Heiða Eiríks gefur út breiðskífuna „Fast“
Heiða Eiríks er að ljúka við gerð breiðskífu sem hefur fengið nafnið „Fast“. Það er Heidatrubador sem sendir frá sér plötuna, gamalt alterego Heiðu sem aldrei hefur fengið að njóta sín nægilega en er, eins og nafnið gefur til kynna, trúbadorútgáfan af Heiðu. Hellvar er hljómsveitin sem lög Heiðu rata vanalega til, en á breiðskífu Heidutrubador má segja að allar órokkuðustu hugmyndirnar séu nú að fá hljómgrunn.
Platan er 10 laga, og útgangspunkturinn var að gera einhvers konar folk/alt-country/lo-fi-plötu þar sem tilraunagleði og grípandi melódíur takast á. Heiða tekur semur lög, texta og tekur upp sjálf en platan er nú í hljóðblöndun hjá Curver Thoroddsen. Það er smá Berlínar-þema á plötunni, sum lög urðu til þar og önnur urðu til í Reykjavík þegar Heiða var með heimþrá til Berlínar.
Fyrsta smáskífan heitir „Life and dream“ og þar spilar Heiða á kassagítar, rafgítar, hörpu, munnhörpu, slagverk, bassa og syngur. Platan kemur út þegar hún er tilbúin.