Heilsusamlegt mataræði besta forvörnin
„Við eigum vissulega að gera vel við okkur í mat og drykk þegar þannig ber undir en tileinka okkur hófsemi ásamt því að hafa smá sveigjanleika í mataræðinu og borða fjölbreytta næringarríka fæðu í grunninn. Ég myndi vilja sjá fólk nota meira af kryddjurtum og lækningajurtum í daglegu mataræði,“ segir Ásdís Ragna Einarsdóttir, sem var ung að árum þegar áhugi hennar vaknaði á virkni lækningajurta og hæfni þeirra til að bæta heilsu fólks.
Ásdís var aðeins sextán ára gömul þegar hún réði sig í vinnu á bóndabænum Vallarnesi á Austurlandi sem í dag er einn helsti framleiðandi lífrænnar ræktunar á Íslandi. Eftir sumardvöl þar varð ekki aftur snúið.
Í dag er Ásdís grasalæknir orðin þjóðþekkt kona og mjög vinsæll námskeiðshaldari. Hún útskrifaðist með BSc í grasalækningum árið 2005 og hefur rekið eigin stofu um árabil, í Reykjanesbæ og höfuðborginni, þar sem fjöldi einstaklinga hefur leitað til hennar í ráðgjöf.
Við pöntuðum viðtalstíma hjá Ásdísi grasalækni og báðum um gott ráð handa þeim sem vilja ná tökum á sykurneyslu sinni og bæta um leið heilsu sína.
Sykur og heilsan okkar
Hin seinni ár er talað um hækkandi tíðni áunninnar sykursýki hjá þjóðinni. Umræðan hefur sjálfsagt aldrei verið eins hávær og nú um áhrif sykurs á líkamann. Það var fróðlegt að hlusta á Ásdísi varðandi áhrif sykurs á heilsu okkar.
„Fyrsta skrefið í átt að bættri heilsu er að taka út sykurinn eða að minnsta kosti að draga verulega úr honum vegna þess að þá fæst mesti ávinningurinn fyrir heilsu okkar en sykur getur haft margvísleg neikvæð áhrif á okkur ef við gætum ekki að inntökunni á sykri. Nú til dags vitum við til að mynda að sykur getur stuðlað að bólgumyndun í líkamanum og tíðni bólgusjúkdóma hefur farið hækkandi síðustu ár. Því er mikilvægt að við skoðum mataræðið og því sem við getum breytt sjálf í lífsstíl okkar til að hafa áhrif á eigin líðan og einkenni. Margir eiga í vandræðum með sykurinn og sækja í sykur daginn inn og út sem veldur miklum sveiflum á blóðsykri okkar en við viljum reyna halda blóðsykri í góðu jafnvægi almennt séð fyrir heilsuna okkar. Þegar við drögum úr eða sleppum sykri þá sjáum við fljótt ávinninginn. Fólk fær aukna orku, bólgur minnka í líkamanum, ónæmiskerfið styrkist og exem getur minnkað, betri svefn, hreinni húð, betri melting og öflugri þarmaflóra. Það sem við vitum í dag er að sykur getur raskað þarmaflórunni okkar og ýtt undir vöxt á óæskilegum örverum svo sem ýmsum bakteríum og sveppum en heilbrigð þarmaflóra er talin lykilinn að góðri heilsu. Það er einnig klárt mál að sykur getur haft áhrif á geðheilsuna en ójafnvægi á blóðsykri getur valdið því að skapsveiflur geta orðið tíðari vegna of mikillar sykurneyslu. Konur geta fundið fyrir auknu hormónajafnvægi þegar þær sniðganga sykur og vinna með sykurlöngunina,“ segir Ásdís.
