Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Heklugos á Suðurnesjum - Hönnun kynnt á veglegri sumarhátíð í Eldey
Fimmtudagur 24. maí 2012 kl. 12:31

Heklugos á Suðurnesjum - Hönnun kynnt á veglegri sumarhátíð í Eldey

Heklugos á Suðurnesjum er yfirskrift viðburðar sem ætlað er að kynna og efla hönnun á Suðurnesjum. Að viðburðinum standa Heklan, Eldey þróunarsetur, SKASS og Menningarráð Suðurnesja og fer hann fram í Eldey fimmtudaginn 31. maí kl. 19:30. Að sögn Dagnýjar Gísladóttur verkefnastjóra Heklunnar hafa margir hönnuðir nú komið sér fyrir í Eldey og því kviknaði sú hugmynd að kynna þá starfsemi og víkka hugtakið jafnframt út og kynna alla hönnuði á svæðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


„Það er mikil gerjun í hönnun og skapandi greinum sem við finnum fyrir og því finnst okkur mikilvægt að styðja við það enda er þetta einn af mest vaxandi atvinnuvegum á landinu í dag. Hér höfum við mikið hæfileikafólk og við viljum að það fái að njóta sín“.


Dorrit Moussaieff verður heiðursgestur en einnig munu stór fyrirtæki af svæðinu taka þátt eins og Fríhöfnin, Bláa lónið og Sif Cosmetics.
SKASS eða Samtök kraftmikilla, alvöru, skapandi Suðurnesjakvenna taka einnig þátt í viðburðinum en markmið þeirra er að efla konur á Suðurnesjum. Anna Lóa Ólafsdóttir er einn af stofnendum hópsins en hún segir mikilvægt að konur styrki hvor aðra og efli um leið tengslanetið sitt. „Við viljum fræðast og fræða, efla okkur sjálfar og um leið hvor aðra og síðast en ekki síst hvetja konur til dáða í námi og starfi“, segir Anna Lóa en félagsskapurinn er opinn öllum konum á Suðurnesjum og verður hann kynntur sérstaklega í Heklugosinu.


Sett verður upp glæsileg tískusýning hönnuða undir dyggri stjórn Helgu Bjargar Steinþórsdóttur hjá Mýr Design sem var með fyrstu fyrirtækjunum í Eldey og segir hún markmiðið að hvetja hönnuði á svæðinu til stórra verka og stuðla um leið að góðri skemmtun. „Við leggjum áherslu á að vanda vel til verks og verðum því með fullkominn sýningarbúnað og allt sem þarf til að gera sýninguna sem flottasta. Við lofum góðri skemmtun og þarna verða hæfileikaríkir hönnuðir að sýna, bæði þekktir og aðrir sem eru að byrja“, segir Helga sem hefur í nógu að snúast þessa dagana við að taka á móti rútum fullum af fólki sem vill kynna sér hönnun og það sem þróunarsetrið hefur upp á að bjóða.


Á sama tíma verða veittir styrkir úr Menningarsjóði Suðurnesja en hlutverk þess er m.a. að samræma aðgerðir á sviði menningarmála á Suðurnesjum og standa fyrir öflugu þróunarstarfi í menningarmálum og nýsköpun sem m.a. styður við menningartengda ferðaþjónustu. Björk Guðjónsdóttir verkefnastjóri Heklunnar hefur umsjón með styrkveitingum úr sjóðnum og segir hún viðburðinn henta vel til þess að kynna þau menningarverkefni sem þar fá styrki og jafnframt að kynna sjóðinn fyrir hönnuðum og öðrum frumkvöðlum. „Eitt af verkefnum Menningarráðs er að standa að þróun í menningarmálum og þátttaka í Heklugosinu er einn liður í þeirri áætlun. Þetta er gott framhald af því sem Menningarráð hefur verið að gera en við höfum einmitt verið að styðja við handverk og hönnun“.


Dagskráin hefst kl. 19:30 með afhendingu menningarverðlauna og eftir það tekur við tískusýning fjölda hönnuða. Ragnheiður Friðriksdóttir frá Reykjavík Concierge mun segja frá menningar- og hönnunartengdum verslunarferðum sem fyrirtækið skipuleggur fyrir erlenda ferðamenn þar sem kynnt er það besta í menningu, hönnun, handverki og listum á hverju svæði en það verkefni hlaut einmitt styrk úr Vaxtarsamningi Suðurnesja fyrir ferðir á Suðurnesjum. Því næst verða smiðjur hönnuða og annarra frumkvöðla í Eldey opnar og hægt verður að skoða hönnun um allt hús.
Boðið verður upp á léttar veitingar og lifandi tónlist og því er hér frábært tækifæri til þess að skemmta sér saman í byrjun sumars, efla tengslanetið og kynnast um leið öllu því sem er að gerast í hönnun á Suðurnesjum segja þær stöllur og hvetja sem flesta til þess að mæta.


Myndin: Dagný Gísladóttir verkefnastjóri Eldeyjar, Björk Guðjónsdóttir verkefnastjóri menningarsamnings, Helga Steinþórsdóttir hönnuður, Guðný Kristjánsdóttir sem verður kynnir kvöldsins og Anna Lóa Ólafsdóttir SKASS kona.