Haustlitirnir í Montréal töfrum líkastir
Undanfarin ár hafa þau Jane Petra Gunnarsdóttir og Elentínus Guðjón Margeirsson búið ásamt börnum sínum í Montréal í Kanada. Ástæða búferlaflutninganna var starf sem Elentínusi bauðst þar og ákváðu þau að stökkva á tækifærið til að prófa eitthvað nýtt, enda Montréal heillandi og fjölþjóðleg menningarborg.
„Við settumst að í hverfi sem heitir Westmount. Westmount er í raun eigin borg inni í miðri Montréal. Hún var eitt sinn hluti af Montréal en er nú aðskilið bæjarfélag. Krakkarnir fóru öll í sama skóla til að byrja með, Roslyn Elementary. Þegar vorönn lauk útskrifaðist Lárus Logi þaðan og fór því næsta vetur í Westmount High School. Það var enskumælandi skóli en franskan kennd nokkrum sinnum í viku. Hugrún Lea lærði einnig frönsku í skólanum en hjá Júlían Breka fór kennslan fram á frönsku hálfan skóladaginn en ensku hinn helminginn,“ segir Jane, en Montréal er næst stærsta frönskumælandi borg heims á eftir París.
Vann hjá IATA
Starf Elentínusar var hjá IATA, alþjóðasamtökum flugfélaga, en þau eru með höfuðstöðvar sínar staðsettar í Montréal. Samtökin eru uppbyggð af 280 flugfélögum víðsvegar um heiminn. Starfið fólst í umsjón með vinnuhóp sem hafði það markmið að samræma væntingar leigusala og leigutaka þegar kemur að leigu á flugvélum og lagði hans hópur áherslu á staðla þegar kemur að færslu á tæknigögnum milli aðila.
Ferðaskrifstofa Jane Petru
Jane sá um börnin og heimilið og ákvað síðasta veturinn sem þau bjuggu í Montréal að skrá sig í fjarnám frá Háskóla Íslands til þess að klára BS gráðuna sína í íþróttafræði. „Ég var mjög dugleg að æfa, fór á frönskunámskeið, var sjálfboðaliði í skóla barnanna, var í tveimur bókaklúbbum og var dugleg að hitta vinkonur mínar í „brunch“ og hádegismat. Einnig gekk ég til liðs við samtök sem heita LESA (Local Expatriate Spouse Association). Í þessum samtökum kynntist ég mörgum frábærum konum sem eru mjög góðar vinkonur mínar í dag. Svo grínaðist ég alltaf með það að ég væri að reka ferðaskrifstofu Jane Petru því við vorum svo einstaklega heppin að fá fullt af fjölskyldumeðlimum og vinum til okkar í heimsókn og fannst mér mjög gaman að sýna þeim borgina og nágrenni hennar,“ segir Jane.
Prófuðu jóga, badminton og jiu jitsu
Krakkarnir stunduðu fótbolta, körfubolta, breikdans og fimleika fyrir utan skólann. „Fótboltinn var mest yfir sumarið og þurftu drengirnir að fara á úrtökuæfingar til að mega æfa með hverfisliðinu. Báðum gekk þeim vel og voru þrjú sumur með liðinu í Westmount. Lið Lárusar Loga vann til að mynda sinn riðill fyrsta sumarið hans og vannst úrslitaleikurinn eftir vítaspyrnukeppni. Hugrún Lea var í fimleikum á veturna hjá félagi sem heitir Gadbois og Lárus Logi komst þriðja árið okkar úti í körfuboltalið skólans í sínum aldursflokki. Í Roslyn var hægt að borga aukalega fyrir krakka til að vera í tómstundum í hádeginu eða strax eftir skóla allan veturinn. Við nýttum okkur þetta og lærðu krakkarnir m.a. jóga, badminton og jiu jitsu,“ segir Jane.
Hvernig var fyrir krakkana að aðlagast í nýju landi?
Krökkunum gekk nokkuð vel að aðlagast en þetta reyndi samt alltaf á og það komu reglulega upp tímabil sem okkur langaði hreinlega að gefast upp og flytja með þau heim til Íslands. En okkur fannst mjög mikilvægt að gefast ekki upp og sýna krökkunum að lífið væri ekki alltaf auðvelt. Til að gera þetta auðveldara fyrir þau vorum við mjög dugleg að nýta helgarnar í samveru með þeim, við vorum alltaf að gera eitthvað skemmtilegt um helgar og vonandi munu þau aldrei gleyma þessum tíma sem við áttum öll saman í Kanada.
Hvað fannst ykkur ólíkt því sem þekkist á Íslandi?
Stærsti munurinn á þessum tveimur löndum er hversu fjölþjóðlegt Kanada er og hve Kanadabúar eru opnir því að kynnast nýbúum landsins. Hverfið sem við bjuggum í var mjög fjölþjóðlegt og það sem kom sérstaklega á óvart var hversu margt fólk var þarna í sömu sporum og við, þ.e.a.s. hafði flutt þangað tímabundið vegna vinnu. Í bekkjunum hjá krökkunum var kannski helmingurinn Kanadabúar og svo voru þetta börn alls staðar að úr heiminum, t.d. Bretlandi, Bandaríkjunum, Mexíkó, Suður-Kóreu, Svíþjóð, Ástralíu og Sádí-Arabíu. Einnig fannst mér ótrúlegt hve mörg tungumál fólk talaði, það voru flestir sem töluðu tvö til fjögur tungumál. Fólk var opið fyrir því að kynnast nýju fólki og var það virkilega ánægjulegt og eignuðumst við marga góða vini.
