Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Heimamenn í helstu hlutverkum
Mánudagur 24. ágúst 2015 kl. 09:53

Heimamenn í helstu hlutverkum

- segir Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi um undirbúning fyrir Ljósanótt

Undirbúningur Ljósanætur, menningar- og fjölskylduhátíðar Reykjanesbæjar sem fram fer dagana 3. - 6. september gengur vel og eru flestir stóru viðburðirnir tilbúnir eða langt komnir að sögn Valgerðar Guðmundsdóttur menningarfulltrúa Reykjanesbæjar.

„Heimafólk er að venju í öllum helstu hlutverkum en stór hópur fólks kemur að undirbúningnum eins og venjulega og eru þar á ferðinni bæði íbúarnir sjálfir, ýmis  félagasamtök og stofnanir og svo auðvitað starfsmenn Reykjanesbæjar en framkvæmd hátíðarinnar er á ábyrgð bæjarfélagsins”.
Fjárframlag bæjarfélagsins til hátíðarhaldanna hefur verið lækkað en að sögn Valgerðar er vonast eftir að fyrirtæki í bænum bregðist við því með auknu framlagi og viðbrögð lofi góðu.

„Við þjófstörtum að venju á miðvikudeginum með kvöldopnun verslana við Hafnargötu og frumsýningu sýningar Með blik í auga í Andrews leikhúsinu sem í ár kallast Lög unga fólksins en þar munu  ýmsir stórsöngvarar halda áfram að rekja fyrir okkur tónlistarsögu Íslendinga en sýningin verður einnig á sunnudeginum.
Á fimmtudeginum er hátíðin sett við Myllubakkaskóla með aðstoð barna úr leik- og grunnskólum bæjarins og seinni partinn opna svo flestar listsýningarnar en bæjarbúum öllum er boðið í Duus Safnahús þar sem opnaðar verða fjórar nýjar sýningar.  Þar ber hæst ljósmyndasýningin Andlit bæjarins sem er samstarfsverkefni Listasafnsins og Ljósops og í Gryfjunni sýnir ungur hönnuður héðan úr bænum verk sín. Í Stofunni í Bryggjuhúsinu verður finnskur textíllistamaður og í Bíósalnum verður sýning í tilefni 100 ára afmælis Keflavíkurkirkju,” segir Valgerður og hvetur aðra sýnendur myndlistar til þess að setja upplýsingar sem fyrst inn á vef Ljósanætur; ljosanott.is.

„Á föstudeginum fer fram tónlistardagskrá á smábátabryggjunni við Duus og þar býður Skólamatur upp á sína árlegu Ljósanætursúpu. Þá er nglingaball í svipuðum dúr og í fyrra í undirbúningi. Áhugaverð nýjung verður svo í boði síðar þetta kvöld þegar íbúar í gamla bænum bjóða til heimatónleika og verða þeir kynntir betur síðar en þetta er einmitt skemmtilegt dæmi um sjálfsprottin verkefni íbúa bæjarins.”

Laugardagurinn er venju stærsti dagur Ljósanætur og verður árgangagangan á sínum stað að sögn Valgerðar sem og vegleg tónlistardagskrá á sviði um kvöldið.

„Um kvöldið fáum við að heyra valda kafla úr sýningunni Sveitapiltsins draumur, Rúnar Júl 70 ára sem færri en vildu sáu í Stapa í vor.  Einnig koma fram keflvísku böndin Kolrassa krókríðandi og Sígull og tónlistarmaðurinn Guðmundur Rúnar Lúðvíksson. Eftir flugeldasýninguna, sem er í boði HS Orku eins og áður, mun Jónas Sig og ritvélarnar leika nokkur lög áður en fjölskyldufólkið tygjar sig heim og hinir koma sér á djammið í veitingahúsunum en búast má við góðri dagskrá hjá þeim að venju.”

Á sunnudeginum verða öll sölutjöld enn opin sem og sýningar þannig að fólk hefur tima til að njóta í rólegheitunum þess sem það missti af í fjörinu á laugardeginum.  Þá er að sögn Valgerðar í undirbúningi skemmtilegur leynilegur viðburður í Höfnunum á vegum íbúa sem verður kynntur nánar síðar.

Undirbúningsnefndin hvetur alla þá sem ætla að vera með viðburð á Ljósanótt að koma honum sem fyrst inn á vef Ljósanætur og alls ekki síðar en 23. ágúst en þá munu Víkurfréttir taka þaðan allar upplýsingar í dagskrárbækling sem blaðið gefur út.

„Svo er bara að vera kátur og hlakka til að fjölskyldan geti skemmt sér saman á Ljósanótt”, sagði Valgerður að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024