Náttúrulegir sætugjafar í stað sykurs
„Það getur tekið tíma fyrir suma að losna undan sykurfíkn en við getum notað ýmsa staðgengla í stað sykurs til að draga úr sykurlöngun og notast við náttúruleg sætuefni sem hafa vægari áhrif á blóðsykurinn. Þeir sem þjást af sykurlöngun geta í stað sykurs notað til dæmis lífrænt hunang, lífrænt hlynsíróp, kókóspálmasykur, þurrkaða ávexti og döðlur í bakstur. Einnig er hægt að nota náttúruleg sætuefni sem eru sykurlaus svo sem erythritol, xylitol og steviu. Sumir geta verið í góðu sambandi við sykur á meðan aðrir eru í óheilbrigðu sambandi við sykur og verða því að sneiða hjá honum. Þessi framangreindu sætuefni hafa vægari áhrif á blóðsykursstuðul okkar.“
Hin gullni meðalvegur í mataræði
„Það þarf að kunna að umgangast sykur. Þegar kemur að mataræði þá aðhyllist ég ekki boð og bönn heldur legg ég áherslu þess í stað á að við tileinkum okkur jafnvægi og hófsemi þegar kemur að mataræði okkar. Gerum okkur vissulega dagamun en reynum að vanda valið og fáum okkur til dæmis vandað dökkt lífrænt súkkulaði sem inniheldur góð andoxunarefni. Það er ekki til neitt sem heitir fullkomið mataræði. Við eigum vissulega að gera vel við okkur í mat og drykk þegar þannig ber undir með fólkinu okkar en tileinka okkur hófsemi ásamt því að hafa smá sveigjanleika í mataræðinu og borða fjölbreytta næringarríka fæðu í grunninn. Við erum ekki öll eins. Það sem hentar heilsu minni hentar sennilega ekki heilsu þinni. Gott er að hlusta á líkamann og finna hvað hentar honum. Hvaða mataræði stuðlar að betri líðan í líkama þínum? Finna hvaða mataræði eða fæða nærir líkama okkar og sem styður við eigið heilsufar. Ekki endilega vera að eltast við tískustrauma í mataræði ef það passar okkur ekki. Við erum öll á ákveðinni heilsuvegferð og mikilvægast er að finna sína eigin leið og prófa okkur áfram með mismunandi leiðir í mataræði og finna út hvaða leið stuðlar að bættri líðan. Læra að hlusta á líkama sinn. Fæðan er að mínu mati besta fyrirbyggjandi meðferðin. Þar eigum við að byrja að vinna með heilsuna okkar og muna auðvitað í leiðinni að njóta þess að gleðja sálina með mat sem okkur finnst góður og líður jafnframt vel af.“
Viltu bæta heilsu þína?
Ásdís heldur reglulega námskeið þar sem hún kennir fólki að fara nýjar leiðir í mataræði. Hún er ekki aðeins með stofu þar sem hún tekur á móti þeim sem vilja fá einkatíma og aðstoð til að bæta heilsuna, heldur vill hún einnig fræða almenning. Hún hefur í mörg ár boðið upp á fyrirlestra og námskeið bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem vilja efla heilsu starfsmanna sinna. Þessi námskeið hafa verið mjög vinsæl um land allt.
„Ég myndi ráðleggja fólki sem langar að draga úr sykurlöngun til dæmis, að byrja á að minnka sykur eftir fremsta megni og eða sleppa honum alfarið tímabundið. Sneiða einnig hjá hveiti, hvítu pasta, hrísgrjónum og öðrum unnum kolvetnum. Auka neyslu grænmetis og ávaxta í staðinn og fá þessi virku næringarefni og andoxunarefni úr fæðunni. Þá er einnig gott að auka inntöku á góðri fitu, svo sem lífrænni ólífuolíu og flóknum brúnum kolvetnum, það er að segja spelti, höfrum, kínóa og íslensku byggi. Fá einnig hæfilegt magn af góðu próteini svo sem fiski, lambakjöti, kjúklingi og eggjum. Baunir eru líka ríkar af próteini. Hreinar ósætar mjólkurvörur eru einnig góður kostur ef ekki er um mjólkuróþol að ræða. Lykilatriði er að hafa ríkulegt magn af grænmeti yfir daginn. Einnig má borða hnetur og fræ þegar mann langar í eitthvað til að slá á sykurlöngun. Borðum vel úr jurtaríkinu því þar fáum við öll þessi góðu heilsueflandi efni. Rannsóknir sýna að ef við borðum ríkulega úr jurtaríkinu þá fáum við ýmis fyrirbyggjandi efni sem geta varið okkur gegn lífsstílssjúkdómum. Vert er að minnast á að aðrir grunnþættir í lífsstíl okkar skipta einnig miklu máli þegar kemur að því að draga úr sykurlöngun og halda okkur við efnið í mataræðinu svo sem regluleg hreyfing, slökun og góður svefn,“ segir Ásdís að lokum.
[email protected]
[email protected]