Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Hefði ekki gengið upp hefði ég ekki svona frábært starfsfólk“
Leikskólinn Skógarás er sjálfstætt starfandi og rekinn af Skólum ehf. en er með þjónustusamning við Reykjanesbæ.
Sunnudagur 19. ágúst 2018 kl. 07:00

„Hefði ekki gengið upp hefði ég ekki svona frábært starfsfólk“

- Heilsuleikskólinn Skógarás á Ásbrú opnaði á mettíma

Starfsmenn Heilsuleikskólans Skógarás á Ásbrú, áður Háaleiti, hafa unnið hörðum höndum síðustu vikur við að flytja inn í nýja leikskólann og gera hann starfhæfan. Katrín Lilja, starfandi skólastjóri, segir samstarfið hafa gengið gríðarlega vel í sumar og allir sem komu að leikskólanum viljað gera sitt besta þó að allt hafi verið á síðasta snúning.

Á vormánuðum í fyrra var útlit fyrir að mikil fólksfjölgun yrði á svæðinu. Því var farið í það að finna nýtt húsnæði fyrir Heilsuleikskólann Háaleiti þar sem mikil fjölgun var á nemendum í Háaleitisskóla auk þess sem áætlað var að hann væri með nemendur frá 1.–10. bekk. Skógarbraut 932 hentaði leikskólanum vel ef húsið yrði stækkað. „Reykjanesbær var mjög hrifinn af gámaskipulaginu sem notað var í Stapaskóla og ákvað að við færum í sama pakka,“ segir Katrín en síðasti vetur fór mikið í að liggja yfir teikningum og hanna leikskólann sem í dag nefnist Heilsuleikskólinn Skógarás. Þess má geta að þó að nýja húsnæðið sé aðeins minna en það gamla þá nýtist það mikið betur og allt annað líf að vera nú með fjórar deildir en ekki þrjár.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gamli parturinn var alveg tilbúin í júlí en gámaeiningarnar komu ekki strax til landsins og því búið að vera mikið stress að klára nýja hlutann þó að það hafi tekist fyrir opnun. Skólar ehf. sem reka Heilsuleikskólann Skógarás og Reykjanesbær ákváðu í sameiningu að fresta opnun leikskólans um tvo daga svo að Katrín og starfsfólkið hennar fengu nægan tíma til að koma hlutunum í rétt horf.

„Við fórum úr gamla húsnæðinu 3. júlí og hentum öllu í gáma. Komumst svo hingað inn á þriðjudaginn í síðustu viku og erum búin að vera á fullu síðan þá.“ Leikskólinn opnaði svo síðastliðinn mánudag (13. ágúst) og gekk fyrsti dagurinn mjög vel. „Það var mikið um það að foreldrar væru að labba inn um vitlausan inngang en það er eina vandamálið sem hefur komið upp,“ segir Katrín hlæjandi en nú í dag eru 70 krakkar á leikskólanum og margir á biðlista. „Þetta svæði er að stækka gífurlega og það mun koma að því að það verði meiri þörf fyrir leikskólapláss heldur en er í dag.“  

Katrín heldur uppi Facebook-síðu fyrir foreldra á leikskólanum þar sem hún hefur deilt upplýsingum um ferlið. Það var einmitt foreldri sem fann upp á nýja nafninu; Skógarás. „Við óskuðum eftir hugmyndum af nýju nafni frá foreldrum og þetta varð fyrir valinu.“

Það var ekki aðeins breytt um nafn á leikskólanum sjálfum en ákveðið var að nefna allar deildirnar eftir fuglum. Í dag eru deildirnar fjórar, einni fleiri en á gamla leikskólanum, og eru nefndar eftir fuglum og er planið að nefna hvert einasta herbergi. „Við viljum að börnin læri eitthvað alls staðar.“

Katrín er með 17 starfsmenn á leikskólanum og segist ekki hafa getað þetta án þeirra. „Sumir komu fyrr úr sumarfríi til að hjálpa við að flytja og ég þurfti ekki einu sinni að segja þeim hvað þau ættu að gera.“ Katrín segir samstarfið við alla aðila hafa skipt miklu máli en að starfsfólkið hafi án efa verið duglegast af öllum. Þau hjálpuðust að, pökkuðu niður gamla leikskólanum og hún þurfti varla að hugsa út í það.  




Katrín Lilja með starfsstúlkunum Önnu Bokuniewicz og Jónínu Carol Sveinarsdóttur.

„Gáma“-leikskólinn Skógarás er glæsilegur og aðstaða innan dyra sem utandyra er til fyrirmyndar.

Framkvæmdir voru enn í gangi við lóð rétt eftir opnun.