til að glíma við, er vegna þess að ég náði að verða edrú. AA-samtökin sem félagsskapur er eitt það merkilegasta sem nokkur maður getur komist í tæri við. Ég hef ekki mikið tekið þátt í  hefðbundnu klúbba- eða félagsstarfi í gegnum tíðina en ég hef aldrei útskrifað mig úr AA-samtökunum því mér finnst þau vera merkilegasti félagsskapur í heimi. Það skiptir mig gríðarlega miklu máli að hafa kynnst AA samtökunum og það er þeim þakka og því fólki sem þar er að ég á bráðum 30 ára edrúafmæli. Það er sá árangur sem ég er hvað stoltastur af og mun skipta mestu máli þegar upp verður staðið.“

[email protected]


Efsta mynd - Stór fjölskylda: Sigríður, Gunnar, Davíð, Einar og Sólborg. Á bakvið eru svo foreldrarnir, Guðbrandur og Margrét. VFmynd/elg