Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gunnar og Þróttur fengu menningarverðlaun
Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri Voga, Petra Ruth Rúnarsdóttir og Gunnar Júlíus eftir afhendingu menningarverðlaunanna.
Laugardagur 4. maí 2019 kl. 10:00

Gunnar og Þróttur fengu menningarverðlaun

Menningarverðlaun Sveitarfélagsins Voga voru afhent í annað sinn á sumardaginn fyrsta. Að þessu sinni fengu Ungmennafélagið Þróttur og Gunnar Júlíus Helgason, Þróttarfélagi og fyrrverandi formaður félagins verðlaunin.

Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Tjarnarsalnum og þar kom fram Tríó Grande sem er skipað Alexöndru Chernyshovu sópransöngkonu, Rúnari Þór Guðmundssyni tenórsöngvara og Helga Hannessyni píanóleikara. Að afhendingu lokinni var boðið upp á veitingar og þá var opnuð myndlistarsýning með verkum listamanna sem eru búsettir í Vogum eða tengjast sveitarfélaginu sterkum böndum. Þeir sem áttu verk á sýningunni að þessu sinni voru: Björgvin Hreinn Guðmundsson, Frank H. Sigurðsson, Hergeir á Mýrini, Kristín Erla Thorarensen, Sigrún Þórðardóttir, Siv Sæmundsdóttir, Sæmundur Þórðarson og Þuríður Ingibjörg Klemensdóttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tríó Grande.

Varð formaður 19 ára
Gunnar Júlíus Helgason hefur verið virkur félagsmaður hjá UMFÞ og í hreyfingunni frá unga aldri, Gunnar á að baki áralangt starf í þágu félagsins og sinnt hinum ýmsu grasrótarverkefnum frá unga aldri. Gunnar fór í stjórn UMFÞ ungur að árum og varð formaður félagsins árið 1993 aðeins 19 ára gamall. Fram að þeim tíma hafði hann verið iðkandi, sjálfboðaliði, þjálfari og sinnt hinum ýmsu verkefnum fyrir Þrótt þrátt fyrir ungan aldur.

Gunnar er einn af fáum sem hefur spilað mótsleiki í körfubolta, handbolta og knattspyrnu undir merkjum Þróttar og var einn af frumkvöðlum handboltaævintýrsins árið 2004 þegar Þróttur sendi lið til leiks í bikarkeppni HSÍ „uppá grínið“. Rataði verkefnið í fjölmiðla við mikla kátínu Vogabúa og annarra handboltaunnenda. Í ljósi þess að um var að ræða heimastráka sem aldrei höfðu æft handbolta áður.
Gunnar spilaði fyrir meistaraflokk Þróttar á sínum tíma og varð fyrsti leikmaður í sögu félagsins til að ná 100 leikjum. Var sá leikur gegn Mána frá Höfn í Hornafirði. Gunnar sat í stjórn Knattspyrnudeildar til fjölda ára og hefur komið að hinum ýmsu verkefnum í uppgangi félagsins sl. árin. Þegar meistaraflokkurinn var endurvakinn árið 2008 og Vogavöllur ekki í ástandi til að taka á móti leikjum í Íslandsmóti tók Gunnar að sér verkefnið í sjálfboðaliðastarfi án allar aðkomu félagsins og sveitarfélagsins á þeim tíma. Völlurinn stóðst prófið og félagið fékk að spila heimaleikina í Vogum á undanþágu næstu árin.

Árið 2007 fór Gunnar í áheitagöngu til styrktar UMFÞ með frænda sínum Hilmari Sveinbjörnssyni. Gengu þeir félagar þvert yfir Ísland 680 kílómetraleið og tók ferðalagið tuttugu daga. Árið 2016 keppti Gunnar Helgason fyrir hönd Þróttar Heiðmerkurtvíþraut Ægis og endaði í 11. sæti á tímanum 01:16:58. Hlaupið er 8 km og hjólað 15 km. Keppendur voru 30 og því má árangur Gunnars teljast góður sé tekið mið af því að hann var að keppa í fyrsta sinn.

Gunnar tók við formennsku í Ungmennafélaginu Þrótti á ný árið 2015 og hefur verið í aðalstjórn sl. fjögur árin.