Heiftarlegt ofnæmi rak hann út í sápugerð
Hann hefur teiknað frá blautu barnsbeini og var alltaf að pára á blað. Það var Þorsteinn Eggertsson sem opnaði fyrir alvöru áhuga hans á því að teikna þegar sá hinn sami kenndi honum teikningu í Barnaskólanum í Keflavík forðum daga.
Við heimsóttum Ólaf Árna Halldórsson í fyrirtækið hans Sápuna, sem er nýflutt í stórt og glæsilegt húsnæði í Reykjanesbæ.
Framleiddu eigin sportfatnað
Ólafur hefur komið víða við á starfsferli sínum en lengstan hluta ævi sinnar hefur hann stýrt sér sjálfur, verið eigin herra og rekið eigin fyrirtæki. Það muna kannski einhverjir eftir sportvöruversluninni Sprota sem hann rak ásamt föður sínum á níunda áratugnum við Hringbraut í Keflavík en þar var Ólafur Júlíusson, fyrrum fótboltakappi, verslunarstjóri.
„Við vorum þarna í nokkur ár, ég og pabbi, með saumastofu og verslun með sportfatnað, íþróttaskó, skíði og svona dót. Óskar Færseth keypti svo af okkur lagerinn og innréttingarnar og opnaði Sportbúð Óskars í kjölfarið. Við pabbi heitinn fórum út í þetta ævintýri saman, ég hafði verið verkstjóri hjá honum í Fiskverkun Halldórs Brynjólfssonar en pabbi var skipstjóri. Þessi fiskverkun var á Brekkustíg í Njarðvík og við sátum uppi með svo mikla skreið eitt árið, því þeir voru alltaf að hálshöggva hvern annan þarna í Nígeríu að við gátum ekki selt skreiðina þangað. Það var skreið upp í rjáfur í þúsund fermetra húsnæðinu og gríðarleg verðmæti lágu í þessu. Saltfiskurinn sem við verkuðum tók minna pláss. Reksturinn var að stöðvast og allt var mjög erfitt. Við feðgarnir vorum að fikta við einhverjar hugmyndir um hvað við gætum gert saman til þess að hafa eitthvað að gera og skapa tekjur fyrir okkur og aðra. Maður var alltaf að hugsa þannig því það er jú lítið að borða þegar buddan er tóm. Við ákváðum þá að fara út í rekstur Sprota og Óli Júll sá um búðina. Ég var að teikna íþróttaföt fyrir búðina, hannaði útlitið og svo fengum við klæðskerameistara til þess að búa til sniðin í öllum stærðum og vorum með þrjár saumakonur hjá okkur. Þessi framleiðsla var fyrir okkar eigin verslun aðallega og var framleitt undir vörumerkinu HECO sem voru nöfn foreldra minna, Halldór, Elísabet og co. Mamma er ennþá á lífi og hjálpar mér oft hérna í sápugerðinni við að pakka og svona. Það er mjög fínt.“
Steini Eggerts kveikti í mér
„Ég er alltaf að skapa eitthvað, ég er bara þannig, teikna eða fá hugmyndir um hvað ég eigi að framleiða næst. Þannig koma einnig hugmyndir að sáputegundum. Þorsteinn Eggertsson kveikti í mér á sínum tíma þegar hann kenndi mér teikningu í barnaskólanum. Hann stillti alltaf teikningum uppi á vegg eftir nemendur, myndir sem honum þóttu góðar. Ég teiknaði grínfígúrur níu ára gamall og hann sýndi þær á veggnum. Það gaf mér sjálfstraust að sjá að hann vildi sýna þær öðrum nemendum. Mér fannst svo gaman hjá Steina Eggerts í teiknitímum. Ég hef alltaf verið svona, alveg frá því ég man eftir mér fimm eða sex ára, alltaf að teikna á blað. Ég teikna ennþá mikið og hef meðal annars teiknað allar innréttingar hér í nýju búðinni, skipulag og fleira. Ég vil líka vita hvað hlutirnir kosta áður en ég fer út í framkvæmdina og þess vegna undirbý ég mig vel áður. Ég fór í húsasmíði á sínum tíma en kláraði aldrei sveinsprófið. Afi minn vildi hætta í fiskverkuninni hjá pabba og ég var kallaður inn í fjölskyldufyrirtækið og tók við verkstjórn, rekstri og framleiðslustjórn í átta ár þarna. Svo rákum við sportvöruverslunina í þrjú ár áður en við seldum þá verslun. Jú, ætli maður sé ekki frumkvöðull, vill alltaf vera að skapa og ryðja leiðina, búa til eitthvað nýtt,“ segir Ólafur og brosir á sinn hógværa hátt þegar hann minnist á starfsferil sinn og alla ábyrgðina hjá Fiskverkun HB sem hann tókst á við kornungur maðurinn, aðeins um tvítugt.
