Hættulegasti staður í heimi fyrir börn
Samstöðu- og styrktartónleikar fyrir Palestínu
Samstöðu- og styrktartónleikar fyrir Palestínu verða haldnir á Paddy’s fimmtudaginn 21. mars næstkomandi þar sem Ingi Thoe & Markúr, Fríða Dís og Æla koma fram. Þær Fida Abu Libdeh og Linda Björk Pálmadóttir eru meðal skipuleggjenda styrktartónleikanna og Víkurfréttir spjallaði við þær um tilurð tónleikanna.
„Það gekk ofboðslega vel að fá tónlistarfólk í þennan viðburð,“ segir Linda, „allir mjög jákvæðir fyrir málefninu og þetta var hugsað að reyna að fá listafólk héðan. Við eigum fullt af flottu listafólki svo okkur þótti ekki þörf að leita annað. Þetta verða ofboðslega flottir tónleikar og mikið lagt í þá. Svo mun Fida segja frá Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínu.“
Fida Abu Libdeh, stofnandi og framkvæmdastýra GeoSilica, mun deila reynslu sinni og fjölskyldu hennar af Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna.
„Þegar við flúðum frá Palestínu og fluttum til Íslands var ég sextán ára,“ segir Fida. „Ég hef þegið þjónustu frá UNRWA og þekki alveg hversu mikilvæg þessi stofnun er. Með tónleikunum erum við að minna á að þetta er stofnun sem Íslendingar eiga að vera að styrkja en ekki að stöðva greiðslur til þeirra. Ísland er eitt fárra landa sem er ennþá að frysta greiðslur til þeirra.“
„Allur ágóði af tónleikunum mun renna beint í neyðarsöfnun sem Ísland-Palestína stendur fyrir fyrir Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna,“ bætir Linda við. „Ef einhvern tímann hafi verið nauðsyn þá er það sannarlega núna. Að þessi stofnun geti haldið uppi eðlilegri starfsemi því ástandið í Palestínu er hræðilegt. Þessi stofnun er hryggjarstykkið í öllu mannúðarstarfi á svæðinu.“
„UNRWA er að skaffa íbúum vatn og mat, efla sjúkrahúsin og heilsugæsluna. Þannig að þetta er mjög mikilvægt starf sem þau eru að vinna. Það er svolítið fyndið að þessi stofnun varð til þegar heimurinn fór að sjá eftir að hafa afhent Palestínu til Ísraelsmanna árið 1948. Hún var svona afsökunarbeiðni frá Evrópu og Sameinuðu þjóðunum og átti að starfa meðan verið var að finna lausn á þessum málum. UNRWA er ennþá starfandi í dag, 75 árum eftir stofnun hennar.“
Staða Palestínumanna í dag
Fjölmargir Palestínumenn og fjölskyldur þeirra hafa flúið til nágrannalandanna en talið er að um þrjár milljónir búi þar, ein milljón á Gaza og tvær milljónir á Vesturbakkanum, svo eru um sjö hundruð þúsund sem búa í Austur-Jerúsalem. „Það eru alveg sex milljónir Palestínumanna sem búa í flóttamannabúðum í nágrannalöndum eins og Líbanon og Jórdaníu,“ segir Fida.
„Ég er fædd í Jerúsalem og er því ekki skilgreind sem Palestínumaður heldur flóttamaður,“ segir Fida. „Þegar landið var tekið af okkur árið 1948, og fjöldamorð voru framin á Palestínumönnum, þá flúðu margir. Þeir sem búa í Jerúsalem eru flokkaðir sem flóttamenn og hafa ekki kosningarétt, hafa hvorki dvalarrétt né atvinnuleyfi og þess vegna er UNRWA-stofnunin að vernda okkur. Því við höfum engin réttindi og fáum ekki að snúa aftur heim. Höfum stöðu flóttamanna kynslóð eftir kynslóð.“
Er hægt að fasta þegar fólk sveltur?
Fida segist þurfa að hvíla sig reglulega á fréttum frá Palestínu. „Ég verð stundum að taka pásu þegar þetta er að fara með mann. Það er mjög erfitt að horfa upp á þetta – en ég er mjög þakklát fyrir stuðning Íslendinga, íslenska fólksins, ekki ríkisstjórnarinnar. Það er alltaf vel mætt á alla sam-stöðufundi, alla tónleika og safnanir. Í einni söfnun fyrir stuttu söfnuðust sjötíu milljónir, það segir margt um hugarfar Íslendinga. Því finnst þetta rangt og þetta er bara rangt.“
„Það er svo skrítið að upplifun fólksins virðist ekki vera í neinu samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar, engan veginn,“ segir Linda.
„Sem er mjög skrítið því þetta á að vera lýðræðisríki. Þetta fólk er kosið af okkur og á að sinna okkar hagsmunum,“ bætir Fida við.
Linda segir að það sé búið að gefa út að Gaza sé hættulegasti staður í heimi fyrir börn í dag. „Bæði öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og UNESCO hafa sagt þetta. Svo hafa læknar gefið út að börn eru að fæðast þarna í undirþyngd, um 2,7 kg, það er vel undir normalkúrfu.“
Að lokum segist Fida hafa miklar áhyggjur af stöðu mála núna þegar Ramadan, föstumánuður músl-ima, er genginn í garð. „Ramadan byrjaði fyrr í mars – en hvernig er hægt að fasta þegar fólk er að svelta?“ spyr Fida að lokum.
Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínu, UNRWA (The United Nations Relief and Works Agency for Palestine Refugees), var stofnuð í lok árs 1949 eftir að hundruð þúsunda flúðu heimili sín í Palestínu í stríði -Palestínumanna og Ísraela sem braust út eftir stofnun Ísraelsríkis árið 1948. UNRWA hefur leikið lykilhlutverk í að styðja við bakið á flóttamönnum frá Palestínu frá stofnun og reiðir sig á fjárframlög frá aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, auk þess er nokkur hluti útgjalda greiddur af reglulegum fjárlögum Sameinuðu þjóðanna. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þáverandi utanríkisráðherra, undirritaði samning um stuðning Íslands við UNRWA fyrir árin 2024–2028 þann 21. september síðastliðinn í tengslum við Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. Þar samþykkti Ísland að auka árlegan stuðning sinn við UNRWA úr 25 milljónum króna í 110 milljónir. Ísland var hins vegar meðal fyrstu ríkja Evrópu til að stöðva fjárstuðning við samtökin vegna ásakana á hendur tólf starfsmönnum stofnunarinnar um aðild þeirra í mannskæðri árás Hamas á Ísrael þann 7. október 2023. Uppfært: Sama dag og Víkurfréttir fóru í prentun (18. mars 2024) gaf utanríkisráðuneytið út að það ætlaði að hefja greiðslur til UNRWA um næstu mánaðarmót. |
Miðar verða seldir við inngang og byrjar miðasala kl. 19:30, miðaverð er 2500 kr.
Þau sem vilja styðja málstaðinn en komast ekki á tónleikana er bent á að hægt er að leggja inn á eftirfarandi reikning hjá Félagið Ísland-Palestína:
Kennitala: 520188-1349, reikningsnr: 542-26-6990, skýring: „KEF“
Öll innkoma af tónleikunum mun renna í neyðarsöfnun fyrir flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínu (UNRWA).