Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gunnar skólastjóri kvaddur með stæl í Heiðarskóla
Gunnar Þór Jónsson var leystur út með gjöfum þegar hann var kvaddur í Heiðarskóla. VF-mynd/pket.
Laugardagur 13. apríl 2013 kl. 15:12

Gunnar skólastjóri kvaddur með stæl í Heiðarskóla

Gunnar Þór Jónsson sem lét nýlega af starfi skólastjóra Heiðarskóla var kvaddur með glæsibrag í vikunni. Kveðjustund var í íþróttasal skólans þar sem Gunnari voru þökkuð frábær störf í þágu skólans.

Kennarar, nemendur og bæjarstjóri færðu Gunnari gjafir en hann hefur starfað við kennslu eða skólastjórn frá árinu 1973, fyrst í Barnaskóla Keflavíkur, sem nú heitir Myllubakkaskóli.
Nemendur á yngsta stigi fóru með vinavísu og miðstigsnemendur sungu „Ég er sko vinur þinn“. Arna Vala Hlynsdóttir og Markús Már Magnússon, fulltrúar nemenda á unglingastigi færðu Gunnari sem er duglegur kylfingur, pólóbol  með merki Heiðarskóla en hann fékk líka golfgjafir með Heiðarskólamerkinu frá kennurum. Unglingarnir framkölluðu síðan sína flugeldasýningu þegar þeir sprengdu blöðrur í salnum fráfarandi skólastjóra til heiðurs. Kennarar sungu frumsaminn texta við þekkt lag við undirleik Guðmundar Hermannssonar. Í lok kveðjustundarinnar sungu allir skólasöng Heiðarskóla.
Þessi kveðjustund var hjartnæm. Gunnar fékk mörg „knús og föðm“ frá nemendum og sumir þeirra felldu tár. Gylfi Jón Gylfason, fræðslustjóri Reykjanesbæjar var einn ræðumanna og þakkaði hann Gunnari frábær störf og sagði m.a. að nemendur á unglingastigi myndu fá Ipad spjaldtölvur á næstu vikum. Heiðarskóli hefur verið leiðandi í þeirri þróun að nota spjaldtölvur í náminu. Skólinn hefur alla tíð verið í fararbroddi í námsárangri en eins og VF hefur greint frá hefur námsárangur í skólum Reykjanesbæjar verið á stöðugri uppleið á undanförnum árum.
Sóley Halla Þórhallsdóttir nýráðinn skólastjóri Heiðarskóla þakkaði einnig Gunnari hans störf en Sóley var aðstoðarskólastjóri frá árinu 2003 þar til hún tók við keflinu núna í vor.

Sjá videobrot frá kveðjustundinni hér að neðan.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sjá fleiri ljósmyndir hér.