Gunnhildur Vilbergs: Mun drekka í mig alla sólargeisla sem ég kemst í
Gunnhildur Vilbergsdóttir, markaðsstjóri og forstöðumaður Heilsuskóla Keilis, ætlar að taka þátt í barnahátíðinni í Reykjanesbæ af fullum krafti. Þá er hún með óskipulagað utopiudagskrá fyrir sumarið.
- Hvernig á að verja páskunum?
„Stærsti hluti páskanna fer eflaust í að taka mesta vindinn úr drengjunum tveimur, 2ja og 5 ára, á hverjum degi svo hesthúsið, fótboltavöllurinn, íþróttahúsið og sundlaugin fá tíðar heimsóknir. Sé fyrir mér að taka þátt í barnahátíðinni í Reykjanesbæ af fullum krafti. Eitthvað verður líka um kirkjukórstarf, matarboð hjá mömmu og pabba og vinahittinga“.
- Gefur þú mörg páskaegg eða færðu mörg egg?
„Ég kaupi páskaegg fyrir mennina mína þrjá. Er ekki enn búin að ákveða hvort ég eigi að rjúfa 4ra mánaða nammibindindi. Jói spyr mig á hverjum degi því hann ætlar aldrei aftur að gleyma því að kaupa páskaegg fyrir mig. Held að hann fái enn martraðir um titrandi neðri vörina á mér“.
- Hvað á að gera skemmtilegt í sumar?
„Drekka í mig alla sólargeisla sem ég kemst í, hlaupa, ríða út í sveitinni, fara í fjallgöngu, ferðast, grilla og skála með góðum vinum. Þannig lítur allavega utopiusumarið mitt út – lítið planað“.
- Á að ferðast innanlands eða utan?
„Sitt lítið af hvoru“.
- Hvernig sumar fáum við?
„Það verður yndislegt sumar – glasið yfirfullt“.
- Hvað hefur þú verið að gera í vetur?
„Vinnan hjá Keili hefur átt mig alla í vetur en sem betur fer er ég að vinna með frábæru fólki og verkefnin eru mjög krefjandi og spennandi. Yfirvinnan tekur svo við eftir kl 4 á daginn með orkuboltunum tveimur sem gefa ekki þumlung eftir. Byrjaði svo aftur í kirkjukórnum með brósa og mömmu eftir 10 ára hlé. Var búin að gleyma hvað kórstarfið gefur manni mikla gleði og fyllingu“.