Public deli
Public deli

Mannlíf

Hátt í fimmtíu milljónir króna til góðgerðarmála á þremur árum
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 27. október 2023 kl. 11:35

Hátt í fimmtíu milljónir króna til góðgerðarmála á þremur árum

„Stefnum að því að halda verkefninu áfram. Náum vonandi tuttugu og fimm milljónum á næsta ári,“ segja eigendur Blue Car.

„Stefnan er alltaf að hækka upphæðina sem við söfnum. Kannski komumst við í 25 milljónir á næsta ári, hver veit,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Blue Car Rental en fyrirtækið stóð fyrir árlegu Góðgerðarfesti í húsakynnum fyrirtækisins 14. október. All söfnuðust tuttugu milljónir króna sem renna allar til góðgerðarmála á Suðurnesjum.

Góðgerðarfest Blue Car Rental var fyrst haldið árið 2019 og var hugmynd starfsmannafélags fyrirtæksins. Nokkur hundruð manns, starfsfólk og samstarfsaðilar komu saman og skemmtu sér í húsakynnum fyrirtækisins. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Svo vel tókst til að eigendur Blue Car Rental með Magnús Sverri Þorsteinsson í framlínunni, ákváðu að fara lengra með þetta verkefni og gera það að góðgerðarsamkomu. Hugmynd fæddist um að safna peningum sem myndu renna óskert til góðgerðarsamtaka og aðila á Suðurnesjum. 

„Hann Magnús okkar á það til að fara á flug og það er óhætt að segja að hann hafi gert það í þessu verkefni. Við leituðum til samstarfsaðila og birgja um að leggja verkefninu lið með fjárframlagi og svo vel tókst til að við söfnuðum 12 milljónum. Árið á eftir söfnuðum við 16 milljónum króna og nú söfnuðust tuttugu milljónir króna. Samstals hafa því safnast nærri fimmtíu milljónir sem hafa allar farið í frábær verkefni til félaga eða aðila sem öll sinna góðgerðarmálum eða mjög þörfum og góðum verkefnum, eins og t.d. Björgunarsveitin Suðurnes gerir svo vel,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Blue Car Rental.

Hjá fyrirtækinu starfa rúmlega hundrað manns, nær allt fólk á Suðurnesjum og er því hægt að segja að það sé orðinn mikilvægur hlekkur í atvinnulífinu á svæðinu. „Við höfum verið heppin með starfsfólk og það hefur komið sterkt inn í þetta verkefni okkar sem er frábært.“

Bubbi sló í gegn!

Þekktir tónlistarmenn hafa komið fram á góðgerðarfesti Blue Car á síðustu árum. Að þessu sinni kom Bubbi Morthens í fyrsta skipti og er óhætt að segja að kóngurinn hafi slegið í gegn. „Stemmningin hefur alltaf verið frábær og allir skemmt sér vel en þegar Bubbi mætti fór þetta á annað stig. Kóngurinn gjörsamlega tók salinn og var hreinlega magnaður,“ sagði Þorsteinn Þorsteinsson hjá Blue Car. En kóngurinn var ekki einn, Hnetusmjörs rapparinn og Hafnarfjarðarbræðurnir Jón og Friðrik Dór komu líka fram og mögnuðu stuðið eins og sjá má vel á myndum frá hátíðinni.

Svo miklu meira en bara hátíð

„Góðgerðarfest Blue Car Rental er ein af okkar leiðum til að gefa til baka til samfélagsins. Þannig styrkjum við og vekjum athygli á þeim mikilvægu málefnum og störfum sem unnin eru hér á svæðinu. Góðgerðarfest Blue er vettvangur fyrir fyrirtæki og einstaklinga til að koma saman í krafti fjöldans og láta gott að sér leiða. 

Hver króna sem kemur inn rennur óskipt í söfnunina og það eru framlögin sem hátíðin stendur fyrir. Við hjá Blue Car Rental sendum öllum þeim sem að söfnuninni komu miklar þakkir,“ sagði Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Blue Car Rental í stuttu ávarpi til fulltrúa góðgerðarsamtaka og félaga sem fengu fjárstyrk eftir Góðgerðarfest fyrirtækisins. 

Eftirfarandi aðilar fengu styrk í ár:

Hæfingarstöðin, dagþjónustuúrræði sem gefur einstaklingum með langvarandi stuðningaþarfir tækifæri til þess að auka hæfni sína til starfa og taka þátt í daglegu lífi. 2.500.000

Krabbameinsfélag Suðurnesja 2.500.000

Björgunarsveit Suðurnesja 2.500.000

Minningarsjóður Ragga Margeirs 2.500.000

Minningarsjóður Ölla 2.500.000

Einhverfudeildir á Suðurnesjum Öspin, Eikin Lindin og Ásgarður 5.000.000 (1.250.000 hver deild) 

Góðvild, félagasamtök sem styðja við verkefni sem bæta hag langveikra og fatlaðra barna á Íslandi og fjölskyldur þeirra. 1.250.000

Bumbulóní, góðgerðarfélag sem selur vörur til styrktar fjölskyldum langveikra barna 1.250.000.

