Heims um ból í Austurríki
Bæjarstjórann í Vogum langar í mótorhjól í jólagjöf!
Bæjarstjórinn í Vogum, Ásgeir Eiríksson, horfir reglulega á Home Alone í aðdraganda jólanna. Honum eru sérstaklega minnistæð jól sem hann hélt í Austurríki þar sem hann söng Heims um ból við leiði höfundar lagsins.
Eru einhverjar hefðir hjá ykkur á bæjarskrifstofunni þegar kemur að jólunum?
Við pössum upp á að eiga piparkökur og smákökur með kaffinu, svo fáum við okkur saman heitt súkkulaði þegar nær dregur jólum.
Hvernig eru jólahefðir hjá þér?
Ég mundi segja að þær væru býsna hefðbundnar – fjölskyldan í fyrirrúmi.
Hver er besta jólamyndin?
Home Alone stendur alltaf fyrir sínu.
Hvaða lag kemur þér í jólaskap?
Hin fyrstu jól eftir Ingibjörgu Þorbergs.
Ertu vanafastur um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Heimsókn í kirkjugarðinn er fastur liður, það er notalegt að minnast látinna ættingja á jólum.
Hvernig er aðfangadagur hjá þér?
Mjög hefðbundinn! Borðað á slaginu kl. 18, messan í útvarpinu og pakkar opnaðir eftir matinn.
Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Minnið er gloppótt – engin sérstök kemur upp í hugann.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Það er mjög hefðbundið: Aspassúpa, hamborgarahryggur og fromage!
Eftirminnilegustu jólin?
Árið 1989 fórum við í skíðafrí um jólin til Austurríkis. Við sóttum kaþólska messu um miðnættið á aðfangadagskvöld í Wagrain, heimabæ Joseph Mohr, textahöfundar Heims um ból. Að lokinni messu gekk kirkjukórinn og allir kirkjugestir út í kirkjugarðinn að gröf hans og sungu sálminn. Sérlega eftirminnileg stund.
Hvað langar þig í jólagjöf?
Mótorhjól.
Borðar þú skötu?
Já.
Eru einhverjar hefðir í kringum Þorláksmessu hjá þér?
Nei, ekki aðrar en að fá sér skötu!