Hefðin er partur af jólagleðinni
Dagmar Rós Skúladóttir er 19. ára og býr í Keflavík. Hún er í sambúð með Einari Orra Einarssyni, fótboltakappa og eiga þau einn voffa. Dagmar var að útskrifast úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja og stefnir á áframhaldandi nám næsta haust. Þessa dagana er Dagmar að vinna en jólastússið hefur komið aðeins inn á milli.
Fyrstu jólaminningarnar?
Ég man vel eftir því, ein jólin, þegar jólsveinninn skildi heilan poka eftir af pökkum inn í bíl hjá okkur. Þannig var mál með vexti að ég, Pabbi og bróðir minn vorum að keyra út jólapakkana á aðfangadag og að góðum vana stoppuðum við hjá ömmu í smá jólakaffi. Þegar við komum aftur út í bíl, þá hafði jólasveinnin á einhvern stórfurðulegan hátt, komist inn í bílinn og skilið eftir fullan poka af gjöfum. Mér fannst það ekkert lítið spennandi.
Jólahefðir hjá þér?
Jólin hjá mér eru frekar hefðbundin. Kertasníkir er svo yndislegur að gefa okkur bók í skóinn, þrátt fyrir að við séum komin langt yfir aldur og ég byrja yfirleitt að glugga aðeins í hana. Ég og pabbi förum síðan og keyrum út restina af gjöfunum á meðan hinir byrja á að baða sig. Síðan byrjar pabbi að undirbúa matinn en við borðum alltaf klukkan sex og hlustum á jólaklukkurnar hringja inn jólin. Þegar við erum södd og sæl færum við okkur yfir í stofuna og byrjum að opna pakkana. Við veljum einn til þess að lesa á kortin og síðan tökum við upp pakkana einn á fætur öðrum. Það sem mér finnst mjög skemmtilegt er þegar við opnum jólakortin. Við geymum þau öll fram á aðfangadagskvöld og hver og einn fær sín kort. Síðan reynum við að giska á frá hverjum hvaða kort er, einungis með því að lesa framan á umslagið.
Ertu dugleg í eldhúsinu yfir hátíðarnar?
Ég get nú ekki sagt það. Ég hef ekki haft mikinn tíma til þess að elda né baka. Allavegana ekki þessi jól. En ég er búin að lofa sjálfri mér að vera duglegri næstu jól.
Jólamyndin?
Christmas Vacation horfi ég á hver jól og svo má ekki gleyma græna karlinum, Grinch.
Jólatónlistin?
Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mikið fyrir jólatónlist, en uppáhalds jólalagið mitt í ár er “Believe” úr “The Polar Express”.
Hvar verslarðu jólagjafirnar?
Ég versla þær út um allt. Fer þangað sem hugurinn leiðir mig. Mér finnst rosalega gaman að fara laugarveginn og versla jólagjafirnar. Þá kemst ég í góðan jólafýling.
Gefurðu mikið að jólagjöfum?
Ég get nú ekki sagt það. Ég gef fjölskyldunni minni og tengdafölskyldunni og svo nokkrum þar fyrir utan. Ég er bara guðs lifandi fegin að við vinkonurnar gefum ekki hverri og einni jólagjöf. Þá væri ég með mun fleiri pakka.
Ertu vanaföst um jólin?
Já, ég er rosalega vanaföst, verð að viðurkenna það. Mér finnst mjög erfitt að breyta út af vananum, sérstaklega á jólunum. Hefðin er partur af jólagleðinni. Einu sinni var ég að vinna á aðfangadag og það tók verulega á.
Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Ég verð eiginlega að segja allar þær gjafir sem eru frá hjartanu. Þær eru sérstaklega góðar, þessar heimatilbúnu. Klisju svar, ég veit, en það má á jólunum.
Hvað langar þig í jólagjöf?
Það er góð spurning. Bara að ég vissi svarið við henni.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Við byrjum á humarsúpu í forrétt og færum okkur svo yfir í aðalréttinn sem er hreindýr. Í eftirrétt er svo heimalagaði ísinn hennar mömmu.