Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Heimabökuð brún lagterta ómissandi á jólunum
Sunna Líf
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
föstudaginn 23. desember 2022 kl. 10:35

Heimabökuð brún lagterta ómissandi á jólunum

Sunna Líf reynir að klára jólainnkaupin fyrir 20. desember til að koma í veg fyrir stress „korter í jól“. Henni finnst jólasmákökur og heimabökuð brún lagterta vera ómissandi á jólunum en hjá fjölskyldu hennar er einnig hefð fyrir því að vera með lamba hamborgarhrygg á aðfangadag.

Hvernig var árið 2022 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við gátum loksins farið að ferðast aftur að einhverju viti og nýttum okkur það mikið. Það sem stóð upp úr er 100% Ítalíu ferðin til Rómar, Róm er geggjuð borg sem allir ættu að heimsækja.

Ert þúmikið jólabarn?

Svona já og nei, ég elska jólin en leyfi mér ekki að byrja hlakka almennilega til fyrr en eftir að jólaprófin eru búin.

Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?

Oftast í kringum þriðja í aðventu eða hreinlega bara þegar við höfum tíma í það.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir - áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?

Veit ekki hvaða jól eru þau fyrstu sem ég man eftir en ég man eftir því þegar ég var yngri fékk ég alltaf að opna einn pakka á aðfangadag þegar klukkan sló sex áður en við byrjuðum að borða jólamatinn.

En skemmtilegar jólahefðir?

Ég hef alltaf verið hjá ömmu og afa í Sandgerði með móðurfjölskyldunni um jólin síðan ég man eftir mér og svo á jóladag hefur amma Ásta komið til okkar og ég opna pakkana frá henni og föðurfjölskyldunni með henni.

Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?

Það fer rosalega mikið eftir því hversu upptekin ég er í desember. Reyni samt oftast að vera ekki að stressa mig á jólagjöfum korter í jól og reyni því að klára kaupin fyrir 20. des.

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Ætli það séu ekki jólasmákökur og heimabökuð brún lagterta.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?

Úff, þær eru allar skemmtilegar á sinn hátt. Ætli það sé samt ekki þegar mamma og pabbi gáfu mér ryksugu þó að ég væri ekki flutt að heiman, eða þegar ég fékk STIGA snjósleðann sem var efstur á óskalistanum eitt árið.

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Ekkert sem ég man eftir eins og er, finnst líka skemmtilegra að vita ekki fyrirfram hvað ég mun fá í jólagjöf.

Hvað verður í jólamatinn hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?

Það er alltaf lamba hamborgarhryggur, brúnaðar kartöflur og rauðvínssósa á jólunum hjá okkur og svo er alltaf mandla og möndlugjöf. Möndluhefðin er sú að yngstur fær sér fyrst og svo koll af kolli.

Hvað ætlar þú að gera í kringum jólahátíðina í ár?

Ég verð vinnandi mest megnið af desember í ár, slepp samt heim úr vinnu á slaginu sex á aðfangadag.