Fór í háskólanám uppi á Velli
Það vakti athygli á sínum tíma þegar það fréttist að Ólafur væri kominn í háskólanám uppi á Velli en þar fékk hann sérstakt leyfi íslenska Utanríkisráðuneytisins til þess að stunda nám með Ameríkönunum við University of Maryland.
„Á þessum tíma var Öldungadeild eða kvöldskóli við Fjölbrautaskóla Suðurnesja þar sem ég fór aftur í nám. Ég átti örfáar einingar eftir í stúdentspróf en gat ekki klárað það, ég byrjaði samt að skrifa háskólum í Bandaríkjunum og sendi tíu umsóknir af stað þangað. Þá svaraði mér háskóli í Maryland og sagði að þeir væru með útibú uppi á Velli, sögðust vera staðsettir á NATO Base í Keflavík. Þeim fannst sjálfsagt að ég færi í viðtal þangað á skrifstofuna þeirra, sem endaði þannig að ég fékk inngöngu. Það var allt mjög strangt í kringum þetta samt, því ég þurfti að sækja um sérstakan passa fyrir hverja önn og sjálfur íslenski utanríkisráðherrann skrifaði undir þetta leyfi. Þarna sótti ég tíma frá 1991 til 1994 og lærði stjórnunarfræði í rekstri fyrirtækja en kláraði ekki BA-námið. Þá var teikniáhugi minn farinn að aukast og mér fannst svo miklu meira spennandi að vinna við það á einhvern hátt. Mig langaði að sameina þá hæfileika mína við nám og gerði það í grafískri hönnun. Ég fann mjög spennandi nám við háskóla í Atlanta, sótti um og fékk inngöngu. Við hjónin seldum allar eignir okkar hér á Íslandi og fluttum út með litla dóttur okkar í nokkur ár. Þarna lærði ég grafíska hönnun, vöruhönnun, markaðsstjórn og auglýsingastjórn. Þetta var frábært nám. Í dag er ég útskrifaður grafískur hönnuður og sé um að hanna allar umbúðir hér sjálfur. Ég prenta einnig sjálfur límmiðana og er sjálfum mér nógur í allri framleiðslu vörunnar sem ég er að búa til en það eru sápurnar og allt tengt baði og baðvörum. Ég bý til eigin sápuuppskriftir og það er engin sápa eins en það er alltaf ákveðinn grunnur sem þarf,“ segir Óli og vill ekki segja meir því leynd hvílir yfir allri uppskriftinni sem þarf í sápurnar hans.