Minningarsjóður Ölla 

„Við hjá sjóðnum erum himinlifandi að fá að vera hluti af þessu stórkostlega verkefni og innilega þakklát. Peningarnir koma sér vel, við höfum þegar farið fram úr þeirri upphæð sem var veitt úr sjóðnum allt árið í fyrra og bara síðustu fimm daga fyrir góðgerðarfestið greiddum við 238.000 krónur fyrir börn sem búa í Reykjanesbæ, svo dæmi sé tekið. Við, eins og áður, erum í góðu samstarfi við félögin og hver einasta króna sem safnast í sjóðinn fer í íþróttaiðkun barna sem búa við erfiðar aðstæður fjárhagslega. Eins og gefur að skilja eru Suðurnesin alltaf mjög stór hluti af okkar verkefni enda Ölli þekktastur þar og allt sem við gerum er í nafni Ölla heitins. Hann er með okkur í anda og sjóðurinn heldur nafni hans á lofti um ókomin ár,“ segir Særún Lúðvíksdóttir, móðir Ölla heitins en hún og María Rut Reynisdóttir, frænka hennar halda utan um starfsemi sjóðsins. Minningarsjóður Ölla er stofnaður til minningar um Örlyg Aron Sturluson en hann var ungur að árum einn efnilegasti körfuboltamaður landsins. Hann lék aðeins 19 ára gamall. 

Bumbuloní 

Bumbuloní er góðgerðarfélag sem styrkir fjölskyldur langveikra barna í minningu Björgvins Arnars sem lést aðeins 6 ára gamall úr sjaldgæfum sjúkdómi 2013.

Styrkur frá Blue Car Rental mun renna beint til fjölskyldna sem eiga langveik börn og gerir það gæfumuninn að fá svona veglegan styrk til að létta undir hjá þeim sem standa í ströngu í erfiðasta verkefni lífsins.

Bumbuloní sendir Blue Car Rental þakkar- og kærleikskveðjur fyrir velvild í garð Bumbuloní og einnig fyrir að vekja athygli á mikilvægu málefni. 

 

Krabbameinsfélag Suðurnesja 

„Krabbameinsfélag Suðurnesja hefur verið að ná sér á strik eftir heimsfaraldurinn sem setti starfsemi félagsins úr skorðum þar sem krabbameinssjúklingar eru með bælt ónæmiskerfi og því í aukinni áhættu, sem gerði það að verkum að starfsemin fór úr skorðum í heimsfaraldrinum. 

Krabbameinsfélag okkar Suðurnesjamanna er rótgróið og margir notið góðs af því starfi sem þar fer fram. Styrkurinn mun nýtast Krabbameinsfélaginu í að halda viðburði og fara í kynningarherferð til að auka þekkingu samfélagsins á þeirri þjónustu sem félagið býður upp á sem er margvísleg ráðgjöf og aðstoð í baráttunni við sjúkdóminn, bæði fyrir sjúklinginn sjálfan og aðstandendur. Hjá félaginu er stefnt að því að ná upp fyrri styrk og geta veitt öllum þeim sem glíma við krabbamein sem besta þjónustu og ráðgjöf svo sjúklingar og aðstandendur geti sótt þjónustuna í sínu nærumhverfi,“ segir Margrét Sturlaugsdóttir frá Krabbameinsfélagi Suðurnesja.

Minningarsjóður Ragga Margeirs 

„Minningarsjóður Ragga Margeirs hefur það markmið að styrkja knattspyrnumenn og aðstandendur þeirra sem eiga um sárt að binda. Sjóðurinn varð til árið 2003 útfrá minningarmóti Ragga sem haldið var í Reykjaneshöll af vinum hans, gömlum knattspyrnukempum og síðan þá hefur mótið farið fram nánast árlega. Allur ágóði sem safnast hefur af þessum mótum hefur síðan verið notaður til að standa við bakið á knattspyrnumönnum og fjölskyldum þeirra sem eiga um sárt að binda. Síðastliðin tvö ár og núna í 3ja árið í röð hefur sjóðurinn fengið myndarlegan styrk eða um sex milljónir króna samtals frá eigendum Blue Car Rental í gegnum Góðgerðarfestið þeirra. Með þessum framlagi hefur sjóðnum tekist að styrkja samfélagið af enn meiri krafti en áður. Má meðal annars nefna að sjóðurinn hefur styrkt unga iðkendur til æfingaferða erlendis bæði með félagsliðinu sínu og einnig í landsliðsverkefni, veitt styrk til fjölskyldna sem hafa staðið frammi fyrir krefjandi verkefnum tengdum veikindum eða skyndilegu fráfalli. Sjóðurinn hefur einnig getað styrkt börn sem hafa komið í leit að alþjóðlegri vernd til íþróttaiðkunar og þannig stuðlað að því að jafna tækifæri allra og reynt að ryðja úr vegi hindrunum barna til að aðlagast samfélaginu okkar. Búið er að úthluta allri þeirri upphæð sem sjóðurinn fékk í gegnum Góðgerðarfestið á síðasta ári. Styrkurinn sem sjóðurinn fær er ómetanlegur og er í raun forsenda þess að Minningarsjóður Ragga Margeirs geti haldið áfram að styrkja samfélagið með eins myndarlegum hætti og gert hefur verið. Minning Ragnars Margeirssonar lifir og mun gera um ókomna tíð,“ segir í tilkynningu frá stjórn sjóðsins.

Verkstæðið gert  að skemmtistað

Hluti af stemmningunni á bakvið góðgerðarfest Blue Car er að húsnæðið þar sem fjörið fer fram er hluti af verkstæði fyrirtækisins við Hólmsbergsbraut í Reykjanesbæ. Að sögn starfsmanna Blue Car fara margir dagar í að undirbúa hátíðina, koma fyrir græjum ,búnaði og húsgögnum til að hýsa fimmhundruð manna fjör. Og svo fer dágóður tími í frágang eftir fjörið.

Góðgerðarfest Blue Car 2023