Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Hef aldrei verið jafn heilsuhraust og orkumikil eins og eftir að ég varð Vegan“
Laugardagur 21. apríl 2018 kl. 06:00

„Hef aldrei verið jafn heilsuhraust og orkumikil eins og eftir að ég varð Vegan“

- Instagram-síðan betterwithplants er litrík og skemmtileg

Guðrún Elísa Ásbjörnsdóttir heldur úti Instagram-síðu sem ber heitið
betterwithplants, hún hefur verið Vegan frá árinu 2016 en hún bjóst ekki við því að verða týpan sem gæti orðið Vegan. Ljósmyndirnar hennar eru litríkar og skemmtilegar en Elísa hefur mikinn áhuga á Vegan-eldamennsku og ljósmyndun.

Hefur aldrei litið til baka
Elísa byrjaði að hafa áhuga á veganisma árið 2015 og ákvað þá að hætta að borða rautt kjöt. „Fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári þá tók ég stóra skrefið og varð Vegan. Áður var ég þessi týpa sem sagðist aldrei geta orðið Vegan en eftir að ég fór að lesa mig til um þetta og horfa á heimildarmyndir gat ég ekki annað en tekið þessa ákvörðun og hef aldrei litið til baka. Elísa segist vera vegan af siðferðis-, heilsufars- og umhverfisástæðum. „Mér finnst líf milljóna dýra vera mikilvægara en bragðlaukarnir mínir. Ég hef aldrei verið jafn heilsuhraust og orkumikil eins og eftir að ég varð Vegan. Það er bara svo ótrúlega mikil fáfræði að manneskjur þurfi að neyta dýraafurða til þess að lifa af.“ Elísa segist þó ekki vera aktívisti en hafi þó enn ekki heryrt neina góða ástæðu fyrir því að vera ekki Vegan.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Opnaði Instagram-reikning tileinkaðan matnum
Elísa hefur mikinn áhuga á eldamennsku en henni finnst fátt skemmtilegra en að prófa sig áfram með nýjar uppskriftir, setja matinn úr þeim á disk og taka myndir af útkomunni. „Ég var oft að setja myndir á persónulegu Instagram-síðuna mína, en mig langaði að fara aðeins lengra með þetta og ákvað að opna annað Instagram sem væri þá bara tileinkað matnum sem ég geri og sé ekki eftir því. Þetta er ótrúlega gaman og er ég að vinna í því að opna blogg út frá Instagram-síðunni.“

Ljósmyndir Elísu á Instagram síðunni „Better with plants“ eru einstaklega litríkar en sjálf segist hún vera með mikinn áhuga á ljósmyndun. „Ég fékk myndavél í útskriftargjöf í fyrra og fleiri myndavélagræjur í jólagjöf og hef verið að prófa mig áfram með það allt. Ég er algjör nýliði en mjög áhugasöm og hlakka til að læra meira.“

Hvað heillar þig mest við veganismann?
„Vá svo mikið! Bara það að geta bjargað fullt af lífum með því að hætta að styðja kjötvinnslu. Ég hef mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl og ég elska hvað það er auðvelt að borða hollt og næringarríkt á vegan mataræði. Einnig finnst mér ótrúlega gaman að fylgjast með því hvað veganisminn er að stækka og fólk er farið að hafa meiri áhuga á þessu. Stórar verslanir eru farnar að auglýsa vörur sérstaklega sem vegan og flytja inn vegan vörur eins og vegan osta og kjötlíki.“