Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Hef lengi spilað á trommur í huganum“
Fimmtudagur 27. febrúar 2003 kl. 15:08

„Hef lengi spilað á trommur í huganum“

-segir Hjálmar Árnason alþingismaður í viðtali við Víkurfréttir

Trommusláttur heyrist nú með reglulegu millibili á Faxabrautinni í Keflavík, en alþingismaðurinn Hjálmar Árnason hefur orðið sér úti um trommusett sem hann ber reglulega til að fá útrás eftir amstur dagsins í þinginu. Á síðustu mánuðum hefur Hjálmar æft sig í trommuleik og verður að eigin sögn betri með hverjum degi.
Hjálmar segir að það hafi verið gamall draumur að setjast með trommukjuða og berja húðir: „Ég hef spilað lengi á trommur í huganum, því þetta hefur verið draumur í 45 ár eða frá því ég var smá ormur,“ segir Hjálmar en sonur hans hvatti hann til kaupa á trommusetti: „Rétt fyrir jólin lét ég drauminn rætast fyrir hvatningu frá syni mínum sem er að leika sér í bílskúrsbandi. Trommuleikarinn þar ákvað fyrir jólin að skipta um trommusett og ég ákvað að fjárfesta í hans gamla setti og þar með láta drauminn rætast.“
Annir þingmanna eru miklar og eftir annasaman dag er nauðsynlegt að tæma hugann og einbeita sér að áhugamáli: „Þetta er eins og að ganga ofan í tæra laug eftir strangan vinnudag og koma þaðan tandurhreinn af settinu. Ég fæ góða útrás með trommuleiknum.“
Hjálmar segir að það hafi ekki verið leikur einn að hefja trommuleikinn því samhæfa þurfi margar aðgerðir í einu: „Þetta hefur gengið skrykkjótt og reynist mun erfiðara en ég hélt. Ég fékk góðar gjafir og hvatningu frá börnum mínum, meðal annars bókina „The absolute beginners book for drum players“ og trommukjuða. Ég keypti mér síðan spólu fyrir algjöra byrjendur, en stóri vandinn er að hafa stjórn á öllum útlimunum í ólíkum takti. Á tímabili var ég að brotna,“ segir Hjálmar og kímir.
En Hjálmari var rétt hjálparhönd frá samflokksmanni og vini sem þekktur er fyrir að hafa sungið lagið Traustur vinur inn í hjörtu þjóðarinnar: „Síðan gerðist það á skrifstofu minni þar sem ég var gráti næst yfir þessum vonbrigðum að kollegi minn, Magnús Stefánsson, þingmaður Vestlendinga og Traustur vinur (söng lagið inn á plötu) kom á skrifstofuna til mín og tók mig í kennslustund. Magnús er þekktur trommuleikari og spilar með hljómsveitinni Upplyftingu. Magnús kenndi mér ákveðin trix inni á minni skrifstofu og ég settist síðan við trommusettið þegar ég kom heim og undrið gerðist. Frá þessu andartaki hefur leiðin legið beint upp á við. Að vísu hef ég mætt smá niðurbroti því konan mín hefur tvisvar sinnum kíkt á „kallinn“ inni í skúr og fengið hláturskast í bæði skiptin,“ segir Hjálmar alvarlegur í bragði. Töluverður hávaði fylgir trommuleik „kallsins“: „Dóttir mín hefur forstofuherbergi sem liggur upp að bílskúrnum og fyrir kemur að hún neyðist að flýja úr herberginu sínu vegna látanna í föður sínum,“ segir Hjálmar en bætir við að dóttirin sé stolt af pabba sínum.
Sonur Hjálmars og vinur hans hafa gefið honum fyrirheit um að spila með honum ef hann standi sig vel: „Hlynur Valsson og Ingvar Hjálmarsson hafa sett upp þá gulrót fyrir mig að ef ég verði duglegur að æfa mig þá muni þeir birtast með gítarana í bílskúrnum. Það er mikil hvatning fyrir mig, enda hlakka ég til að spila með þeim.“

Hjálmar segir að hann stefni hátt í spilamennskunni. Ég set markið hátt. Charlie Watts í Rolling Stones er farinn að eldast og ég sé að hann muni fljótlega hverfa af vettvangi hljómsveitarinnar. Ég og Rúnar Júlíusson höfum talað um það að við munum báðir reyna að fylla skörð hinna rosknu félaga þegar þeir hverfa úr hljómsveitinni. Júlíus, sonur Rúnars, er minn andlegi leiðtogi í þessu og það fer að koma að því að hann fari að leiðbeina mér frekar í trommuleiknum,“ segir Hjálmar og þegar blaðamaður gengur út úr bílskúrnum má heyra að „kallinn“ hefur náð ágætis tökum á trommuleiknum og meira að segja takturinn er í lagi.

VF-ljósmynd: Hjálmar hefur komið sér upp ágætis trommuaðstöðu í bílskúrnum hjá sér.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024