Hádegisfyrirlestur - markaðssetning í samfélagsmiðlum
Þóranna Jónsdóttir frá Markaðsmál á mannamáli mun halda hádegisfyrirlestur í Eldey um markaðssetningu í samfélagsmiðlum miðvikudaginn 31. október kl. 12 - 13:00.
Farið verður yfir helstu miðla og mismunandi notkunarmöguleika þeirra en markaðssetning í samfélagmiðlum hentar vel sprotafyrirtækjum sem hafa ekki mikið fjármagn í dýrar auglýsingar.
Þóranna er að eigin sögn markaðsnörd sem elskar að vinna með kraftmiklu, metnaðarfullu og ástríðumiklu fólki. Hún hefur unnið á auglýsingastofu í London (Publicis fyrir Renault), á auglýsingastofu í Reykjavík (Gott fólk McCann) þar sem hún vann fyrir mörg stærstu fyrirtæki landsins (EJS, Ölgerðina, 365, Sjóvá, Lyf og heilsu, Straum Burðarás o.fl.). Hún starfaði við markaðsmál fyrir Sparisjóðinn og fór svo út í eigin rekstur með félaga sínum þar sem hún sá um framkvæmda- og fjármálastjórn og öll markaðs- og auglýsingamál. Áður en hún stofnaði Markaðsmál á mannamáli starfaði hún við ráðgjöf við frumkvöðla og lítil fyrirtæki hjá frumkvöðlasetrinu Eldey.
Þóranna er virk í nýsköpunar- og sprotaumhverfinu hér á Íslandi.
„Innan þess umhverfis hef ég glögglega séð þörf hjá einyrkjum og smærri fyrirtækjum á því að efla markaðsstarfið. Því miður ná góðar vörur og þjónustur oft ekki flugi einfaldlega vegna þess að þekking á markaðsmálunum er ekki til staðar. Markaðsstarfið er lífæð fyrirtækisins, ef það er ekki unnið vel þá koma engir viðskiptavinir og án viðskiptavina er enginn rekstur. Meiri þekking á markaðsmálum, og aðstoð við að skipuleggja markaðsstarfið og gera það markvissara, er oft það sem þarf í minni fyrirtækjum og þá þýðir ekki að nota markaðsfræði “mumbo jumbo” og ætlast til að fólk taki háskólanám í faginu. Það þarf bara að fá það sem virkar.“