Hádegistónleikar Tónlistarfélags Reykjanesbæjar
Nýi kvartettinn mun flytja lög af nýútkomnum diski sínum á árlegum hádegistónleikum Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í Listasafni Reykjanesbæjar, Duushúsum, föstudaginn 19. desember.
Nýi Kvartettinn var stofnaður á haustdögum 2008 og hefur starfað síðan þá. Þann 30. nóvember kom út platan Fegursta rósin. Kvartettinn skipa þeir Gissur Páll Gissurarson tenórsöngvari, Hjörleifur Valsson fiðluleikari, Árni Heiðar Karlsson píanóleikari og Örnólfur Kristjánsson sellóleikari. Allar útsetningar á lögunum eru unnar af þeim sjálfum og er bakgrunnur þeirra mjög fjölbreyttur og gætir áhrifa bæði úr klassík og djassi. Gissur Páll hefur verið að vekja verðskuldaða athygli fyrir sinn söng en þetta er fyrsta platan sem hann vinnur. Hjörleif Valsson þarf vart að kynna því þar fer einn fremsti fiðluleikari þjóðarinnar. Hann hefur komið fram á fjölda tónleika víða um Evrópu, samið, útsett og leikið tónlist fyrir leikhús og margoft tekið þátt í upptökum fyrir útvarp, sjónvarp, kvikmyndir og hljómplötuútgáfur. Hann leikur á fiðlu smíðaða af Antonio Stradivari frá árinu 1732. Árni Heiðar hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi, m.a. spilað með Djasstríói Reykjavíkur auk þess sem sólóplata hans var útnefnd til íslensku tónlistarverðlaunanna sem besta djassplatan árið 2001. Örnólfur Kristjánsson hefur m.a. verið leiðandi sellóleikari í Hljómsveit Íslensku Óperunnar og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, auk þess sem hann hefur leikið inn á fjölda geisladiska. Það verður því verulega fjölbreytt, hátíðleg og gleðileg stemning á þessum tónleikum.
Tónleikarnir hefjast kl. 12:15. og verður boðið upp á jólaglögg og piparkökur.
Aðgöngumiðaverð er kr. 1000-
Munið að félagsmenn sem greitt hafa árgjald fá 20% afslátt af miðaverði.
Sala aðgöngumiða fyrir tónleika fer fram í Listasafni Reykjanesbæjar í DUUS húsum á opnunartíma safnsins sem er alla daga kl. 11:00 -17:00, auk þess er hægt að hringja inn í síma 421 3796.
Framundan er spennandi dagskrá hjá Tónlistarfélaginu sem verður auglýst síðar.