Guðrún Pálína hlaut Hljóðnemann
Verður fulltrúi FS í Söngkeppni framhaldsskóla.
Guðrún Pálína Karlsdóttir varð hlutskörpust í Hljóðnemanum, söngkeppni nemendafélagsins NFS, sem fór fram í Andrews leikhúsinu sl. laugardag. Guðrún Pálína verður því fulltrúi skólans í Söngkeppni framhaldsskólanna síðar í vetur. Hún flutti lagið Jealous með Labrinth. Frá þessu er greint á vefsíðu FS.
Í öðru sæti urðu Sigurður Smári Hansson og Sólborg Guðbrandsdóttir en þau sungu Islands in the Stream sem skötuhjúin Kenny Rogers og Dolly Parton gerðu vinsælt hér um árið. Þriðji varð svo Guðlaugur Ómar Guðmundsson með All of Me með John Legend.
Keppnin var glæsileg að vanda enda mikið í hana lagt. Kynnir var Níels Thibaud Girerd, betur þekktur sem Nilli. Boðið var upp á skemmtiariði í hléum en þar var á ferðinni söngur frá Vox Felix og dansatriði frá Danskompaní en auk þess söng Ásdís Rán sem var fulltrúi skólans í söngkeppni framhaldsskólanna í fyrra. Í dómnefnd voru Elíza Newman, Íris Dröfn Halldórsdóttir og Björgvin Ívar Baldursson.
Hér er myndband með sigurflutningnum.
Fleiri myndir frá keppninni má sjá hér.