Hákon ríkisarfi hreifst af bátasmíðum Gríms
Bátalíkön af um 100 ára gömlum norskum síldveiðiskipum reyndust Norðmönnum happafengur en þeir höfðu talið það ógerlegt að smíða slík líkön. Ógerlegt uns þeir komust í kynni við Grím Karlsson.
Bátafloti Gríms Karlssonar hefur vakið verðskuldaða athygli en hann er til sýnis í Duushúsum í Reykjanesbæ. Það var fyrir um tveimur árum sem Grímur stóð að sýningu á Siglufirði með aðstoð góðvinar síns Árna Johnsen. Á sýningunni var helst að finna þessi líkön af norsku síldveiðibátunum og fór sýningin fram í íþróttahúsinu á Siglufirði.
„Hákon ríkisarfi var á meðal þeirra sem sóttu sýninguna á Siglufirði og var hann mjög hrifinn af líkönunum,“ sagði Grímur Karlsson, bátasmiður, í samtali við Víkurfréttir. Bátalíkönin vöktu síðan athygli Norðmanna og úr varð að þeir keyptu ein níu líkön af Grím til sýninga í Noregi. „Bátarnir hafa verið á sýningum víðs vegar um Noreg, fyrir þeim var þetta tímabil glatað,“ sagði Grímur og átti þá við að líkön af norskum síldarbátum frá árunum 1885-1920 væru glötuð því enginn treysti sér til þess að smíða þau. Grímur gat smíðað skipin því hann þekkti þau eftir minni og af gömlum ljósmyndum.
„Flutningur bátanna til Noregs var fjármagnaður af Glitni og aðilum í Noregi en gert er ráð fyrir að þeim verði komið endanlega fyrir á safni í Bekkjarvík í Noregi,“ sagði Grímur. Bátarnir sem Grímur smíðaði voru þeir fyrstu til þess að stunda síld- og þorskveiðar á opnu úthafi frá Noregi og finnst heimamönnum þeir svo sannarlega hafa dottið í lukkupottinn.
Bátasmíðar Gríms eru ekki aðeins glæsilegar heldur nákvæmar heimildir um bátaflota okkar Íslendinga og nú Norðmanna.