Heiðabúar fagna 70 ára afmæli
Skátafélagið Heiðabúar hélt upp á 70 ára afmæli félagsins í skátaheimilinu að Hringbraut á laugardag. Ungir sem aldnir Heiðabúar komu þar saman og hlýddu á ávörp, m.a. frá Gunnari Eyjólfssyni, stórleikara og fyrrum skátahöfðingja, sem sýndi stoltur Heiðabúa-merkið sem prýðir búninginn hans.
Þessi stutta samantekt á upphafsárum félagsins er fengin af heimasíðu þess:
Skátafélagið Heiðabúar var stofnað þann 15. september 1937. Stofnendur voru 8 drengir þeir voru: Helgi S. Jónsson, Gunnar Þorsteinsson, Ólafur Guðmundsson, Óskar Ingibergsson, Alexander Magnússon, Helgi Jónsson, Marteinn J. Árnason og Arnbjörn Ólafsson. Helgi S. Jónsson var aðalhvatamaður að stofnun félagsins.
Á fyrstu árunum voru erfiðleikar með húsnæði fyrir starfsemina. Þeir byrjuðu í Klappinborg á Túngötu, fengu síðan gefið gamalt hænsnahús sem þeir innréttuðu í tvö herbergi, þar næst Túngötu 17, sem var kölluð Skemman.
Árið 1943 stofnuðu ungar stúlkur 3. sveit í Heiðabúum. Þetta var fyrsta skátafélagið í heiminum með stúlkur og drengi starfandi saman í skátafélagi. Helga Kristinsdóttir var fyrsti sveitarforingji 3. sveitar.
Árið 1945 höfðu skátarnir byggt sér 70 fermetra skátahús langt fyrir ofan bæinn á svæði þar sem kartöflugarðar bæjarbúa voru, og er á horni Vatnsnesvegar og Hringbrautar.
Húsið var allt steypt á höndum eins og gert var í þá daga og eiga skátarnir góðar minningar frá byggingartímanum. Árið 1973 var hafist handa við að stækka skátahúsið í 200 fermetra og var það vígt 22. maí 1976. Húsið er dýrmæt eign fyrir félagið og er það eingöngu notað fyrir skátastarf.
Í Ljósmyndasafni Víkurfrétta má sjá nokkrar myndir frá samkomunni.
VF-myndir/Þorgils: 1: Gunnar Eyjólfsson sýnir merkið sem hann ber á ermi sinni. 2: Mikil kátína ríkti á afmælishátíðinni.