Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Haldið upp á 30 ára kaupstaðarréttindi Grindavíkurbæjar um helgina
Laugardagur 17. apríl 2004 kl. 11:47

Haldið upp á 30 ára kaupstaðarréttindi Grindavíkurbæjar um helgina

Í dag  verður haldið uppá 30 ára afmæli kaupstaðarréttinda Grindavíkurbæjar.  30 ár eru nú liðin síðan Grindavíkurhreppur fékk kaupstaðarréttindi en það var 10. apríl 1974. Miklar breytingar hafa orðið á ásýnd bæjarins síðan þá og hefur íbúum fjölgað úr 1.600 í 2.421 íbúa m.v. 1. desember síðastliðin. Grindavíkurbær býr yfir öflugu íþróttafólki, góðu skólakerfi og félagsþjónustu, ásamt öflugum sjávarútvegsfyrirtækjum sem styrkja bæinn. Atvinnuástandið er gott og uppbygging mikil. Á seinni árum hefur ferðaþjónusta stóraukist á svæðinu með tilkomu Bláa Lónsins og Saltfiskseturs Íslands í Grindavík.
Í tilefni dagsins mun Hr. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands koma í opinbera heimsókn.

Fjölbreytt hátíðardagskrá er í boði í um helgina á afmælishátíðinni í Grindavík.  Forseti Íslands mun flytja ávarp í Íþróttamiðstöð Grindavíkur klukkan 13:30 og í kjölfarið verður nýtt Grindavíkurlag kynnt til sögunnar.

Hátíðin hófst klukkan 10 með hátíðarfundi bæjarstjórnar.  Í dag fá Grindvíkingar frítt í Bláa Lónið gegn því að framvísa miða úr dagskránni, auk þess sem frítt er í sund fyrir Grindvíkinga bæði laugardag og sunnudag. Í Grindavíkurkirkju verður hátíðarmessa klukkan 10:30 og klukkan 13 hefst dagskrá í Íþróttamiðstöð Grindavíkur. Þar verða söngatriði og klukkan 16 verður línuskautahokkí fyrir grunnskólakrakka. Á bílastæðinu verður hoppukastali fyrir börnin.

Í Saltfisksetrinu verður sýning Soffíu Sæmundsdóttur opnuð og verður frítt í setrið verður boðið upp á saltfisksmakk. Í Saltfisksetrinu verður 2500 lítra fiskabúr formlega vígt.

Í Kvennó verða Grindvískar myndir sýndar á tjaldi frá klukkan 17 til 18 og í Félagsheimilinu Festi verður boðið í kaffi frá 16 til 17:30. Klukkan 16:30 kemur Latibær í heimsókn í Festi og klukkan 17:30 tekur Kalli Bjarni lagið. Frá klukkan átta um kvöldið og til miðnættis verður diskótek fyrir unglingana. Um kvöldið verður boðið upp á margvíslega dagskrá á veitingastöðum bæjarins.

Á sunnudeginum verður farið í gönguferð um Selatanga undir leiðsögn Ómars Smára Ármannssonar. Klukkan 18 verða tónleikar í Grindavíkurkirkju.

Myndin: Tæplega 2500 lítra fiskabúr verður formlega vígt í Saltfisksetri Íslands í tilefni afmælisins. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024