Heilræktarfrömuðurinn Guðni Gunnarsson býður upp á nýjan skóla
Keflvíkingurinn er fyrsti einkaþjálfarinn og hefur starfað í 40 ár í heilsurækt
Heilræktarfrömuðurinn Guðni Gunnarsson býður upp á nýjan skóla nú í haust, Lífsfærniskóla og snýst námið um valfærni, varanlega velsæld og auðlegð.
„Á þessum tímum er lífsfærni, eitt það sterkasta sem við getum nýtt okkur til velsældar og skólinn okkar er hannaður til að svara þessari þörf. Námið fer að mestu fram í fjarnámi og því hægt að stunda það hvar sem er” segir Guðni um nýja skólann.
Auk þess býður hann upp á ráðgjafanám í GlóMotion-lífsfærni sem gefur nemendum rétt til að beita aðferðum og verkfærum GlóMotion aðferðarfræðinnar, öðrum til vaxtar og velsældar.
„Með ráðgjafanáminu er ég að opna upp á gátt verkfærakistu mína og kenna fólki að nýta hana öðrum til heilla. Háþróað heilræktarkerfi GlóMotion sem ég hef unnið að í áratugi er hér lagt undir en það sameinar líkamsþjálfun, hugrækt, núvitund, lífsspeki og næringarfræði meðal annars” útskýrir hann.
Þá er námskeiðið Máttur athyglinnar nú í fjarnámi en skráning hófst fyrir stuttu. Guðni segir að lok sumarsins sé tíminn til að skilgreina markmið og sýn fyrir veturinn sem og að læra nýja hluti og aðferðir til velsældar. Á námskeiðinu kennir hann fólki að taka til í lífi sínu, styrkja sig og skilgreina markmið sín. Þar er unnið í sjö skrefum og stendur námskeiðið yfir í sjö vikur og er byggt á sama grunni og metsölubækur hans Máttur viljans og Máttur athyglinnar. Með tilkomu fjarnámsins gefst því landsmönnum öllum tækifæri á að sækja þetta vinsæla námskeið, óháð búsetu.
„Hver einasta manneskja er kraftaverk og mitt hlutverk er að minna okkur á þessi fallegu sannindi. Oft eru það gömul forrit sem eru bæld djúpt í undirvitundinni sem stjórna daglegum ferlum okkar og vönum og þótt við teljum að okkur langi, að við ætlum eða þráum hamingju og velsæld þá erum við ekki að leyfa okkur að breyta hegðun okkar, hugsunum og gjörðum í þágu þess sem við teljum okkur vilja.“
Guðni er Keflvíkingur. Starfsferill hans við heilrækt spannar fjörtíu ár og er hann fyrsti einkaþjálfari á Íslandi. Hann stofnaði Vaxtarræktina hf. árið 1982 en hún var í senn innflutningsverslun og líkamsræktarstöð sem hafði það að markmiði að hvetja til andlegrar, huglægrar og líkamlegrar heilræktar.
Í dag rekur hann Rope Yoga Setrið á Garðatorgi, Garðabæ og GlóMotion International og starfar samhliða því við lífsráðgjöf, námskeiða- og fyrirlestrahald, þjálfun GlóMotion kennara, almenna GlóMotion þjálfun og skriftir.