Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Heiðarholti berast veglegar gjafir
Miðvikudagur 29. febrúar 2012 kl. 12:11

Heiðarholti berast veglegar gjafir



Skammtímavistuninni Heiðarholti í Sandgerði hafa borist veglegar gjafir undanfarna daga. Það byrjaði á því að Kvenfélagið Hvöt í Sandgerði styrkti Heiðarholt með peningagjöf, Landsbankinn fylgdi svo í kjölfarið og gerði slíkt hið sama. Þá höfðu kvenfélagskonur í Garðinum samband og sögðust einnig ætla að styrkja og ákváðu að gefa líka peninga svo að hægt væri að ráðstafa þeim þannig að þeir myndu nýtast sem best starfseminni. Þegar fyrstu gjafirnar bárust kom upp hugmynd um að mögulega yrði hægt að setja upp heitan pott við Heiðarholt en það hefur verið fjarlægur draumur, bæði starfsfólks og þjónustunotenda í Heiðarholti, um nokkurt skeið.

En þetta stoppaði ekki þarna því kvenfélagskonur í Keflavík ákváðu einnig að leggja sitt af mörkum og styrktu Heiðarholt með veglegri peningagjöf. Til að setja punktinn yfir i-ið setti Kolfinna Magnúsdóttir, íbúi í Sveitarfélaginu Garði, sig í samband við Katrínu Júlíu forstöðumann skammtímavistunarinnar og sagði henni að Stefán Friðrik, maðurinn hennar, hafi verið dreginn út í afmælisleik BYKO þar sem einn viðskiptavinur, sem er jafnframt BYKO-klúbbs meðlimur, er dreginn út í hverjum mánuði og fær að gjöf 200.000 króna inneign í versluninni og fær svo að ánafna jafn hárri upphæð til góðgerðamála. Þau hjónin völdu Heiðarholt í þessu samhengi.

Þegar öllu er á botninn hvolft er ljóst að það er orðinn raunverulegur möguleiki að setja upp margumtalaðan pott og skjólveggi, þannig að nú mun Katrín Júlía hefjast handa við að leita tilboða og útvega mannskap í verkið.

Gjafir sem þessar eru ómetanlegur hluti af uppbyggingu í þjónustu við fatlað fólk og starfsfólk og þjónustunotendur í Heiðarholti þakka Kvenfélögunum í Sandgerði, Garði og Keflavík, Landsbankanum, BYKO og Kolfinnu og Stefáni kærlega fyrir höfðinglegar gjafir.

Mynd/[email protected] texti Sandgerði.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024