Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Guðrún Einarsdóttir á Listasafni Reykjanesbæjar
Þriðjudagur 17. janúar 2006 kl. 13:23

Guðrún Einarsdóttir á Listasafni Reykjanesbæjar

Laugardaginn 21. janúar n.k. kl. 15.00 verður opnuð einkasýning Guðrúnar Einarsdóttur á Listasafni Reykjanesbæjar. Guðrún sýnir þar rúmlega tuttugu ný verk unnin með olíu á striga ásamt skúlptúrum unnum úr frauðplasti og litarefni á tré.

Í sýningarskrá sem gefin er út af þessu tilefni segir Aðalsteinn Ingólfsson m.a. um verk Guðrúnar: “ Í seinni tíð hefur Guðrún lagt bæði dýpri og heildrænni skilning í ,,náttúruna”, tengt saman hinar stóru lífrænu heildir jarðfræðinnar, smáheima líffræðinnar og ofurvíddir stjörnufræðinnar. Í nýjustu verkum hennar erum við stödd við upptök sjálfs lífsins, þar sem síbreytingin er eina staðreyndin sem hægt er að reiða sig á. Um leið eru verk Guðrúnar langt í frá köld og vísindaleg; þvert á móti eru þau borin uppi af ríkum og fullkomlega ,,órökrænum” tilfinningum. Þær tilfinningar snerta umgengni okkar við þá margbrotnu og viðkvæmu lífrænu veröld sem við höfum fengið að láni og eigum að skila óskaddaðri til afkomenda okkar.”

Guðrún Einarsdóttir hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum frá árinu 1990. Hún hefur hlotið viðurkenningu sem einn af okkar áhugaverðustu listamönnum í dag og var m.a. einn af fulltrúum Íslands á Carnegie Art Award 1999. Sýningin er opin alla daga frá kl. 13.00-17.30 og er staðsett í sýningarsal Listasafnsins í Duushúsum, Duusgötu 2-10 í Reykjanesbæ. Sýningin stendur til 5. mars n.k.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024