Hallgrímshátíð í Hvalsnessókn
Í tilefni af því að í þessum mánuði eru 350 ár liðin frá andláti sr. Hallgríms Péturssonar verður Hallgrímshátíð sunnudaginn 20. október sem hefst á messu kl. 11.00 í Hvalsneskirkju. Hljómsveitin Klassart annast tónlist. Sóknarprestur predikar í forföllum vígslubiskups. Að messu lokinni verður kirkjugestum boðið í súpu á Kaffi Golu. Þar verða svo flutt tvö áhugaverð fræðsluerindi, annað flutt af dr. Sólveigu Ólafsdóttur og hitt af dr. Torfa K. Stefánssyni Hjaltalín. Torfi kynnir jafnframt nýútkomna bók sína um sr. Hallgrím Pétursson. Magnea Tómasdóttir syngur. Hátíðleg dagskrá á helgum stað.
Kl. 20.00 sama dag verða svo stórtónleikar í Sandgerðiskirkju þar sem verkið "Um dauðans óvissan tíma" (Allt eins og blómstrið eina) verður flutt af Kór Keflavíkurkirkju, orgeli og djazzhljómsveit við lag Sólmundar Friðrikssonar. Einstakur menningarviðburður á slóðum sr. Hallgríms.
27. október, á dánardegi sr. Hallgríms Péturssonar, verður metnaðarfull dagskrá í Hallgrímskirkju í Saurbæ að viðstöddum biskupi Íslands og forseta Íslands. Dagskráin hefst á messu kl. 14.00 þar sem sr. Sigurður Grétar Hvalsnesprestur tekur þátt í þjónustu. Að messu lokinni verður kirkjukaffi í Vatnaskógi og síðan kl. 16.30-17.30 er menningardagskrá í Hallgrímskirkju í Saurbæ þar sem m.a. forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, flytur ávarp.