Heill ævintýraheimur undir Íslandi
Sandgerðingurinn Björgvin Guðjónsson hefur gefið út sögur um hrauntröll og aðrar kynjaverur sem segja frá hrauntröllinu Neista og ævintýrum hans en sögurnar samdi Björgvin sjálfur auk þess að myndskreyta.
Um er að ræða þrjár rafrænar bækur og hljóðbækur; Eldkristallinn, Neisti á köldum klaka og Kvika í mannheimum. Hér fá lesendur að kynnast ævintýraveröld undir Íslandi þar sem hrauntröll, álfar, íströll og aðrar kynjaverur búa. Sögurnar flétta saman íslenskum þjóðsagnaheimi og fallegum ævintýrum sem leggja áherslu á góðmennsku, vináttu og náttúrufegurð.
Björgvin býr og starfar í Danmörku en ferill hans sem listamaður spannar þrjátíu ár og hefur hann verið afkastamikill í hönnun og myndskreytingum fyrir auglýsingar og fleira. Björgvin segist hafa verið skúffuskáld í langan tíma og dundað sér við að safna persónulýsingum og litlum sögum sem nú fléttast saman í bækurnar um hrauntröllin.