Hallgrímshaust í Hvalsnessókn
– Í tilefni af 400 ára fæðingarafmæli Hallgríms Péturssonar
Í tilefni af 400 ára fæðingarafmæli Hallgríms Péturssonar stendur nú yfir afmælishátíðin „Hallgrímshaust í Hvalsnessókn“.
Dagskrá hátíðarinnar hófst á Sandgerðisdögum með messu í Hvalsneskirkju þar sem sr. Kristinn Jens Sigþórsson sóknarprestur í Saurbæ á Hvalsnesströnd predikaði og kór Saurbæjarprestakalls söng.
Öll miðvikudagskvöld í september og fram í október eru kvöldstundir í kirkjunni með fjölbreyttri dagskrá. Í síðustu viku flutti hr. Karl Sigurbjörnsson biskup erindið „Hallgrímur Pétursson, púlsmaður og prestur á Suðurnesjum“ og Klassart flutti lög við ljóð Hallgríms.
Sl. miðvikudagskvöld ræddi Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur um ungmennið Hallgrím Pétursson og næsta miðvikudagskvöld mun Margrét Eggertsdóttir prófessor flytja erindið „Sá sem orti rímur af Ref. Skáld og prestur í Hvalsnesi.“
Farið verður í söguferð í tengslum við Hallgrímshaust laugardaginn 27. september og sunnudaginn 28. september verður útvarpsmessa í Safnaðarheimilinu í Sandgerði.
Miðvikudaginn 1. október flytja Smári Ólason orgelleikari og Magnea Tómasdóttir söngkona dagskrána „Sagnir og tónar í Hvalsneskirkju“ og hátíðinni lýkur síðan þriðjudaginn 7. október með dagskrá í Safnaðarheimilinu í Sandgerði á vegum Grunnskólans í Sandgerði, Leikskólans Sólborgar og Tónlistarskóla Sandgerðis undir yfirskriftinni „Hallgrímur og unga fólkið“ en þar verður m.a. lesið úr Passíusálmunum.