Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Föstudagur 31. ágúst 2001 kl. 09:06

Hárgreiðslur frá alda öðli

Hárgreiðslumeistarar frá Akademiet for Historiske Frisurer í Danmörku munu sýna og kynna sögulegar hárgreiðslur frá tímabilinu 2650 f.kr til 1830 e.kr í veitingasal baðstaðarins við Bláa lónið frá kl 14:00 – 17:00 laugardaginn 1. september.
Akademiet for Historiske Frisurer var stofnað þann 5. janúar af Ludvig Brand Möller, sem hafði fengið hugmyndina frá Þýskalandi. Félagið er það fyrsta sinna tegundar á Norðurlöndum og hafa félagsmenn hafa sýnt sögulegar greiðslur í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
Hárgreiðslumeistararnir starfa í Danmörku og er sýningin haldin hér á landi í samvinnu við Hárgreiðslumeistarafélag Íslands. Íslenskar fyrirsætur munu sýna greiðslurnar í veitingasal Bláa lónsins og eru allir velkomnir að koma á sýninguna. Fyrirsæturnar verða einnig farðaðar og tímabundinn hátt og sýna stórfenglega búninga frá ýmsum tímabilum.
Þess má geta að einn hárgreiðslumeistaranna í hópnum er Ásta Karlsdóttir Lauritsen frá Grindavík, en hún býr nú og starfar í Danmörku. Ásta mun gera greiðslu sem ber nafnið Marie Antoinette, La belle Poule. Eins og nafnið ber með sér er hugmyndin að greiðslunni komin frá Marie Antoinette, eiginkonu Lúðvíks Frakklandskonungs, en þau voru bæði líflátin í frönsku byltingunni árið 1789.
Sýningin er haldin með aðstoð Grindavíkurbæjar, Sparisjóðsins í Grindavík, Hitaveitu Suðurnesja og fleiri aðila. Anna María Reynisdóttir, hárgreiðslumeistari í Grindavík sá um að útvega fyrirsætur fyrir sýninguna.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024