Montreal er mikil menningarborg, voruð þið dugleg að nýta ykkur það?
Já við vorum það, t.d. vorum við dugleg að fara á tónleika. Við skelltum okkur á tónleika með Rihönnu, U2, Adele, Maroon 5 og Coldplay. Einnig eru hátíðir allan ársins hring, t.d. fórum við á Just for Laughs, Jazz festival, sirkusfestival og vetrarhátíðirnar sem ég nefndi fyrr. Montréal er heimaborg Cirque du Soleil þannig að það var ekki annað hægt en að skella sér á sirkussýningar. Mjög góðir vinir okkar eiga líka sirkus-fyrirtæki og þau voru dugleg að bjóða okkur á sýningar sem var alltaf jafn skemmtilegt.
Ferðuðust þið mikið á meðan þið bjugguð í Kanada?
Já við vorum mjög dugleg að gera það. Til dæmis eyddum við einu sumarfríinu okkar í Kletttafjöllunum og næsta sumar fórum við og keyrðum um Gaspé-skagann. Einnig fórum við til Quebec City, Ottawa og skoðuðum Niagara fossa. Það var stutt að keyra yfir til Bandaríkjanna og gerðum við það nokkrum sinnum, t.d. fórum við í helgarferð til New York. Á síðasta ári fögnuðum við Elli fjörtíu ára afmælunum okkar og þá skelltum við okkur í hjónaferð til Mexíkó og var það yndislegt.
Nú eruð þið flutt aftur heim. Hvað varð til þess?
Stærsta ástæðan fyrir því að við fluttum aftur heim var að við söknuðum fjölskyldu okkar og vina. Þó svo að okkur hafi liðið mjög vel í Montréal þá viljum við að börnin okkar alist upp á Íslandi. Reyndar sagði ég oft að ég vildi óska þess að ég væri fædd og uppalin í Montréal því þá myndi ég frekar vilja vera þar en á Íslandi. Það sem mér finnst líka best við Ísland er að börnin mín fá aftur að upplifa frjálsræðið sem fylgir því að eiga heima í litlum bæ í fámennu landi.
Var erfitt að flytja aftur heim?
Það var yndislegt að flytja aftur heim til að vera nær fjölskyldu og vinum en fyrir utan það þá hefur þetta verið mjög erfitt og krefjandi. Þeir sem hafa búið erlendis í nokkur ár hafa kannski upplifað þessa tilfinningu sem ég upplifði en það var þessi mikla sorg. Þó svo að ég hafi upplifað margt og eignast marga vini í Montréal þá fannst mér eins og ég hefði misst þetta allt saman þegar ég flutti aftur heim og það tók mig langan tíma að jafna mig á því og í rauninni er ég ennþá að vinna úr því. Planið var að Elli myndi flytja heim til Keflavíkur þegar verkefni hans myndi ljúka í Montréal en svo fékk hann óvænt spennandi vinnu í London hjá easyJet sem var ekki hægt að sleppa. Þannig að ég hef verið ein með börnin og söknum við Ella mjög mikið. Einnig er ég í krefjandi námi þannig að það hefur ekki gefist mikill tími til þess að njóta þess að vera með fjölskyldu og vinum.
Myndir þú mæla með að prófa að flytja með fjölskylduna í annað land?
Ég held að það sé öllum hollt að prófa að búa í öðru landi til að kynnast ólíkum siðum og venjum. Það er ekki átakalaust að flytja svona milli landa en ef fólk er meðvitað um að það getur reynst börnum erfitt að aðlagast þá getur það hjálpað.
Hvað var það besta við að búa í Montréal?
Að hafa alvöru árstíðir var virkilega gaman. Það gat verið mjög kalt á veturna en svo einnig mjög heitt á sumrin. Munur á kaldasta degi og heitasta degi á einu ári getur verið 60 gráður. Kanadabúar láta ekki kuldann stoppa sig í að njóta útiveru yfir háveturinn og smituðumst við af því. Við vorum mjög dugleg að nýta okkur mörg skíðasvæði sem eru stutt frá borginni, við nutum þess að skauta á útisvellum og renna okkur á sleðum í brekkunum. Yfir háveturinn eru ýmsar hátíðir sem fara fram utandyra sem eru ótrúlega skemmtilegar, t.d. Montréal En Luminier, sem er ljósahátíð og svo uppáhaldshátíðin okkar sem heitir Montréal’s Féte des neige, sem er snjóhátíð. Á vorin var yndislegt að sjá allt vakna til lífsins og ég elskaði öll trén sem voru þá í blóma og einnig var gaman að sjá þegar borgarbúar flykktust út þegar það fór að hlýna. Á sumrin nutum við þess að fara í sund, fara í lautarferðir og fá gesti frá Íslandi. Haustin í Montréal eru einstaklega falleg þegar öll stóru trén fá haustlitina, það var töfrum líkast að labba um borgina og dást að öllum litunum.