Húðofnæmi örlagavaldur
Það kom samt ekki til af góðu að Óli fór út í þessa sápuframleiðslu því sjálfur lenti hann í heiftarlegu ofnæmi sem kom honum inn á spítala í Bandaríkjunum á meðan á náminu stóð. „Ég lenti í því í Atlanta að fá ofnæmi fyrir sápu sem varð svo alvarlegt að ég var lagður inn. Ég gat ekki notað neinar sápur. Þar fundu þeir út að ég væri með svona mikið ofnæmi fyrir sápuvörum. Í kjölfarið vorum við fjölskyldan úti að keyra eitt sinn um sveitahéruð Georgíu og ókum fram á bóndabæ þar sem verið var að framleiða náttúrulegar sápur, framleiddar frá grunni eins og gert var fyrir fimm þúsund árum. Þessi bóndi var einnig að selja alls konar dót, heimagerðar sultur og fleira heimagert. Ég keypti af honum sápu og prófaði og varð betri í húðinni því ég þoldi þessa tegund af sápu. Svo kynntist ég betur þessum bónda og hann kenndi mér að búa til mínar eigin sápur. Hér á landi fæst ekki allt hráefni sem þarf til sápugerðar og því flyt ég ennþá inn hluta af efninu.“
Ný hugmynd eftir Hrun
„Mörgum árum seinna stofnaði ég Sápuna eða árið 2009 í kjölfar hrunsins. Þá fannst mér ég verða sjálfur að skapa mér atvinnu svo aðrir gætu fengið starfið sem ég hafði. Ég ákvað að prófa að framleiða smá af sápum og fór með þær og kynnti fyrir verslunum og útbjó þær sem minjagripi. Ég fékk jákvæð viðbrögð og boltinn byrjaði að rúlla, smátt í fyrstu. Túrisminn var ekki byrjaður en það voru teikn á lofti um að ferðamönnum ætti eftir að fjölga hingað til lands á þessum árum. Ég vissi að Ameríkanar og Bretar þekktu svona handgerðar sápur frá löndum sínum. Svo byrjaði ég að þæfa ull utan um sápuna sem ég bjó til en það er aðferð sem notuð var áður og eru til heimildir um frá árinu 1770. Ullin mýkir húðina þegar henni er strokið um húðina og hreinsar vel burt dauðar húðflögur. Þetta er skrúbbur sem gerir húðina silkimjúka. Þessi ullarsápa hefur verið allra vinsælasta varan hjá mér í gegnum árin og selst mjög vel. Ég hef stundum ekki undan því salan er það góð. Eftir að ég sá viðbrögð verslana við sápunni frá mér þá ákvað ég að gera fleiri tilraunir og búa til fleiri sápugerðir. Mér fannst þetta stórmerkileg uppgötvun að sjá eftirspurnina sem varð svo mikil og hefur haldist til dagsins í dag. Ég er með íslenska ull í fimmtíu til sextíu litasamsetningum sem ég hef sjálfur búið til. Ég hanna vöruna og útlitið og nota íslenskt hráefni eins mikið og fæst. Svo hlusta ég á markaðinn, hvað er að seljast best hverju sinni. Ég bý til prufur og gái hvernig gengur. Sápurnar seljast í dag í mörgum verslunum en mig langaði að opna eigin verslun hér í gamla heimabænum og stækka vöruúrvalið í kringum sápurnar. Hér var ég að hugsa um samlanda mína, Íslendinga sem vilja kynnast þessari sápu. Íslendingar eru nefnilega ekki almennt að fara inn í túristabúðirnar. Þetta er svona baðverslun með allt sem þarf í dekrið heima. Heita vatnið okkar er lykillinn að hugmyndinni í þessari nýju verslun. Hér sel ég sápur í alls konar útgáfum en þær innihalda hrein náttúruleg efni sem henta viðkvæmri húð. Ég er einnig með sérstaka barnalínu í sápunni. Svo er ég með handklæði, ilmolíur, saltkristalslampa og fleira. Þeir sem vilja búa til sínar eigin sápur og baðbombur geta einnig komið hingað og keypt hráefni í það. Reglulega hef ég verið með námskeið í sápugerð. Fyrirtæki og hópar hafa einnig pantað svona námskeið. Fólk hefur gaman af þessu.“
Hráefnið er íslenskt og gott
„Ég nota íslenskt hráefni og kaupi af íslenskum bændum sem eru að framleiða efni sem ég get notað. Ég fæ íslenska tólg og fleiri einstaklega góð efni í sápugerð. Geitamjólk hef ég notað og íslenskt sjávarsalt. Vínur minn og nafni, bóndinn á Þorvaldseyri, selur mér íslenska repjuolíu sem hann framleiðir sjálfur. Svo hefur hann farið með mér um landið sitt til að moka ösku sem ég nota í sápur en askan er einstaklega góð til að skrúbba húðina. Ég hef einnig búið til sápur fyrir psoriasis-sjúklinga. Ég þarf sjálfur að passa mig. Ég er því aðaltilraunadýrið og prófa allar sápur á mér fyrst áður en ég set þær í sölu. Ef húðin mín þolir það þá þola fleiri blönduna því ég er svo viðkvæmur fyrir sápum og þvottaefni. Sápur í stykkjum henta oft betur þeim sem eru viðkvæmir en sápur í fljótandi formi. Það hefur reynsla mín kennt mér,“ segir Ólafur kankvís og býður alla velkomna í Sápuna í Reykjanesbæ.