Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Heimsreisufararnir komnir til Indlands: pistill #1
Fimmtudagur 3. júlí 2003 kl. 12:09

Heimsreisufararnir komnir til Indlands: pistill #1

Hermann Helgason og Magnús Ólafsson úr Keflavík eru nú komnir til Indlands þar sem hitinn nær rúmum 40 gráðum. Þeir félagar hafa nú sent fyrsta pistilinn sinn af mörgum sem eiga eftir að birtast á Vf.is og í Víkurfréttum. Á næstunni mun lesendum Vf.is gefast kostur á því að senda þeim félögum heillaóskir í gegnum gestabók sem sett verður upp á vefnum, auk þess sem þar verða myndir og pistlar úr ferðalaginu. Hér að neðan er ferðasaga Hermanns og Magnúsar.


24 tíma flug
Eftir fínt flug með Iceland Express sem þó endaði með einhverri harkalegustu lendingu sem um getur við lítinn fögnuð kvenmanna í vélinni héldum við til Heathrow-flugvallar í London þar sem við þurftum að drepa tímann, já 24 tíma.24 tímar virtust engin rosaleg þolraun en eftir að hafa eytt nokkrum klukkutímum sofandi á gólfinu, étandi nesti sem við smurðum sjálfir komumst við að öðru. Loksins kom að fluginu og við á leiðinni með Virgin Atlantic til Delhi í Indlandi. Við vissum að það var búið að vera mjög heitt í Delhi áður en við komum. Allt upp í 47 stiga hiti en ég held að við höfum ekki gert okkur grein fyrir hversu heitt það er í raun og veru. Með menguninni innifalinni er þetta verra en að vera í gufubaði. Ef þú bætir svo við fólki hlaupandi á eftir þér að reyna að selja þér eitthvað og öðru fólki svo bækluðu að það er ofar öllum mannlegum skilningi veltandi sér eftir götunni færðu ágætis mynd af Delhi.

Leigubílstjórinn rataði ekki neitt
Á flugvellinum í Delhi fengum leigubílstjóra sem rataði minna um borgina heldur en við. Hann þurfti að stoppa nokkrum sinnum til að spyrja til vegar. Hann endaði á því að láta okkur út við torg sem átti að vera rétt við staðinn sem við vildum komast á. Og það var alveg rétt hjá honum því þessi staður var mjög nálægt þeirri götu sem við ætluðum okkur að fara en sú einfalda athöfn að spyrja einhvern i Delhi til vegar og fá hann til að vísa þér þangað er ekki svo einföld. það hangir eitthvað á spýtunni hjá öllum og allir eru tengdir ferðaskrifstofum eða gistiheimilum á einhvern hátt þannig að þeir reyna að sjálfsögðu að vísa þér á þann stað sem gefur þeim mestan pening. Svona gekk Delhi eiginlega fyrir sig í þá 2 daga sem við eyddum þar. Sem sagt hiti og ónæði allan tímann. Þó getum við samt sagt að Delhi heilli á vissan hátt. Við heyrðum svo að staðurinn sem við ætluðum til næst væri enn heitari en Delhi þannig að við ákváðum að ferðast öðruvísi um landið en upprunalega var planað. Í staðinn fyrir að fara útí í eyðimörkina í Rajasthan tókum við rútu til Himalaya-fjallana.

Fengum öftustu sætin
Við urðum okkur úti um tvo rútumiða til Manali í Himachal Pradesh-fylkinu í Indlandi sem er fjallafylki í Himalaya-fjöllunum mjög nálægt Kashmír. Rútuferðin tók 18 tíma með stoppum og auðvitað vorum við settir í öftustu sætin í rútunni sem eru líka þau verstu því það er ekkert hægt að halla þeim. þeir sem sátu í hinum sætunum gátu nánast flatt út sín sæti eins og Lazy Boy stóla. Þetta var alls ekki þessi hefðbundna rútuferð. Fólk mátti reykja og drekka að vild og skipti engu máli hvað var reykt. Sami maðurinn keyrði allan tímann án þess að sofa upp þessa þröngu og kröppu fjallavegi og manni varð um að líta niður hlíðarnar. Hann kom okkur þó heilum til Manali. Við heyrðum seinna að hann myndi keyra aftur til Delhi nokkrum klukkutímum seinna. Manali leit strax betur út en Delhi. Hitinn á daginn er í kringum 25-30 stig en á nóttinni dettur hann alveg niður í 12-14 stig. Við fundum okkur herbergi með útsýni yfir dalinn a 150 rúpíur(250 kall).

Maríjúana við göngustíginn
Við þurftum að labba upp mjóan stíg til að komast að gistihúsinu en það sem aðallega greip augað á leiðinni upp var það sem óx við fætur okkar. Marijúana-plantan vex villt hérna eins og fíflar á Íslandi. Samt er ólöglegt að reykja plöntuna þótt flestir virðist gera það. Manali er 2200 metra yfir sjávarmáli og um kvöldið byrjaði Maggi að finna fyrir hæðarveiki og þurfti því að taka því rólega það kvöldið. Hann jafnaði sig þó um miðjan næsta dag. Við skruppum yfir til Vashisht sem er lítill bær rétt utan við Manali. Höfðum lesið þar um heitan Hver sem maður gæti baðað sig í. Þessi Hver var nú ekki merkilegri en heiti potturinn í Laugardalslauginni en sennilega finnst útlendingum í Indlandi sem eru ekki Íslendingar eitthvað voða merkilegt að baða sig í náttúrulegu heitu vatni. Fyrir okkur var það bara venjulegt. Í dag( 3. juli ) ætlum við að skipta um gistiheimili og finna stað með meira af fólki. Verðum í sambandi!
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024