Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Heilsan
Miðvikudagur 8. mars 2017 kl. 06:00

Heilsan

- Lokaorð Örvars Þórs Kristjánssonar

Í byrjun þar síðustu viku var ég lagður inn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eftir að ég gerði mér ferð á bráðamóttöku vegna nokkurra óþæginda. Þessi óþægindi voru svo eitthvað meira en án þess að fara nánar út í það þá eyddi ég rúmlega 5 dögum inni á spítalanum. Var eflaust allt of lengi að koma mér til læknis en ég er einn af þeim sem fer ekki fyrr en ég er nánast lagstur niður, arfa vitlaust, ég veit.  Ég er reyndar á batavegi núna, kominn á ról en á ennþá eftir að fá nánari útlistun á því sem er að hrjá mig nákvæmlega. Hvað sem þetta er þá ætla ég mér ekkert annað en að tækla þetta af myndarskap og ná mér að fullu.

Því miður eru alltof margir (þar á meðal ég) sem taka góðri heilsu sem sjálfsögðum hlut. Svo kemur eitthvað upp á og þá sér maður hvað hlutirnir geta verið fljótir að breytast. Maður sér það í raun reglulega, fólk er sífellt hrifsað burt í blóma lífsins úr sjúkdómum og af slysförum en alltof oft hugsar maður, þetta getur varla orðið ég.  En svo fær maður gult spjald og þá er nú eins gott að hlusta á dómarann. Það ætla ég mér að gera. (Pikkið í mig ef þið sjáið mig í Vallabakaríi í bakkelsinu, nema á laugardegi).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Dvöl mín á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja var samt ánægjuleg, þarna er yndislegt og umhyggjusamt starfsfólk sem á gríðarlega mikið hrós skilið. Það fór afar vel um mig þarna inni, ég hafði góðan mann með mér á stofu og hafði þar af leiðandi góðan félagsskap. Það er alltaf gaman að kynnast nýju fólki sama hvar á vegi manns það verður.  Auðvitað var samt gríðarlega erfitt að vera frá fjölskyldunni minni og var ég rosalega glaður þegar ég fékk að fara heim. Unnusta mín er algjör hetja en á meðan ég var frá þá þurfti hún að sjá um drengina okkar þrjá nánast ein (óvært ungabarn og þessi í miðjunni með hlaupabólu) en sem betur fer eigum við gott fólk að sem hjálpaði til eins og þau gátu. Hjartans þakkir.

Þegar fólk veikist óvænt þá fylgja alls kyns áhyggjur og það er eðlilegt en ákaflega dapurt fannst mér að sjá fréttir vikunnar um fólk sem veikist hér á landi t.d af þeim alvarlega sjúkdóm krabbameini og er að sligast fjárhagslega vegna lyfjakostnaðar! Það er alls ekki sanngjarnt og við verðum að gera mikið betur í þessum málum, nóg er fyrir fólk að hafa áhyggjur af heilsunni og fjölskyldunni sinni en að bæta við fjárhagsáhyggjum er hreinlega ógeðfellt og á ekki að líðast í okkar ríka landi. Ég skora á okkar ágætu þingmenn í kjördæminu að beita sér í þessum málum. Að lokum þá ætla ég að ítreka þakkir mínar til hins frábæra starfsfólks á HSS.