Heimsótti 26 sundlaugar í Meistaramánuði - Nokkrar á Suðurnesjum sköruðu fram úr
Reykvíkingurinn Hinrik Wöhler setti sér það markmið í Meistaramánuði að heimsækja allar almenningssundlaugar í póstnúmerum 101 til 310. Nú þegar mánuðinum er lokið hefur Hinrik gefið laugunum einkunnir og voru nokkrar á Suðurnesjum sem sköruðu fram úr. Sundlaugin í Grindavík var sú næst besta sem Hinrik synti í og fékk 15,5 stig af 17 mögulegum. Sundlaugin í Vogum var sú þriðja besta með 14,5 stig. Besta laugin, að mati Hinriks, var Varmárlaug í Mosfellsbæ.
Hinrik gaf sundlaugunum einkunnir eftir ýmsum þáttum. Þar skaraði Garður fram úr í flokknum afþreying, meðal annars því að þar er frábært körfuboltaspjald. Besti inniklefinn að mati Hinriks er saunuklefinn í Njarðvík og besta ísbaðið er í Grindavík. Þá þótti honum þjónustan í Sundlauginni í Vogum skara fram úr. „Gott viðmót og fríar sundnúðlur til að fljóta,“ segir Hinrik í umsögn um laugina í Vogum.
Hér má sjá status Hinriks á Facebook með helstu niðurstöðum úr sundferðum Meistaramánaðar