Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hagvöxtur á heimaslóð á Suðurnesjum
Miðvikudagur 23. apríl 2008 kl. 09:16

Hagvöxtur á heimaslóð á Suðurnesjum


Þrettán aðilar í ferðaþjónustu á Suðurnesjum luku þátttöku í verkefninu Hagvöxtur á heimaslóð (HH) í síðustu viku.

Á vefsíðu Grindavíkurbæjar segir að verkefnið hafi hafist í febrúar og hittust þátttakendur á fjórum vinnufundum á tímabilinu þar sem þeir hlustuðu á fyrirlestra og unnu verkefni á sviði stefnumótunar, vöruþróunar og markaðssetningar. Sérstök áhersla var lögð á samvinnu innan svæðisins. Að auki fær hvert fyrirtæki tíu tíma sérfræðiráðgjöf til að fylgja eftir markmiðum verkefnisins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Fyrsta samstillta átakið sem HH hópurinn á Suðurnesjum stendur að er skipulagning dagskrár á svæðinu í tengslum við verkefnið „Ferðalangur á heimaslóð“ sem fram fer á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 24. apríl. Markmið verkefnisins er að fá almenning til að kynna sér fjölbreytta ferðaþjónustu heima fyrir og hefur Höfuðborgarstofa yfirumsjón með skipulagningu þess.

Þátttakendur í HH verkefninu á Suðurnesjum voru: Aðal-Braut, Anna og Sólveig, Bláa lónið, Byggðasafn Garðskaga, Eldfjallaferðir, Ferðamálastamtök Suðurnesja, Fræðasetrið í Sandgerði, Grindavíkurferðir, Heimagisting Borg, Saltfisksetur Íslands, Skagaflös, Upplýsingamiðstöð Reykjaness og Vitinn.


Námskeiðið á Suðurnesjum var það sjöunda í röð samskonar námskeiða sem haldin hafa verið um landið. Fyrsta verkefninu var ýtt úr vör á Vesturlandi árið 2004, en einnig hefur það verið haldið á Vestfjörðum, Norðurlandi, Suðausturlandi, Suðurlandi og nú síðast á Austurlandi. Alls staðar hefur í kjölfar verkefnisins verið mikill áhugi á áframhaldandi samstarfi og bæði á Vesturlandi og Suðausturlandi er orðið til fastmótað samstarf. Útflutningsráð hefur þróað HH verkefnið í samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar, Impru Nýsköpunarmiðstöð, Ferðamálasetur Íslands og Byggðastofnun en að auki nýtur verkefnið stuðnings frá Landsbankanum.


Af vef Grindavíkur, www.grindavik.is